Færsluflokkur: Ferðalög

Síðasta bloggið frá Nepal

Nú er komið að heimför og verður þetta síðasta blogg okkar að þessu sinni héðan frá Nepal.  Við höfum verið fremur andlausar frá síðasta bloggi enda gífurlegur hiti hér og við næstum bensínlausar hér í Kathmandu.  Enda var landamærunum hér lokað í 11 til 12 daga og ekkert eldsneyti að fá.  Ýmislegt markvert hefur gerst og örugglega frá mörgu að segja en tíminn er takmarkaður því í dag höfum við verið að pakka niður og skiljum ekkert í því hvað mikið dót leynist hér og þar.

Við höfum farið a.m.k. tvisvar sinnum í Boudha stúpuna í apríl og að vanda verið blessaðar í bak og fyrir.  Drukkið heilagt vatn og það bætti heldur betur matarlystina hjá Fríðu P og klæðskerasaumuðu fötin að verða of lítil.  Við höfum eignast vini þar Búddamunka sem hafa heillast mjög af okkur og þá sérstaklega Fríðu G.  Hafa þeir stjanað við okkur, frætt og blessað okkur og svei mér þá ekki gift okkur líka að Búddiskum sið J  allavega sögðu þeir að við ættum einstakt dharma saman.  Indælir drengir sem hafa snert hjörtu tveggja miðaldra.

Við fórum í beuty saloon til að gera okkur fínar og til að taka upp heimildarmyndir.  Heilluðust snyrtidömurnar svo af Fríðu P, vildu taka mynd af henni til að hengja upp í snyrtistofunni.  Það eru nú ekki allir sem verða topp model á svip stundu.  Mikið er búið að hlægja af þessu og nú er hún kölluð Beuty Palma hér í Kathmandu, sem sagt orðin fræg, loksins kom að því.

Fríða P fékk það hlutverk að skipuleggja fer og um síðustu helgi fórum við í fjallaferð með G.Önnu, Snjólaugu, Sigga, Auðbjörgu, Agli og Önnu Siggu.  Átta stk. af íslendingum var troðið í Landcruser og hossast var af stað.  40 km vegalengd tók okkur 3 tíma, reyndar fór ca. ½ klst forgörðum þar sem bílstjórinn rataði ekki og við kunnum ekki við að skipta okkur af.  Á endanum lóðsuðum við hann á áfangastað.  Vegurinn var að megninu til vegaslóði og áður en á áfangastað var komið leist kvenpeningnum ekki á og vildi fremur ganga en keyra.  Á því augnabliki missti Fríða P alla vini sína í einum vettvang og varð að ganga langt á eftir hópnum á leiðarenda.  Þegar loks var komið á áfangastað var Fríðu P fyrirgefið því staðurinn var æðislegur og útsýnið með eindæmum.  Áttum við frábærar stundir saman, mikið var hlegið og grínast, einnig farið í göngutúra.  Við fríðurnar urðum eftir og gistum eina nótt í viðbót og sátum einar að bílnum á heimleiðinni.  Reyndar fékk hótelstjórinn far með okkur til Kathmandu og fór með okkur í smá sightseen.  Í litlum bæ á heimleiðinni var stoppað og við skoðuðum bæinn og musteri.  Vildi svo vel til að akkúrat þennan dag voru ungar stúlkur að ganga í helgidóm.  Á aldrinum 6 - 11 ára eru allar stúlkur giftar guðunum og afstaða tunglanna verður að vera sérstök þegar þessi athöfn fer fram.  Þær eru lokaðar inn í 12 daga, mega ekki sjá sólina né karlmenn.  Og viti menn það er eins og annað hér í Nepal allt kemur óvænt uppí hendurnar á okkur og við urðum vitni að þessum sérstaka atburði.  Mjög skemmtileg helgi með frábæru fólki sem mun seint gleymast.

Við komum heim á mánudaginn og hittum svo Sigga, Auðbjörgu og krakkana um kvöldið.  Þau buðu okkur í mat á frábærum veitingastað, besti matur sem við höfum fengið og yndisleg kvöldstund.  Munum við sakna þeirra mikið og stefnum að því að heimsækja þau á næsta ári hvar í veröldinni sem það verður nú. Skemmtileg og heillandi hjón í alla staði.

Fríða P ákvað að fara í klippingu hér fyrir heimferðina og Hodras vinur okkar lóðsaði hana til rakarans og yfirgaf hana síðan.  Viltu hafa það stutt spurði rakarinn.  Nei en þú mátt þynna það.  Svo byrjaði hann fimlega að klippa.  Á meðan dönsuðu kakkalakkarnir á borðinu fyrir framan.  Nepölsk, já í húð og hár og kippti sér ekkert upp við þetta.  Jæja hárið fauk af, næstum krúnurökuð en það vex.  Næst setti hann eitthvað hvítt í lófa sinn og ætlaði að maka því í andlitið.  Nei, ætlar hann virkilega að raka mig?  Í svona sekúndubrot fór virkileg um hana.  No chemicals sagði hann loks, skellti þessu í andlitið og nuddaði og nuddaði.  Húðhreinsun á rakarastofu og ekki nóg með það heldur skellti hann maskara í fésið, lagi kodda á borðið, hausinn þar á (hjá kakkalökkunum) og svo byrjaði handar-, bak- og herðanudd.  Dásamlegt líf nema þetta var ekki nepalíprís.

Í gær komu svo tíbetsku vinir okkar spes ferð frá Pokhara til að elda handa okkur og kveðja.  Engin lýsingarorð eru nógu góð til að lýsa þessum dásamlegu hjónum, þau eru einstök og munu ætíð eiga stóran sess í hjörtu okkar.  Maturinn tíbetskur og einstaklega góður.  Við áttum mjög góðar stundir með þeim, færðu okkur gjafir, tíbetskt te, stampa og margt fleira.  Í fyrramálið ætla þau að fylgja okkur út á flugvöll og sú kveðjustund verður erfið eins og aðrar.

Okkur var farið að hlakka mjög til að koma heim en við finnum fyrir miklum trega að yfirgefa Nepal og erum hálfklökkar.  Ferðin hefur verið frábær í alla staði og við hefðum ekkert vilja hafa neitt öðruvísi en það var.  Ógleymanlegur tími og vonandi mun við hafa tækifæri til að koma aftur.


Everest flug

Við ætluðum að vera farnar í fjallaferð til Jomosom sem er lítið fjallaþorp í Annapurna fjallahringnum miðjum.  Veður gerast válind meira að segja hér í Nepal.  Höfum við frestað ferðinni þar sem rok, rigning og thunderstorm hefur verið á þessu svæði og ekkert gaman þegar maður getur ekki notið fallegrar fjallasýnar.  Því fórum við á sunnudaginn sl. í útsýnisflug yfir Himalaya fjöllin hér suðaustur af Kathmandu.  Við þurftum að vakna kl. 04 og vera mættar fyrir utan ferðaskrifstofuna kl. 05:30.  Á næturnar er höfuðborgin hér gjör ólík því sem er að degi til. Járnhlerar fyrir öllum búðum, dauðar rottur hér og þar. Og engar götulýsingar. Lentum í smá basli með bíl en leigubíll á vegum ferðaskrifstofunnar átti að sækja okkur.  Á réttum tíma stoppaði bíll og við vorum að reyna að spyrja þá hvort þeir væru þeir réttu en við værum að fara í Everest flug.  Þeir kinkuðu kolli og þegar á völlinn var komið kom í ljós að þetta var bara venjulegur leigubíll og við þurftum að greiða fyrir farið sem átti að vera frítt.  Við þurfum greinilega að læra Nepalí-tungumálið.  Við vorum mjög lánsamar að skyggnið var frábært og flugið tók um klukkustund.  Flugvellirnir hér eru kapítuli út af fyrir sig.  Mikil öryggisgæsla, allur búnaður skannaður og leitað á farþegum þrisvar sinnum.  Lítið gaf til kynna hvert maður átti að fara og hvenær vélin færi.  Jú, einhver manneskja æddi um og hrópaði áfangastað, Lukla ?  Nei og löngu seinna var ætt um aftur, Everest 302, var hrópað, nei svo kom það loks Everest 304.  Já loks var komið að því.  Vélin var lítil með 10 sætaröðum, við aftastar og vélin tókst á loft.  Eftir smá stund blöstu Himalaya fjöllin við, margir af hæðstu tindum veraldar, vá þvílík sjón og auðvita hæsti tindur heims Mt. Everest.  Meira að segja sáum við Tíbet í fjarska og var það góð tilfinning fyrir Fríðu G. en nær Tíbet kemst hún ekki, að þessu sinni.  Reynt var að mynda í gríð og erg, þetta þurfum við að sýna.  Það er ekki hægt að lýsa sumum hlutum, maður verður að upplifa þá.

Um daginn útskrifaðist litla vinkona okkar hún Snjólaug úr Mother Care skólanum.  Athöfnin var mjög skemmtileg og sagðar smá sögur af öllum sem útskrifuðust.  Snjólaug er mikið fyrir útiveru og leik og hefur beðið um að fá að vera fimm mínútum lengur í frímínútum á hverjum degi og næstum alltaf hafa kennarar hennar orðið við þeirri bón.  Útskriftarnemendur vorum með svarta hatta svipaða og þegar útskrifast er úr Bandarískum háskólum og Snjólaug glæsileg með hann í fallega kjólnum sínum.

Við söknuðum sárt Vigdísar og Ingibjargar og er stórt skarð höggvið í íslendingahópinn hér í Kathmandu. Gleðjumst þó mjög yfir hvað heimferð þeirra gekk vel.

Hlýnað hefur mjög hér og stundum erum við hálf lamaðar á ráfi um borgina, sem betur fer erum við öllum hnútum kunnugar nú og fátt kemur okkur úr jafnvægi.  Mengunin er þó stundum þreytandi og umferðin mikil og þung. Við þurftum að framlengja dvalarleyfið okkar og gekk það snurðulaust fyrir sig en gjaldið var búið að tvöfaldast.  En á leiðinni með leigubíl, í umferðarhnút, spúðu bílar og mótorhjól svörtu sóti yfir okkur.  Við verðum að komast úr borginni þó það sé ekki nema einn dagur og í dag fórum við í bíltúr.  Við Fríðurnar og Guðrún Anna fórum til Changu Narayan musterisins hér þó nokkuð fyrir utan Katmandu.  Mikið var gott að komast í kyrrð, ró og betra loft.  Í bakaleiðinni stoppuðum við í Bhaktapur og röltum um gamla bæinn þar.  Það var mjög gaman, en heldur heitt fyrir okkur Frónbúa.

Við fylgjumst nú grannt með veðurspánni og hlökkum mikið til að fara til Jomosom og bæst hefur í þann ferðahóp þar sem Auðbjörg og börn ætla með okkur ásamt Guðrúnu Önnu og Snjólaugu.


Ný ferðaplön

Lítið hefur gerst hjá okkur eftir að við komum heim frá Pokhara.  Við röltum næstum daglega til skraddaranna.  Já við hljótum að verða flottar í tauinu þegar við komum heim til Íslands.  Þrumur og eldingar hafa verið og rigningarskúrar, í sumum þrumunum ríður allt á reiðiskjálfi, þetta er eins og vera í loftárásum.  Rigningin gerir þó gott þar sem ekkert hafði rignt í 5 mánuði og mikið mistur yfir Kathmandu.  Loftið mun hreinna núna þrátt fyrir að mótorarnir gangi fyrir framan hverja búð hér.  Erum dálítið þreyttar á mengunin og gott væri að komast í einhverja daga í hreinna loft.

Um daginn ákváðum við að fara pílagrímaför til Indlands og heimsæja söguslóðir Búdda og bera Taj Mahal augum.  Við ætluðum að fljúga til Delhi og halda norður á bóginn til Dharmasala í heimsókn til Dali Lama, fara svo suður Indland og enda í Lumbini fæðingarstað Búdda hér í Nepal.  Þurftum að fara í Indverska sendiráðið og sækja um vísa.  Sem betur fer vorum við búnar að fá aðstoð því okkur fannst tími okkar of dýrmætur að eyða þremur dögum í sendiráðinu.  Næstum allt klappað og klárt og Yeshi vinur okkar frá Pokhara búin að gefa okkur dýrmæt ráð en hvað þá ?  Okkur yfirsást það í spenningi að 40 stiga hiti er í mið- og suður Indlandi.  Malaría og við þyrftum að taka einhver óþverra lyf í a.m.k. þrjár til fjórar vikur. Einnig er svo óvíst að landamærin yrðu opin er við kæmum til baka til Nepal en töluverðar óeirðir hafa verið þar.  Eins fljótt og við tókum ákvörðun um ferðalagið skúbbuðum við því.  Ekkert varið í að vera í öllum þessum hita í fólksmerg, með iðrakveisur að dröslast í Indverskum lestum eða rútum langar leiðir.  Þá er bara að finna annan en öruggari stað til að fara til.  Erum að skoða hvað nágrennið hefur uppá að bjóða.  Margar hugmyndir en engar ákvarðanir enn.  Við ætlum þó einhverja næstu daga að fara í útsýnisflug yfir Mt. Everest.

Yeshi og Tenzin eru búin að vera í Katmandu nú í þrjá daga og gaman að hitta þau aftur.  Yeshi er búin að þræða nokkrar búðir í leit að góðu Thankga með Fríðu P en ekkert fundist.  Næstum allt Thankga er málað fyrir túrista en Fríða P. er svo kresin að hún vill slíkt ekki.  Aðeins það sem Búddistar myndu vilja láta prýða heimili sitt sem er vandfundið nema fyrir of háa prísa að Yeshi mati.  Frænka Tenzin, hún Ani, býr hér í nunnuklaustur í Tirtipur rétt sunnan við Ktm og fórum við að heimsækja hana.  Í klaustrinu búa aðeins níu nunnur allan ársins hring og eru þær fullnuma í trúarbrögðunum.  Klaustrið var mjög fallegt og frábært útsýni þaðan.  Býr hún ásamt annarri nunnu í ca. 8 fermetra herbergi.  Gott að vita að hægt er að komast af með lítið.  Bauð hún okkur í mat og dvöldum við hálfan dag í klaustrinu í góðu yfirlæti.  Í kvöld bauð Guðrún Anna okkur, Yeshi og Tenzin í heimalagaða gúllassúpu.  Frábær matur og svo komu þau hjón okkur mjög á óvart.  Skólinn sem Yeshi stýrir í Pokhara gaf okkur öllum fallegt Thankga og urðum við allar mjög snortnar yfir slíkri gjöf.  Þar sem ekkert verður af Indlandsför okkar ákváðum við stöllur að heimsækja þessi öðlingshjón aftur og fara þaðan til Jomosom í nokkra daga.  Jomosom er lítið þorp norður af Pokhara og umlukið háum fjöllum og munum við örugglega hafa eitthvað spennandi að segja frá þeirri dvöl.  Búumst við við að fara í lok næstu viku.

Erum komnar með smá heimþrá og lái okkur það enginn.  Hún er fyrst að koma nú eftir næstum þriggja mánaða dvöl.  Farnar að sakna sérstaklega fjölskyldurnar, vina,  hreina loftsins og matarins en okkur finnst alltaf sama bragðið hvað svo sem við fáum okkur að borða.  Fríða P missir matarlystina eftir örfáa munnbita og við komnar með valkvíða hvar og hvað við eigum að borða.  Hálflystarlausar, eins og það geri eitthvað til.  Verra er að þegar við förum að slafra í okkur góðgætið heima mun þvermálið breytast og  ef öll fínu fötin frá skröddurunum muni þá ekki passa.Smile

Pokhara

Daginn fyrir för okkar til Pokhara var okkur boðið í grill til Sigga og Auðbjargar.  Þau hjón eru búin að búa í Patan rétt fyrir utan Ktm í rúmt eitt og hálft ár og Siggi vinnur hjá Sameinuðuþjóðunum.  Höfðinglega var tekið á móti okkur og fengum við dýrðlegan mat.  Súpa, grillaður kjúklingur og nautakjöt ásamt kaffi og öðrum guðaveigum.  Hundurinn Lubbi var fjörugur og drakk sprite af stút en kötturinn Berta hélt sig til hlés.  Kvöldið var einstaklega ánægjulegt enda þau hjón skemmtileg og hafa frá mörgum ævintýrum að segja.

Sunnudagurinn 8. mars rann svo upp.  Vaknað var snemma og lagt af stað til Pokhara kl. 7:30 með Green Line rútu.  Rútan var ágæt nema bremsuklossarnir voru farnir að gefa sig og ískraði ógurlega þegar stigið var á bremsuna.  Við stoppuðum þrisvar sinnum á leiðinni í mislangan tíma, snæddum ekki sérlega góðan hádegisverð sem var innifalinn í fargjaldinu.  Ferðin til Pokhara tók tæpa átta tíma þó aðeins sé þetta 200 km sem segir allt um vegakerfið.  Þegar stigið var út úr rútunni á áfangastað þyrptust menn frá ýmsum gististöðum og börðust um kúnnana.  Einn vakti eftirtekt okkar, rafmagn allan sólarhringinn, sjónvarp, loftkæling, ískápur og heitt vatn.  Fórum og skoðuðum aðstæður og okkur leist vel á og ekki svo dýrt.  Hótel Travell Inn skildi það vera.  Ágætlega staðsett rétt við Fewa vatnið.  Á endanum reyndist ekkert meira rafmagn í boði en venjulega, ein ljóstýra lýsti þó upp herbergið frá morgni til kvölds.  Loftkælingin, sjónvarpið og ísskápurinn var óvirkt mestan tímann og vatnið í sturtunni ískalt, lífsins gæði sem við heilluðumst að reyndust hjómið eitt enda rafmangsskortur enn mikill hér í Nepal.

Guðrún Anna á marga vini hér í Pokhara eftir fyrri dvöl.  Meðal þeirra er það hann Yeshi sem rekur skóla ( Nagajuna Modern School ) fyrir tíbetsk börn úr fjallaþorpunum og fátæk börn sem búa í Pokhara.  Heimsóttum við skólann en í honum eru 150 börn og 49 börn búa allan ársins hring þar.  Þegar skólinn var stofnsettur árið 1999 voru 7 börn í skólanum. Öll börnin sem búa þar eru búin að missa allavega annað foreldrið og koma frá mjög fátækum heimilum og eru á aldrinum 4 ára til 14 ára.  Yeshi fer sjálfur að sækja börnin til að vera viss um aðstæðurnar sem þau búa við.  Skólinn er rekinn fyrir fé frá styrktaraðilum og ákváðum við að mynda hóp á íslandi utan um okkur vinkonurnar og styrkja skólann.  Yeshi er að vinna frábært starf hér enda góður maður inn að hjartarótum.  Börnin 49 sofa í tveimur herbergjum í kojum 3 saman í einu rúmi, svo þröngt er um þau.  Þau eru glöð og una hag sínum vel enda hugsað vel um þau og aðstæðurnar mun betri í skólanum en þar sem þau fæddust. 

Um kvöldið buðu Yeshi og konan hans hún Tenzin okkur í mat heim til sín.  Þau búa í flóttamannabúðum Tíbeta dálítið fyrir utan Pokhara.  Flóttamannabúðirnar er lítið þorp sem byggðist 1959 er Tíbetar flúðu frá Tíbet og heitir Hemja. Þorpið er þétt setið litlum húsum og aðeins göngustígar sem aðskilja þau.  Klaustur er í miðju þorpsins og ganga Tíbetarnir í kringum það og biðja.  Eru við vorum þar voru aðeins gamlar konur á göngu með bænahjólin sín.  Gengum við um þorpið og vakti athygli okkar söngl og kyrj.  Þegar nær kom komum við að húsi sem var U laga og þar sat aldrað fólk kyrjaði og sneri bænahjólum sínum.  Þetta var þá heimili fyrir aldraða Tíbeta sem áttu engin börn sem gat séð um þau, öldrunarheimili.  Ótrúlegt þarna sat háaldrað fólk með krosslagðar fætur, allir kyrjuðu rólegir og yfirvegaðir allan daginn.  Mjög ólíkt því sem maður þekkir heima á Fróni. 

Við erum mjög heillaðar af Tíbetum þar sem þeir hafa allt aðra nærveru en önnur þjóðarbrot hér í Nepal.  Margar konur selja handverk á götum Pokhara og létum við ekki eftir okkur liggja að kaupa og styrkja Tíbetana.  Dag einn er við sátum og drukkum kaffi komu tvær konur til okkar.  Þær höfðu flúið Tíbet 1959 og þá aðeins börn og mundu varla eftir því.  Ólíkt öðrum túristum buðum við þeim sæti og kaffi á meðan þær sýndu okkur varning sinn.  Keyptum við armbönd og fleira í bunkum af þeim.  Næstu daga vorum við búnar að kaupa af fleirum tíbetskum konum svona í pólitískum stuðningi. Nepalska stjórnin gerir Tíbetunum erfitt fyrir hægt og rólega og óttast sumir að þeir þurfi að flytja sig um set seinna meir, hvað sem verður.

Þann 10. mars var hátíðisdagur í Nepal sem kallast Holi.  Er verið að fagna komu vorsins / sumarsins og er hátíð lita.  Hátíðarhöldin fara þannig fram að allir eru makaðir með alls konar litum frá toppi til táar.  Mikil spenna var fyrir deginum hjá dætrum Guðrúnar og Vigdísar þeim Snjólaugu og Ingibjörgu.  Um morguninn byrjaði Fríða P að setja smá lit á þær í hótelgarðinum.  Börnin í kring æstust upp, byrjuðu að skvetta vatni og lit inn um hliðið og á endanum var Fríðu P vísað út úr garðinum vegna óláta.  Fjörið byrjaði svo fyrir alvöru er á götuna kom.  Ráðist var að okkur og við allar útklíndar í lit.  Stelpurnar urðu hálf skelkaðar í byrjun og fannst nóg um.  Við vorum þó viðbúnar ýmsu, búnar að fylla blöðrur af vatni og komum börnunum mjög á óvart.  Einnig voru keyptir litir er nepölsku börnin fengu þá að gjöf á endanum.  Mikið fjör og gaman að virkja barnið í sér svona í einn dag.

Yeshi fór með okkur í skoðunarferð í kringum Pokhara, þvílíkur öðlingur.  Hann á vin sem keyrir leigubíl sem heitir Bom og hefur hann þvælst með okkur um allt, góður og þægilegur drengur.  Við skoðuðum elsta klaustrið hér en Yeshi var munkur til margra ára áður en hann sneri til þessa lífs.  Við skoðuðum Gorkha hermannasafnið en Gorkha hermenn voru sérþjálfaðir af Bretum fyrir 200 árum og hafa tekið þátt í flest öllum stríðsátökum i heiminum síðan.  Skoðuðum International Mountain Museum sem var fróðlegt á margan hátt.  Fórum í hellaferð og  fórum til Begnas vatnsins.  Ánægjulegur dagur frá morgni fram á kvöld.  Vorum reyndar dálítið þreyttar að sitja 7 í pínulitlum Suzuki á Nepölskum breiðgötum.  Flestir vegirnir eru eins vegir Íslands fyrir 40 árum nema malbikaðir ef malbik skildi kalla.

Fleiri ferðir voru farnar með Bom.  Einn morguninn vöknuðum við kl. 05 og haldið var til Sarankot, lítið þorp hátt fyrir utan Pokhara.  Við ætluðum að sjá sólina koma upp yfir Annapurna fjallahringinn.  En því miður var of mikið mistur og skýjað að ekkert varð úr þeirri dýrð.  En önnur dýrð blasti við, sölubásar með dýrindis jakuxateppum, pasminasjölum og fleiri dýrgripum.  Rann á okkur allar mikið æði.  Guðrún Anna og Vigdís voru komnar í kennslu um hvað væri jakull og hvað ekki.  Tætt var úr teppunum og kveikt í.  Loks var komist að sannleikanum um jakullina, bara drasl sem selt var sem 100% jakull í Ktm.  Ekta ullarteppi var falt fyrir 1350 rúbí.  Meðan vinkonur okkar díluðu um verðið fórum við fríðurnar einum bás ofar.  Teppi, smá blandað á rúm 800 rúbí og við fundum varla mun.  Keyptum sitt hvor 3 stykkin og vorum alsælar.  Svipurinn sem kom á vinkonur okkar er við færðum þeim tíðindin, að týma ekki að borga aðeins meira fyrir ekta vöru var fásinna.  Þegar frá var horfið var skott bílsins fullt af jakuxateppum, rúmteppum, pasminasjölum og buddum.  Næst keyrðum við við hinn enda Pokara að skoða stúpu.  Vegurinn var svo torfarinn að bíllinn dreif ekki með okkur nema hálfa leið og því tók ein gangan enn við.  Gengum við upp fjallið í um það bil klst.  Ekki gátum við heldur notið útsýnisins þaðan sökum misturs en stúpan var falleg.  Seinnipart dags komum við svo heim á hótel drullugar og rykugar upp fyrir haus.  Fórum í ískalt bað og svo út að borða allar saman.  Tíðindi, þegar vinkonur okkar fóru að skoða varning sinn var um allt annað að ræða en þær keyptu.  Óekta jakuxateppi voru komin í stað þeirra fínu.  Sölukonan hafði aldeilis blekkt þær.  Meðan þær voru dáleiddar af fínu teppunum hafði hún skipt um án þess að þær grunuð nokkurn hlut, þvílík snilld.  Enduðu þær með óekta teppi eins og hægt er að fá fyrir slikk í Ktm.  Við fríðurnar vorum að sjálfsögðu alsælar með okkar smáblönduðu teppi á góðum prís. Mikið var hlegið að þessari uppákomu við kvöldmatinn og á endanum var sölukonan tekin í sátt fyrir snilli sína.

Jæja þá fer að styttast í sögulok en rúsínan í pylsuendanum er eftir.  Heimsókn á heimili Yeshi og Tenzin tveimur kvöldum fyrir heimför.  Yeshi útvegaði okkur Shamanista eða töfralækni úr flóttamannabúðunum.  Mikil spenna var að fá að hitta svo merkilegan mann og láta hann lækna krankleika okkar.  Við mættum kl. fimm og shamanistinn birtist svo rúmlega sex ásamt aðstoðarmanni sínum.  Yeshi var greinilega búinn að undirbúa komu hans eftir kúnstarinnar reglum.  Útvega hrísgrjón, reykelsi og borða ásamt helgimyndum.  Útbúið var borð með skálum, hrísgrjónin flóðu út úr, kveikt á reykhelsum og kertum í bænaherberginu hans Yeshi.  Shamanistinn byrjaði að undirbúa sig, sló drumbur, klingdi bjöllu og kyrjaði smá stund.  Síðan fórum við öll inní herbergið og shamminn byrjaði.  Í um það bil klst. sló hann handtrommu, klingdi bjöllu, kyrjaði og fór í trans.  Kyrjaði hann með mismunandi áherslum og við fylgdumst með af miklum áhuga.  Hann var með einhverskonar kórónu á höfði.  Í miðri athöfn skipti hann um höfuðfat, klæddi sig í einhverskonar búning, setti koparplötu um háls sér og hélt áfram að kyrja.  Allt í einu stökk hann á fætur liðugur sem geit og dansaði um herbergið sönglandi töfraþulu.  Settist á nýjan leik og hélt áfram fyrri siðum.  Loks vorum við tekin fyrir hvert fyrir sig og lýstum krankleika okkar fyrir honum.  Tenzin kona Yeshi var fyrst, óskýrðir verki í baki um langa hríð.  Setti hann rauðan klút á þann stað er verkurinn var og réðist svo á svæðið, saug og spýtti út úr sér steinum og sandi blóðlituðum, sennilega gallsteinar.  Þvílíkt undur.  Við hin fengum svipaða meðferð nema engir steinar hrjáðu okkur.  Fengum við svo leiðbeiningar s.s. hvað hrjáði okkur, hvað við ættum að forðast ásamt ýmsum öðrum heillaráðum.  Að lokum færðum við honum og aðstoðarmanni hans hvíta klúta með greiðslu í fyrir gjörninginn.  Þessum viðburði verður ekki lýst en einhverjar myndir náðust ásamt vídeói.  Sennilega verður þetta fyrsta og síðasta sinn sem við verðum vitni að síkum viðburði þar sem shamanistarnir virðast vera að líða undir lok.  Hæfileikar þeirra hafa erfst frá föður til sona um ómuna tíð, komið frá einum elstu trúarbrögðum heims Bön. 

Á sunnudaginn  var ekki hægt að komast til Ktm. vegna ástands í landinu.  Öll landamæri lokuð og ekkert eldsneyti að fá.  Miklar óeirðir hafa verið milli þjóðarbrota á ákveðnu svæði og stjórnvöld lokuðu þjóðveginum.  Við vorum þó aldrei í neinni hættu, röltum um í róglegheitum í of miklum hita sem hrjáði okkur þó nokkuð þessa viku.  Heimferðin gekk vel í gær. Góða rúmið, heitt bað og vitneskja um hvenær rafmagn er beið okkar, Gauri og Hodras voru farnir að sakna okkar. Já alltaf jafngott að komast heim hvar sem það nú er.  Illa gengur að koma myndum í albúmið en þær koma.    

Rólegheit í Kathmandu

Höfum tekið lífinu með ró síðan í síðasta bloggi.  Heilsan er komin í lag og það sem hrjáir okkur mest þessa dagana er værukærð.  Fórum reyndar að skoða Swayambhunath stúpuna nefnd öðru nafni Monkey Temple.  Stendur hún á hæð í útjaðri Kathmandu og þaðan sést öll borgin og dalurinn í kringum borgina.  Stúpan var áhugaverð og margt að sjá, allt öðruvísi en Boudhna stúpan.  Blandast þar meira saman Búddisminn og Hindúatrúin.  Aparnir hlupu um allt og skemmtilegt að fylgjast með þeim.  Fríða G var að rölta í rólegheitum og hrökk upp við að þrifið var í vatnsflösku sem hún hélt á.  Var þar á ferð stór karlapi og varði Fríða G flöskuna vel og fór með sigur að hólmi.

Sölumenn voru þarna út um allt eins og venja er.  Fríða G komin í prútt stuð og gerði ágætiskaup á sumu.  En það er erfitt að átta sig á hvaða verð sé sanngjarnt því byrjun er það himinhátt og lækkar ört fáum sekúndum eða skrefum lengra.  Sem dæmi leist Fríðu G vel á styttur sem voru til sölu við stúpuna, þrefað um verð og gjafprís ? 1600 rúbí, ekkert athugavert við það.  Stytturnar fallegar og allir ánægðir.  Örfáum skrefum lengra voru eins styttur falar fyrir 1000 rúbí og þá átti eftir að prútta.  Svona eru sumar verslunarleiðangrarnir okkar en við höfum samt viðað að okkur dýrmætri þekkingu á verðlagi og látum ekki alltaf plata okkur svo glatt. Í fyrradag var Fríða G hörð, kaupa átti Nepalskan hatt.  Uppsett verð var 600 rúbí en Fríða hló og sagðist geta fengið hann á 100 rúbí og verðið snarlækkaði á innan við 15 sek. Var hatturinn falur á 100 rúbí.  Höfum látið sauma á okkur föt því margt er ekki hægt af fá nema í barnastærðum og þreytandi að ganga búð úr búð og ekkert passar.  Íþróttaskór eru á góðu verði eins og margt annað t.d. gleraugu, ipod og tölvutengdar græjur.

Þá er það saga til næsta bæjar er Fríða G ætlaði að kaupa sér ipod. Ýmislegt s.s. umbúðir og útlit vakti furðu okkar. Þetta var sjóræningjaútgáfa og ekkert varð af kaupunum.  Það er eins gott að vera á verði.  Sumir sölumenn eru óvægnir og setja himinhá verð upp, en við höfum nokkrum sinnum verið "rændar" af þeim og nú er þeim kafla lokið hér í Ktm.

Við röltum í pósthúsið um daginn því hér á götuhornunum eru aðilar sem gera út á að taka við pökkum og koma þeim í póst fyrir himinháar upphæðir.  17000 rúbí fyrir 10 kg eða 26000 kr. isl, nei allt of mikið sett á þjónustuna og þá var bara að leita að betri dílum og þess vegna fórum við í höfuðstöðvarnar.  Er inn kom í stóra byggingu blasti við fornaldarleg vinnubrögð og afgreiðsla ekki upp á marga fiska.  Biðum bið þó róglegar eftir afgreiðslu sem kom eftir dúk og disk.  Á meðan við biðum kom ræstingardama og rak okkur frá því hún þurfti að þurrka af borðum.  Fengum þó loks afgreiðslu.  Nei við tökum aðeins við 2ja kg bögglum, þið þurfið að fara á annan stað.  Við röltum hinumegin í bygginguna.  Þar sátu konur og saumuðu taui utanum pakka í höndunum og síðan voru þeir innsiglaðir með vaxi eins og í gamladaga.  Reyndum að fá upplýsingar en þá var okkur bent á borð og þar kæmi maður einhvertímann og afgreiddi okkur.  Við hefðu sjálfsagt orðið dálítið pirraðar ef við hefðum ekki getað notað tíman til að fylgjast með þess undraverður athöfnum kvennanna.  Að lokum kom þó maðurinn og verðið nú 7000 rúbí fyrir 10 kg og eitthvert gjald fyrir pökkunina.

Hér inní miðri Ktm ef fallegur garður Garden of Dream í miðaldarstíl, eins og maður hefur séð í bíómyndum frá 1940 þar sem enskir hefðarmenn höfðu aðsetur sín í Asíu.  Þar er gott að dvelja um stund í friði og ró, lesa  bók og sóla sig.  Ótrúlegt að finna svona friðsælan og fallegan stað í miðju skarkalans. Alltaf er sól og nú er að hitna verulega. Hitinn kominn í um 30 gráður á daginn. Erum farnar að vera dasaðar og orkulausa að ganga langar vegarlengdir.

Við erum búnar að vera fremur værukærar síðustu tvær vikur.  Rölt aðeins um á hverjum degi.  Mikil orka fer í það að finna út á hvað stað við eigum að borða í hitt og þetta sinnið. Byrjum daginn nú á að elda hafragraut, erum hættar að fara á þakið í morgunmat til vinar okkar hans Hodrasar enda hafa viðskipti hans dregist verulega saman.  Eggin, kartöflurnar og brauðið var ekki að fara vel í maga dag eftir dag í 1 ½ mán.

Í gær fórum við í Thangka verslun því Fríða P ætlar að fjárfesta í einni slíkri mynd.  Hugsa þarf vel hvaða boðskap Thangkað hefur að færa.  Fengum við frábæra kennslu og fræðslu um það.  Ofaná verður sennilega Thangka sem inniheldur Wheel of live eða lífshjólið og segir það allt sem segja þarf um manninn, ferðir hans í lífs- og sálarþroskanum frá fæðingu til lok þessa lífs og næstu lífa.   Hvaða afleiðingar val okkar getur haft á líf okkar og alheiminn.  Næst á eftir að fara og sjá myndirnar málaðar áður en endanlega ákvörðun verðum tekin um val á mynd.

G.Anna og Vigdís buðu okkur um daginn í heimalagaða gúllassúpu sem var besti maturinn sem við höfum borðað frá því við komu til Ktm.  Í dag er okkur boðið í grill hjá Auðbjörgu og Sigga.  Hlökkum við mikið til grillveislunnar hjá því yndislega fólki.

Á sunnudaginn er búið að planleggja að fara til Pokhara sem eru náttúruperlur Nepals.  Fara á með rútu og tekur það 6 - 8 klst að keyra 200 km.  Þá þarf ekkert að segja meira um vegakerfið hér.  Áætlaður dvalartími er 8 -10 dagar.

Þegar þeirri ferð er lokið munum við örugglega hafa margt að segja frá.


Shangri La, Nagarkot, Shiva hátíð og Tibeskt nýar

Margt höfum við farið og upplifað frá síðasta bloggi.  Við vorum að undirbúa ferð til Dwarka Shangri La þann 12. febrúar og ekki leit það vel út.  Fríðu G var óglatt og kastaði upp seinnipart dagsins eftir að við höfðum litið eftir Ingibjörgu og Snjólaugu. Næstum búnar að slaufa ferðinni en vorum ekki tilbúnar að missa af neinu.  Um nóttina vöknuðum við báðar ælandi, önnur í klósettið og hin í vaskinn.  En þrjóskan var yfirsterkari og lagt var af stað kl. 09 um morguninn slappar og druslulegar. Guðrún Anna og Vigdís ásamt dætrum sínum sóttu okkur á góðum farakosti.

Shangri La föstudagurinn 13. febrúar

Keyrt var í um 2 klst til Dhulikhel og haldi aðeins lengra.  Komum við að litlu "hóteli" sem voru lítil hús byggð í fjallshlíð og undursamlegt útsýni blasti við.  Kósý og notalegur staður.  Fengum við hús ofarlega í fjallshlíðinni með smá grasflöt fyrir framan.  Ekki skemmdi það fyrir að hitateppi voru í rúmunum bæði undir og ofaná.

Fríða P var svo óheppin að fá innantökur og var frá fyrsta sólarhringinn en sem betur fer lagaðist það.  Nutum við fjallaloftsins, útsýnis og kyrrðar.  Mikið var gott að komast úr skarkala borgarinnar.  Yndislegur staður til að dvelja á.  Hér sem annarstaðar nutum við forréttinda.  Nudd var innifalið í gistingunni og meðan vinkonur okkar fengu ½ tíma nudd hvor, vorum við nuddaðar í bak og fyrir í klst. hvor.  Fengum góðan mat að snæða og lífið og tilveran dásamleg.  Stjörnurnar voru þó ekki eins stórar og skærar eins og á fjallinu okkar enda ljósamengun frá nærliggjandi bæjum.  Fríða G sá sjö erni flögra yfir og eina uglu, táknrænt.  Á sunnudeginum héldum við svo heim á leið til Ktm. endurnærðar og við hestaheilsu.  Þetta er staður sem er þess virði að njóta lífsins á.

Eftir dásamlega helgi var ákveðið að fara til Nagarkot helgina eftir en það er lítill bær í fjöllunum norður af Ktm.  Vigdís pantaði hótelgistingu og þá var bara að koma sér á staðinn.  Síðasti fararkostur var fremur dýr svo ákveðið var að leita að einhverju ódýrari leið.  Litlu taxarnir eru mun ódýrari en við komumst ekki allar í einn svo ákveðið var að taka sinn hvorn bíllinn.

Fríða P var en slöpp og nú var ekki lengur hægt að þrjóskast við enda gott að taka út læknisþjónustuna hérna.  Farið var á Ciwic clinic og hún skoðuð vel.  All vel tékkað og send svo í myndartöku af lungum.  Flott tæki, stafrænt og myndirnar tilbúnar á augabragði.  Mjög góð þjónusta. Lungnabólga, já fremur svæsin, sett á fúkkalyf og púst og mæta í tékk fyrir helgi.  Gauri vinur okkar hafði miklar áhyggjur af heilsu Fríðu P og las yfir okkur með reykingar ofl.  Góður kall og mjög umhugað um okkur.  Hætta að reykja og það gekk ágætlega í þrjá daga en svo fór að halla undan fæti.  Hún er þó að rembast við þetta og er hætt að reykja heilar sígarettur, bara hálfa og færri, smók og smók.

Við fórum í dýragarðinn til að Fríða G kæmist á fílsbak og Guðrún Anna og Vigdís voru ánægðar með áhuga okkar á því.  Nú þyrftu þær ekki að fara með dætur sinar heldur láta okkur sjá um það.  Fíllinn lallaði um dýragarðinn með okkur og við vorum hálf fegnar þegar túrnum var lokið.  Allt fest á myndir fyrir Friðrik sonarson hennar Fríðu G.  Það var draumur hans að sjá ömmu sína á fílsbaki og nú hefur sá draumur ræst.

Nagarkot laugardagurinn 21. febrúar

Við fengum indælan dreng til að keyra okkur til Nagarkot.  Bíllinn var þó hálf kraftlaus og þegar á brattann var haldið ofhitnaði hann.  Smástopp, helt vatni á vatnskassann og haldi á brattann á ný.  Ekki dugði það lengi, reykur gaus upp inní bílnum.  Plastflaska hafði bráðnað og bíllinn ofhitnað á ný.  Á endanum komumst við þó og fremur fallegt hótel blasti við á toppi fjalls.  Allt var mjög snyrtilegt og herbergin rúmgóð með góðu útsýni.  Guðrún Anna og Vigdís komu svo seinna um daginn því stelpurnar fóru í Bollywood danstíma.  Við nutum tímans vel í tvo daga, fengum frábært nudd og röltum um í róglegheitum.  Vöknuðum kl. 05 á sunnudeginum til að horfa á sólina koma upp yfir Himalaya fjöllunum en hún var ekki mikilfengleg vegna misturs og skýja.  Þónokkur vindur var á daginn og minnti okkur á heimalandið nema mun hlýrra. Rándýrt var að borða og maturinn ekki góður.  Alltof mikill hótelstíll yfir þessu og vantaði alla ró og kyrrð.  Þetta er ekki staðurinn fyrir okkur.  Sami drengurinn sótti okkur svo á mánudeginum.  Var vinur hans með í för og hann var á öðrum bíl,  hinn hefur alveg gefist upp.  Á leiðinn heim voru krakkar búnir að loka veginum og í fyrstu höfðum við gaman af.  Krakkarnir útsjónasamir að næla sér í aur.  Nei, hátíðisdagur Shiva var og þetta hluti af hátíðarhöldunum.  Að lokum var þetta hálfþreytandi þegar búið var að stoppa okkur 15 sinnum.  Sumir krakkanna voru með bambusstangir yfir veginum og önnur snæri.  Sáum við hversu hættulegur leikur þetta var þar sem hindranir voru settar við beygjur og mótorhjólin komu þjótandi.  Urðum við líka vitni að því þegar rúta full af fólki, einhver garmur var að fikra sig upp fjallshlíðina og var næstum runnin aftur á bak.  En sem betur fer fór allt vel og við komum heim um miðjan dag.  Þá var bara að þjóta af stað í næsta ævintýri.

Pashupatinath

Um helgina var verið að halda uppá afmælisdag Shiva einn af guðunum í Hindúatrú.  Mikil hátíðarhöld stóðu yfir sem nefnast Maha Shivaratri og við vildum ekki missa af þeim.  Fórum því strax þangað er við komum úr fjöllunum.  Lentum á götu troðfulla af fólki og stóðum þar eins og ratar.  Eitthvað var í aðsigi en hvað ?  Lögregla á hestum hrakti fólk frá og við næstum troðnar undir.  Fréttum þá að allir væru að bíða eftir að forsetinn færi hjá.  Við vorum ekki tilbúnar að troðast undir í mannþrönginni fyrir forsetann og forðuðum okkur því burt.  En hvert áttum við að fara til að komast að hofinu?  Ekki hugmynd.  En viti menn heppnin er alltaf með okkur, tveir ungir menn komu aðvífandi og sögðust vera leiðsögumenn og tilbúnir að lóðsa okkur um svæðið.  Nei við ætluðum ekki að láta svokallaða leiðsögumenn ræna okkur eina ferðina enn.  Boðið hjá þeim reyndist þó það gott að við slógum til, 200 kall.  Leiddu þeir okkur í gegnum þvögu af mannfólki, undir bönd, í gegnum raðir sem höfðu myndast, baka til ef þess þurfti og rökræddu við lögreglu til að koma okkur á ákveðna staði.  Við sáum líkbrennslur, meinlætamenn í röðum og útúrdópað lið.  Á þessum eina degi er löglegt að reykja hass og fleira en lagði hassfýluna yfir allt.  Hittum stelpu frá Ísrael sem vissi sennilega ekki hvar hún var stödd í heiminum.  All virkaði ekki vel á okkur, mikill órói og eitthvað ógeðfellt.  Vorum því fegnar er við komum heim um kvöldið en hefðum þó ekki viljað samt missa af þessu.

Þriðjudagurinn fór í að rölta um stræti Ktm, kíkja í verslanir eina ferðina enn og eyða deginum.  Römbuðum við inní svokallaða "hljóðfæraverslun" hér í næsta húsi, rétt til að tékka á verðinu á lúðrum.  Verslunareigandinn vakti þá athygli okkar á syngjandi skálum.  Setti okkur á stóla og hélt svo mikilfenglega tónleika fyrir okkur.  Algjör snillingur.  Þvílík hljóð sem komnar úr einni skál.  Lét hann svo vatn í skálina, spilaði á hana þar til vatnið myndaði rigningu upp úr henni.  Heillaðar keyptum við CD disk af honum þar sem spilað er á skálar og Fríða P. ætlar örugglega að kaupa eina skál þó rándýr sé og fá kennslu á hana.

Næst var að fara í Boudhna stúpuna að fagna nýári Tíbeta 25. febrúar.  Við ætluðum að eyða öllum deginum þar.  Fórum um hádegi og röltum um í róglegheitum.  En hvað þetta virkar alltaf róandi á okkur og andrúmsloftið eitthvað svo gott og notalegt. Tókum við eftir því að kviknað hafði í húsi einu á svæðinu, sennilega um nóttina og fólk var að hreinsa út úr því.  Allt brunnið sem brunnið gat og fólkið alslaust á nýju ári.  Við óskuðum aðeins að enginn hefði slasast. Tíbetarnir voru í óðaönn að snyrta allt í kringum stúpuna og undirbúa nýárið.  Fólk gekk sönglandi kringum stúpuna hring eftir hring með logandi kerti.  Einhver hélt ræðu og þó við skildum ekkert þá var ræðan örugglega um frelsi Tíbets.  Svo um kvöldið var kveikt á kertum hér og þar og efsti pallur stúpunnar var upplýstur með kertaljósum.  Þó var ekki kveikt eins mikið á kertum þetta árið sennilega til að mótmæla yfirtöku kínverja í Tíbet.


Líf og tilvera með influensu

Sælir allir vinir góðir, það hefur ekki margt gerst spennandi hér í Ktm frá því við komum úr fjallaferðinni og þó.  Eins og ykkur er kunnugt af fyrri skrifum okkar erum við heillaðar af Boudha stúpunni.  Fyrsta dag mánaðarins fórum við þangað aðallega til að íhuga og reka út illa anda.  Fríða G tók daginn snemma og hálf datt inn í messu hjá tíbetskum munkum og hlustaði á þá kyrja, þeyta lúðra og slá drumbur. Svona upplifun hafði hana dreymt um síðan hún var barn sem varð loks að raunveruleika. Fékk leiðsögn kringum stúpuna, gefið talnaband og hvítur klútur sem munkarnir fá aðeins eftir athafnir.  Látum það ósagt hvort hún hafi vígst inní Boudha söfnuðinn.  Fríða P mætti seinna á svæðið og fékk einnig leiðsögn kringum stúpuna af Lama munk frá Gompa klaustrinu.  Það er með ólíkindum hvað þessir heilögu menn laðast að miðaldra jullum frá klakanum.  Kannski finnst þeim að okkur veiti ekki af leiðsögn til að komast nær Nirvana.  Ýmislegt var á döfinni í stúpunni m.a. munka- og djöfladans.  Þegar var komið yfir miðjan dag kom loks að því að illu andarnir yfirgáfu okkur.  Lamamunkar blessuðu fána sem við rituðum nöfn fjölskyldu og vina á.  Stráð var hrísgrjónum yfir okkur og fánana, heilögu vatni dreift yfir og lit, blómum og olíu makað á höfuð okkar.  Allt blessað í bak og fyrir og næst lá leiðin uppá stúpuna til að flagga fánunum.  Margra metra fánalína með tugi fána var dregin að húni eða þannig.  Munu fánarnir hanga á stúpunni í heilt ár, okkur og þeim sem fengu nöfn sín rituð til blessunar.  Munu augu Búdda vaka yfir okkur og þeim öllum. 

Lítið annað markvert hefur gerst síðan enda erum við búnar að vera allan mánuðinn með Nepalska inflúensu.  Kvef, hósta, hita og aðra óværu.  Það helsta sem við höfum farið er í apótekið til að kaupa hin ýmsu bætiefni og lyf við óværunni.  Ekki er kostnaðurinn mikill þrátt fyrir hin ýmsu lyf og púst sem eru rándýr heima.  Maður verður klumsa, vikuskammtur af sýklalyfjum kosta 80 rúbí eða um 120 kr og taflan af Parasetamóli kostar krónu.  Kannski ætti maður að fara í samkeppni við íslensku lyfjakeðjurnar.  Nú er komið fram í miðjan mánuð og við enn druslulegar, hóstandi og kokandi dag og nótt.  Ekkert farið að lítast á blikuna og þó er þetta kannski ekki svona slæmt þó slæmt sé.  Hindúa munkarnir elta okkur enn um stræti Ktm með blóm og blessun.  Við eigum stundum fjöri að launa að komast undan þeim og þeirra blessun.  Strætismunkarnir eru heimtufrekir og vilja fá vel greitt fyrir hverja blessun sem við erum farnar að efast um að gagni okkur.  Þetta eru kannski farandleikarar sem telja villuráfandi sauðum trú um að þeir öðlist betra og eilíft líf, fara svo heim til fjölskyldunnar og slá upp veislu.  Við erum orðnar svo veraldarvanar núna að við þurfum þeirra blessunar ekki lengur við.

Í fyrramálið ætlum við í lúxus reisu á Himalayas Shangri La.  Dýrðlegan stað í fjöllunum með himneskt útsýni og dekur.  Í þetta sinn erum við vissar hvað við erum að fara út í eða hvað ?  Allavega fáum við bíl sem keyrir okkur að dyrum lúxus hótels.  Þar bíða okkar vonandi ný ævintýri með vinkonum okkar henni Guðrúnu Önnu, Vigdísi og dætrum.


Fjallaferðin þriðji kafli

Þann 28. janúar kl. 11:30 var haldið af stað niður fjallið heim á leið.  Okkur var boðinn morgunverður en við höfðum litla lyst, borðuðum þó smá egg og drukkum kaffi.  Einhverjir bættust í för a.m.k. niður.  Mamma Hodras vinar okkar slóst í för með okkur 82ja ára gömul, lipur sem geit og þá var að standa sig.  Vinkona Miru rann á rassinn fljótlega í byrjun ferðar og sem betur fer var ekki snarbratti niður.  Allt fór vel og eins gott að passa sig.  Fríða G fékk í hnéð og ekki útlit fyrir góða niðurferð.  Það lagaðist þó eftir smá stund og hvert skref var tekið varlega.  Úpps, Míra kona Gauri datt, sneri sig á úlnlið og hágrét.  Sem betur fer fór betur en horfði, úlnliðurinn ekki illa tognaður en konan í sjokki enda snarbratt niður.  Eftir þetta fór Gauri að hafa miklar áhyggjur af okkur og fylgdi okkur eins og skugginn.  En við gömlu jullurnar spjöruðum okkur vel, næstum eins liðugar og sú gamla fikruðum við okkur niður fjallið.  Vorum þó ekki eins tignarlegar og sú gamla en stóðum okkur vel.  Gauri rann til og fékk slink á lærið.  Það átti ekki af þeim að ganga.

Þegar langt var liðið á gönguna niður undruðum við okkur á að við skildum hafa farið þessa leið upp.  Var þetta virkilega svona bratt.  Við höfum verið í allt öðrum heimi er við fórum upp, ekki von að sumir hefðu orðið móðir og svitinn runnið af okkur.  Þvílíkt þrekvirki að hafa komist upp hugsuðum við, trúðum þessu ekki alveg.  Jú þetta var uppleiðin okkar.  Þegar við vorum langt komnar niður fórum við aðeins aðra leið og gengum eftir mjóum stíg og snarbratt og klettar fyrir neðan.  Vinkona Miru grét af hræðslu og mamma Hodras leiddi hana og Fríðu G hálfpartinn og leiðbeindi þeim vel.  Fríða P sem vön er að vera mjög lofthrædd gekk þetta eins og gengið væri niður Laugaveginn, engin hræðsla og var í öðrum heimi.  Við vorum orðnar ansi lúnar og fór að taka í framanverð lærin er við loks komum að brúnni.  Nú var hún ekkert mál og vinkona Miru hékk aftan í buxnastrengnum á Fríðu P hágrátandi alla leið yfir brúnna.  Auðvitað varð maður að standa sig.

Er yfir brúna var komið var kl. 14 og Gauri og fjölskylda ætluðu aðeins að skreppa í næsta þorp að heimsækja vini sína.  Ekkert mál við myndum bara bíða við þjóðveginn róglegar á meðan.  Hodras og mamma hans biðu með okkur og klukkan leið.  Mikið var hún geðug og indæl sú gamla og reykti með okkur eins og strompur.  Hodras vappaði í kringum okkur og sá um að allt væri í lagi.  Góður maður og orðinn mikill vinur okkar.  Gerir allt fyrir okkur meira að segja bera töskurnar okkar.  Smástund er ansi lengi að líða og við alveg búnar á því.  Klukkan 16:30 komu þau loks og haldið var af stað eftir þjóðveginum til Ktm.  Stoppað var í þorpinu sem við snæddum í á leið til fjallsins.  Borðað þar brauð, drukkið svart te og okkur boðið að borða djúpsteiktan smáfisk úr ánni.  Fríða G var alveg lystarlaus en P aftur, meira fyrir kurteisissakir borðaði fiskinn.  Bragðaðist eins og djúpsteiktar sardínur.  Þá vitið þið það. 

Hossast var í bílnum ansi lengi og við ekki vissar á hverju við hefðum verið í upphafi ferðar allt virtist svo miklu lengra og brattara á bakaleiðinni.  Komið var við á einum stað þar sem mamma Hodras ætlaði að dvelja hjá systur sinni og nú var skollið á svarta myrkur.  Stoppið var ekki mjög langt en við vorum búnar að hossast eftir algjörum vegleysum, eins og vegurinn var norður á Strandir fyrir 30 árum.  Snúa þurfti svo við og er búið var að aka smá spöl var allt stopp.  Stór flutningabíll í veginum og verið að vigta og stafla kartöflum á hann og hvergi hægt að komast fram hjá.  Biðin var dágóð en þegar henni var lokið flaug 50 kg kartöflupoki uppá þak bílsins.  Svona gerast kaupin á eyrinni. 

Allt í einu fór Fríða P að skelli hlægja og allir litu skelfingaraugum á hana.  Nú er áfallið að koma.  Nei, nei henni birtist allt einu sú mynd af Fríðu G  klöngrast með flugfreyjutöskuna í eftirdragi og bjútíboxið í hinni hendinni.  Fríða P ætlaði aldrei að hætta að hlægja og allir voru farnir að hrína með þegar þeim var ljóst að aðeins um grín var að ræða.  Vissu þau þó aldrei um hvað það snerist en létti mjög er Fríða G sagði þeim að verið væri að gera grín að sér.  Hálf skakkar, lúnar og með harðsperrur í maganum komumst við loks heim og kl. orðin 21. 

Mikið væri gott að komast í heitt bað og skríða undir sæng.  Bað, bað, ekki væri maður ánægður heima með heita vatnið seytlandi og hálfa klukkustund tekur að botnfylla baðkarið.  Nei og sturta hvað er nú það ?  Kolsvartar frá toppi til táar skoluðum við af okkur mesta skítinn, ausandi yfir okkur með könnu, þvílíkur lúxus, já gott var það.  Þá er bara að koma fötunum í þvott á morgun og þvo skóna.  Annan eins skít höfum við varla séð en lifandi komust við úr þessari ferð og hrósum happi er litið er til baka.  Fríða G í losti er hún hugsaði til baka, við hefðum getað farið okkur að voða.  Eða við orðið eftir og Gauri farið með geitur að launum með sér niður.  Guð sé lof að konunni snerist hugur með giftinguna.  Vitum ekki enn hvaðan við fengum kraftinn til að hefja göngu þessa og hvaða Guðir vöktu yfir okkur á niðurleið.  En allt fór vel og við hefðum ekki getað hugsað þá hugsun til enda ef við hefðum ekki verið svona grænar á bak við eyrun og vitað hvað beið okkar í þessari ferð.  Upplifunin og sjá allt það sem fyrir augu bar hefðum við ekki viljað missa af.  Ef við hefðum gert okkur grein fyrir ferðartilhögun hefðum við runnið á rassinn áður en för hófst því við hefðum aldrei getað gert okkur í hugarlund upplifunina.  Enn og aftur er okkur orðavant, en í minningunni mun þetta geymast um aldur og ævi.

Eftirmáli:

Fríða P var vöknuð fremur snemma eða um kl. 08 en hin Fríðan svaf.  Svaf af sér morgunmatinn enda vitum við ekki hvernig henni tókst að ljúka þessari ferð með öll sín gigtarvandamál, lélegar mjaðmir og hné.  Fríða P mætt á þakið um kl. tíu í morgumat að vanda.  Létt í spori skokkaði hún uppá þak en leiðin niður reyndist erfiðari.  Miklir strengir framan í lærum og var kjagað niður stigann aftur.  Við áttum að mæta á Radison SAS hótelið kl 18 og borða þar fínar kræsingar með vinkonum okkar Gönnu, Vigdísi og dætrum.  Einnig ætluðu Siggi og Auðbjörg hjón sem hafa búið hér í eitt og hálft ár að snæða með okkur.  Gaman væri að hitta þau loks.  Skammt öfganna á milli en svona er lífið í Ktm.  Báðar að drepast úr harðsperrum lögðum við loks af stað.  Viti menn, um leið og við komum út, kom aðvífandi munkur með blóm og ýmislegt og blessaði okkur í bak og fyrir.  Óskaði okkur langlífis og góðri heilsu.  Þessir andans menn flykkjast að okkur eins og flugur að mykjuskán en moskítóflugurnar líta ekki við Fríðu P.  Kannski eru sterasprauturnar að virka, já sem betur fer.  Þá aftur að Radison hótelinu og fína matnum þar.  Fríða P stríddi hinni Fríðunni á því að sennilega fengjum við í magann af öllu gómsætinu.  Og viti menn það stóðst eins og í sögu, niðurgangur mikill hjá Fríðu G og ristilkrampar.  Þá er nú betra að borða heilnæmt fæðið í fjöllunum hvað sem aðrir myndu segja um hreinlætið.  Látum þá sögunni lokið um fjallaferðina því engin orð munu geta lýst upplifun okkar að fullu.

Næst munum við blogga um lífið og tilveruna hér í Ktm. og uppáhaldsstaðinn okkar stúpuna í Boudha.


Fjallaferð annar kafli

Það er mjög erfitt að lýsa fólkinu og hvernig við upplifðum það.  Ætlum við því að segja ykkur fyrst örlitið frá Gauri og fjölskyldum, þeim sem buðu okkur í fjallaferðina.

Gauri er eigandi íbúðarinnar sem við búum í hér í Ktm.  Hann er giftur Miru og eiga þau tvö börn.  Einnig á hann búð hér fyrir neðan sem selur útivistarfatnað og búnað ásamt því að eiga Thangka verslum.  En Thangka eru málaðar helgimyndir líkt og altaristöflur.  Hjá honum vinna svo fjölmörg ættmenni.  Einn frændi hans er góður vinur okkar en eitthvað hafa nöfnin á Nepölunum verið að vefjast fyrir okkur og hefur hann fengið fjölmörg nöfn s.s. Depok, Bandsja en heitir í raun Hodras.

Gauri var alinn upp við erfiðar aðstæður í fjöllunum, faðir hans dó er hann var 3 daga og fór hann 9 ára gamall til Indlands að vinna.  Vann erfiðisvinnu í 2 ár og gat nurlað saman fyrir smá landskika í fjöllunum þar sem við fórum.  Á hann systur þar, bróður sem missti konuna sína í fyrra og móðir sem er 79 ára ásamt fjölda annarra ættingja.

Megin tilgangur ferðarinnar var að við höldum að finna konu handa bróður hans svo mamman gæti komið til Ktm. og lifað betra lífi síðustu árin. Sem sagt þessi kona var með í förinni.  Var hún mjög fámál alla leið og leist greinilega ekkert á þessa för.  Stólaði þó mikið á okkur og leitaði eftir stuðning.  Oft á leiðinni upp héldum við að hún færi ekki lengra en hún fór alla leið greinilega með trega. 

Þegar að fyrstu húsunum við komum vorum við komnar á heimilið Hodras.  Þar var tekið vel á móti okkur.  Móðir hans indæl kona og eitthvað svo gott við hana.  Okkur var boðið vatn og te áður en lengra skildi haldi.  Þarna voru bara nokkur hús í þyrpingu og akrar á stöllum fyrir neðan.  Allir virkuðu vel á okkur börn sem fullorðnir. Þegar á toppinn var komið vorum við komnar á heimili annarra ættmenna Gauri.  Mamma hans var fremur bústin og virkaði sem algert hex.  Allt fólkið í þorpinu var mjög grannt og vant erfiðisvinnu.  Vinnandi á ökrunum allan daginn eða skokkandi niður og upp fjallið.  Greinilegt að Gauri var einhverskonar höfuðpaur og hans nánustu ef farið var í goggunarröðina.  Hann bersivirsinn hér.

Húsakynnin voru ca. 40 - 50 fermetrar og tvær hæðir.  Stutt var á milli húsa og milli þeirra var aðsetur dýranna.  Aðallega voru buffalóar og geitur bundin við staura nartandi í lauf og hænur og hanar flögruðu um.  Engir stólar né húsgögn voru sjáanleg og sat fólkið með krosslagðar fætur á veröndinni.  Einu húsgögnin sem við sáum var lítill skápur í herberginu okkar.  Fólkið þurfti að bera vatn úr einhverskonar lind sem var efst á toppinum.  Þar baðaði fólkið sig líka ef um bað skildi kalla.  Þvoði sér um andlit hendur og fætur upp úr ísköldu vatninu.  Hér hafði enginn menntun en sum barnanna voru svo heppin að fá að ganga í skóla uppá næsta fjalli.  Gengu þau meðfram fjallinu og á topp þess næsta og tók um 1 klst. fyrir þau að komast í skólann.  Fólk ræktaði allt sem það þurfti hér uppi.  Akrarnir voru  í stöllum niður með fjallinu og fólkið bar alla uppskeru upp.  Ræktað var kaffi, te, maís, hrísgrjón, grænmeti ofl. en ávextir uxu í trjánum við húsin.  Fábrotið líf í meiralagi sagt, enginn íburður né lúxus.  Maturinn eldaður við frumstæðar aðstæður yfir opnum eld og glóðum.  Konurnar sátu á hækjum sínum við eldhúsverkin og vatnið vel nýtt.  Maturinn fyrst þveginn og vatnið svo notað til annars, hugsum ekkert um það.  Salernisaðstaða engin fyrir utan einn kamar sem við höldum að fáir hafi notað nema við heldra fólkið.  Við vorum svo sem búnar að lýsa hýbýlunum í fyrra bloggi okkar þ.e. geitur fremstar í húsunum og eldunaraðstaða fyrir innan svo svefnaðstaða uppi.  Allir virtust þó una glaðir við sitt, mjög elskulegt fólk í alla staði og passaði vel uppá okkur fínu frúrnar.

Nepalskir karlmenn geta ekki verið konulausir, þurfa þær til að sjá um húsverkin.  Þá komum við aftur að konunni sem fór upp fjallið til að giftast bróðir Gauri.  Eitthvert vesen var með það og konan hvarf okkur sjónum er uppá fjallið kom.  Hún hafði neitað að giftast og það ekki gott mál.  Mamma Gauri var ekki ánægð með það því þá kæmist hún ekki til borgarinnar og grét hexið fögrum tárum yfir þessu.  Mikið var reynt að tala konuna til en ekkert gekk.  Stuttu eftir sólarupprás daginn eftir voru konurnar orðnar prúðbúnar og heldum við að þær ætluðu að biðjast fyrir og færa guðunum fórnir eins og tíðkast hér.  Nei viti menn upp úr þurru var gifting í aðsigi sí svona.  Tilvonandi hjón leidd að litlu musteri og þau pússuð saman.  Hún fékk nokkrar hálsfestir frá brúðgumanum, hann hring, blóm sett á höfuð þeirra og einhverju rauðu makað á enni þeirra.  Einhver yfirhalning átti sér stað og ég held að þeir sem gáfu þau saman voru ekki alveg viss hvernig ætti að gera þetta.  Að lokum urðu þau hjón og virtist hún bara ánægð með allt saman.  Vonum við að hún hafi ekki fengið bakþanka og líði vel í fjöllunum.  Bróðir Gauri virtist indælismaður og erum við vissar um að allt fólkið reynist henni vel.  Allavega vonum við það innilega.  Hængur var þó á gjöf  Njarðar, mamma Gauri gat ekki komið með niður af fjallinu því kenna þurfti nýju húsfrúnni á allt sístemmið.  Eftir 3 - 4 vikur fer sennilega Gauri aftur til að sækja mömmu sína og aldrei að vita nema við sláumst með í för að nýju.

Tvö börn eru munaðarlaus hér og hefur Gauri falast eftir því hvort sé ekki hægt að fá einhvern til að styrkja börnin þar sem allir hafa nóg með sitt.  Börnin eru systkini ca. átta og tíu ára.  Drengurinn tíu ára og heitir  Sonom en telpan átta ára og heitir Kovita.  Gott væri að vita hvort einhverjir væru ekki tilbúnir að leggja hönd á plóg og styrkja þau um skólagöngu og fæði annað þarfnast þau ekki.  Ekki er um stórar upphæðir að ræða kannski 3 - 4 þúsund rúpí á mánuði fyrir þau bæði.  Þetta eru mjög yndisleg og glaðvær börn og er mynd af þeim saman í albúminu okkar.

Ekki er hægt að setja í orð sú fegurð sem blasti við okkur á toppnum.  Undursamlegt útsýni og víðfeðmt.  Fagrir dalir langt fyrir neðan, stór á liðaðist um ( eða fljót ) og toppar Himalayja blasti við háir og tignarlegir.  Akrar niður með fjallshlíðinni og  niður fjöllin í kring.  Vorum við þess aðnjótandi að sjá sólina setjast bak við fjöllin há og koma upp með allri sinni dýrð yfir Himalaya.  Það má heldur ekki gleyma stjörnunum í allri sinni dýrð.  Birtist fyrst ein og hún var svo stór og skær að við vorum vissar um að hér væri ekki stjarna á ferð heldur gervitungl.  Verður þetta ekki með orðum lýst en vonumst við að myndir okkar færi ykkur eitthvað að fegurðinni.  Ekki tókst Camera gúrú betur til en að engar almennilegar myndir eru til að stjörnuglitinu því verr og miður.

Látum þetta gott heita í bili og bloggum um ferðina heim næst.

Fjallaferð fyrsti kafli

Þann 27 janúar héldum við í fjölskylduferð með Gauri og ættmönnum hans  á æskustöðvar hans.  Það eina sem við vissum að þetta væri í fjöllunum og ganga þyrfti einhvern spöl.  Um kvöldið þegar pakkað var niður kom í ljós að aðeins einn lítill bakpoki var til.  Fríða G sagði það ekkert mál hún færi bara með flugfreyjutöskuna sína, fékkst þó ofan af því og tók hliðartöskuna sína.

Þegar ferðin hófst kl. 08 var fjórtán manns hlaðið í bílinn og haldið á vit ævintýra. Þetta yrði ekkert mál, Gauri á lakkskónum, konan hans á ladyinniskóm og aðrir á strandskóm.  Við vel skóaðar í þessum fínu íþróttaskóm með ullarfötin meðferðis. Keyrt var í um 4 tíma með stoppi og borðað Dalbat ( Nepalski þjóðarrétturinn ). Loks var komið á áfangastað eða þannig og það fyrsta sem blasti við var hengibrú yfir fljót.  Þar lágum við í því að drepast úr lofthræðslu fikruðum við okkur yfir brúna og héldum að það versta væri búið. Næst tóku geitarstígarnir við fremur létt ganga og komið var á fyrsta áningastað í dal einum með iðandi lækjarsprænu.  Ekkert mál dálítið sveittar en bara létt.  Létt hver sagði það ?  Nú var alvara lífsins tekin við, snarbrattir geitastígar og næstum beint upp.  Þetta fer alveg að koma smá brekka eftir hugsuðum við á næsta áningastað, búnar að ganga í 2 tíma.  Þau sögðu að þetta væri tveggja tíma ganga var það ekki ?  Nei enn gengum við upp brattann á næsta áningastað klukkustund síðar.  Sumir voru orðnir ansi móðir og hjartað barðist.  Ekkert skrýtið með mörg kíló af myndavélagræjum með í för.  Töskurnar teknar af okkur næstum með valdi því svo þrjóskar vorum við orðnar, við skildum hafa þetta enda ekki nema smá spotti eftir.

Eftir klukkustund í viðbót, já fjórir tímar, héldum að loks værum við komnar því lítil hús blöstu við.  Heimili Batjú vinar okkar.  Þetta var þá síðasti hvíldarstoppið og enn skildi haldið á brattann eftir duglega drykkju og góðar móttökur heimilismanna.  Enn brattara síðasta spölinn og torffærara.  Eftir fjóra og hálfan tíma, jibbí við höfðum það og það lifandi.

Við okkur blasti lítil hús, geitur, buffalóar, hundar, gargandi hænur og hanar og fólkið starði á þessar furðuverur sem komu lafmóðar og rennsveittar.  Furðuverur, hvítar, já hvítar ekki fölar því við vorum kafrjóðar, stuttkipptar og í forundran hópuðust börnin að okkur.  Við vorum í einhverskonar vímu yfir allri dýrðinni sem blasti við.  Útsýnið ægifagurt, fórum við virkilega svona hátt ?  Áður en við vissum af var hani tekinn kverkataki og hausinn höggvinn af.  Veislu átti að halda og í rökkrinu var okkur borðið til borðs.  Óðum við reyk, klöngruðumst yfir geitur  og í einu horninu var opinn eldur.  Mira kona Gauri var að elda, búin að klöngrast upp fjallið og komin í hörku eldamennsku.  Geri aðrir betur.  Haninn í bitum í rótsterkri sósu, hrísgrjón og grænmeti.  Dregin var fram motta, sett fyrir framan eldinn og við með krosslagðarfætur tókum einar til matar.  Kurteisir fjallabúar sátu og fylgdust grannt með okkur.  Sumir voru þó lystarlausir en aðrir borðuðu betur fyrir kurteisissakir.

Þá var það náttstaðurinn, hús efst á toppi fjallsins og gengið var úr rúmi fyrir okkur.  Enn var klöngrast yfir geitur og upp hanabjálkastiga.  Sér herbergi, lúxus og ekkert smá flott.  Bandarísk plaköt prýddu ævaforna veggina og voru í skjön við allt umhverfið.  Gluggi en engin rúða takk, greið leið fyrir allar moskítóflugurnar og aðrar smáverur.  Þýðir ekkert að fást um slíka smámuni hér.  Alsælar en í spreng klöngruðumst við á ný yfir geiturnar og á salernið.  Smá skúr sem þurfti að bakka inní og gat í gólfinu.  Flott var það, allavega var lyktin betri en á veitingastöðunum í Kathmandu.  Nú var komið myrkur, vá allar stjörnurnar á himninum.  Héldum að við hefðum oft séð stjörnubjartan himinn heima á fróni.  Stjörnurnar voru svo stórar enda við í 2500 metra hæð og annan eins fjölda höfðum við aldrei séð.  Klöngrast var yfir geiturnar á ný, náð í þrífótinn og cameruna, þetta skildi setja á kort.  Þvælst var með græjurnar fram og til baka og börnin horfðu spennt á.  Þvílíkar furðuverur sem voru komnar í heimsókn.  Sjálfur Camera gúrú mættur á svæðið og Fríða P ber sjálfsagt það nafn til æviloka í þorpinu.  Þá loks var tími til að hátta og ganga til náða.  Í ullarfötin var farið og jakuxateppi breitt yfir sig.  Þetta voru alls ekki svo slæm rúm enda sofnaði Fríða P fljótt meðan hin Fríðan horfði út um gluggann alla nóttina, horfði á stjörnurnar og íhugaði.  Klukkan komin yfir miðnætti og vakna þurfti snemma til að sjá sólaruppkomuna.   Klukkan þrjú galaði haninn, klukkan fjögur enn á ný og klukkan fimm rifum við okkur á fætur.

Margt fleira átti eftir að bera daginn, framhald seinna.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband