Shangri La, Nagarkot, Shiva hátíð og Tibeskt nýar

Margt höfum við farið og upplifað frá síðasta bloggi.  Við vorum að undirbúa ferð til Dwarka Shangri La þann 12. febrúar og ekki leit það vel út.  Fríðu G var óglatt og kastaði upp seinnipart dagsins eftir að við höfðum litið eftir Ingibjörgu og Snjólaugu. Næstum búnar að slaufa ferðinni en vorum ekki tilbúnar að missa af neinu.  Um nóttina vöknuðum við báðar ælandi, önnur í klósettið og hin í vaskinn.  En þrjóskan var yfirsterkari og lagt var af stað kl. 09 um morguninn slappar og druslulegar. Guðrún Anna og Vigdís ásamt dætrum sínum sóttu okkur á góðum farakosti.

Shangri La föstudagurinn 13. febrúar

Keyrt var í um 2 klst til Dhulikhel og haldi aðeins lengra.  Komum við að litlu "hóteli" sem voru lítil hús byggð í fjallshlíð og undursamlegt útsýni blasti við.  Kósý og notalegur staður.  Fengum við hús ofarlega í fjallshlíðinni með smá grasflöt fyrir framan.  Ekki skemmdi það fyrir að hitateppi voru í rúmunum bæði undir og ofaná.

Fríða P var svo óheppin að fá innantökur og var frá fyrsta sólarhringinn en sem betur fer lagaðist það.  Nutum við fjallaloftsins, útsýnis og kyrrðar.  Mikið var gott að komast úr skarkala borgarinnar.  Yndislegur staður til að dvelja á.  Hér sem annarstaðar nutum við forréttinda.  Nudd var innifalið í gistingunni og meðan vinkonur okkar fengu ½ tíma nudd hvor, vorum við nuddaðar í bak og fyrir í klst. hvor.  Fengum góðan mat að snæða og lífið og tilveran dásamleg.  Stjörnurnar voru þó ekki eins stórar og skærar eins og á fjallinu okkar enda ljósamengun frá nærliggjandi bæjum.  Fríða G sá sjö erni flögra yfir og eina uglu, táknrænt.  Á sunnudeginum héldum við svo heim á leið til Ktm. endurnærðar og við hestaheilsu.  Þetta er staður sem er þess virði að njóta lífsins á.

Eftir dásamlega helgi var ákveðið að fara til Nagarkot helgina eftir en það er lítill bær í fjöllunum norður af Ktm.  Vigdís pantaði hótelgistingu og þá var bara að koma sér á staðinn.  Síðasti fararkostur var fremur dýr svo ákveðið var að leita að einhverju ódýrari leið.  Litlu taxarnir eru mun ódýrari en við komumst ekki allar í einn svo ákveðið var að taka sinn hvorn bíllinn.

Fríða P var en slöpp og nú var ekki lengur hægt að þrjóskast við enda gott að taka út læknisþjónustuna hérna.  Farið var á Ciwic clinic og hún skoðuð vel.  All vel tékkað og send svo í myndartöku af lungum.  Flott tæki, stafrænt og myndirnar tilbúnar á augabragði.  Mjög góð þjónusta. Lungnabólga, já fremur svæsin, sett á fúkkalyf og púst og mæta í tékk fyrir helgi.  Gauri vinur okkar hafði miklar áhyggjur af heilsu Fríðu P og las yfir okkur með reykingar ofl.  Góður kall og mjög umhugað um okkur.  Hætta að reykja og það gekk ágætlega í þrjá daga en svo fór að halla undan fæti.  Hún er þó að rembast við þetta og er hætt að reykja heilar sígarettur, bara hálfa og færri, smók og smók.

Við fórum í dýragarðinn til að Fríða G kæmist á fílsbak og Guðrún Anna og Vigdís voru ánægðar með áhuga okkar á því.  Nú þyrftu þær ekki að fara með dætur sinar heldur láta okkur sjá um það.  Fíllinn lallaði um dýragarðinn með okkur og við vorum hálf fegnar þegar túrnum var lokið.  Allt fest á myndir fyrir Friðrik sonarson hennar Fríðu G.  Það var draumur hans að sjá ömmu sína á fílsbaki og nú hefur sá draumur ræst.

Nagarkot laugardagurinn 21. febrúar

Við fengum indælan dreng til að keyra okkur til Nagarkot.  Bíllinn var þó hálf kraftlaus og þegar á brattann var haldið ofhitnaði hann.  Smástopp, helt vatni á vatnskassann og haldi á brattann á ný.  Ekki dugði það lengi, reykur gaus upp inní bílnum.  Plastflaska hafði bráðnað og bíllinn ofhitnað á ný.  Á endanum komumst við þó og fremur fallegt hótel blasti við á toppi fjalls.  Allt var mjög snyrtilegt og herbergin rúmgóð með góðu útsýni.  Guðrún Anna og Vigdís komu svo seinna um daginn því stelpurnar fóru í Bollywood danstíma.  Við nutum tímans vel í tvo daga, fengum frábært nudd og röltum um í róglegheitum.  Vöknuðum kl. 05 á sunnudeginum til að horfa á sólina koma upp yfir Himalaya fjöllunum en hún var ekki mikilfengleg vegna misturs og skýja.  Þónokkur vindur var á daginn og minnti okkur á heimalandið nema mun hlýrra. Rándýrt var að borða og maturinn ekki góður.  Alltof mikill hótelstíll yfir þessu og vantaði alla ró og kyrrð.  Þetta er ekki staðurinn fyrir okkur.  Sami drengurinn sótti okkur svo á mánudeginum.  Var vinur hans með í för og hann var á öðrum bíl,  hinn hefur alveg gefist upp.  Á leiðinn heim voru krakkar búnir að loka veginum og í fyrstu höfðum við gaman af.  Krakkarnir útsjónasamir að næla sér í aur.  Nei, hátíðisdagur Shiva var og þetta hluti af hátíðarhöldunum.  Að lokum var þetta hálfþreytandi þegar búið var að stoppa okkur 15 sinnum.  Sumir krakkanna voru með bambusstangir yfir veginum og önnur snæri.  Sáum við hversu hættulegur leikur þetta var þar sem hindranir voru settar við beygjur og mótorhjólin komu þjótandi.  Urðum við líka vitni að því þegar rúta full af fólki, einhver garmur var að fikra sig upp fjallshlíðina og var næstum runnin aftur á bak.  En sem betur fer fór allt vel og við komum heim um miðjan dag.  Þá var bara að þjóta af stað í næsta ævintýri.

Pashupatinath

Um helgina var verið að halda uppá afmælisdag Shiva einn af guðunum í Hindúatrú.  Mikil hátíðarhöld stóðu yfir sem nefnast Maha Shivaratri og við vildum ekki missa af þeim.  Fórum því strax þangað er við komum úr fjöllunum.  Lentum á götu troðfulla af fólki og stóðum þar eins og ratar.  Eitthvað var í aðsigi en hvað ?  Lögregla á hestum hrakti fólk frá og við næstum troðnar undir.  Fréttum þá að allir væru að bíða eftir að forsetinn færi hjá.  Við vorum ekki tilbúnar að troðast undir í mannþrönginni fyrir forsetann og forðuðum okkur því burt.  En hvert áttum við að fara til að komast að hofinu?  Ekki hugmynd.  En viti menn heppnin er alltaf með okkur, tveir ungir menn komu aðvífandi og sögðust vera leiðsögumenn og tilbúnir að lóðsa okkur um svæðið.  Nei við ætluðum ekki að láta svokallaða leiðsögumenn ræna okkur eina ferðina enn.  Boðið hjá þeim reyndist þó það gott að við slógum til, 200 kall.  Leiddu þeir okkur í gegnum þvögu af mannfólki, undir bönd, í gegnum raðir sem höfðu myndast, baka til ef þess þurfti og rökræddu við lögreglu til að koma okkur á ákveðna staði.  Við sáum líkbrennslur, meinlætamenn í röðum og útúrdópað lið.  Á þessum eina degi er löglegt að reykja hass og fleira en lagði hassfýluna yfir allt.  Hittum stelpu frá Ísrael sem vissi sennilega ekki hvar hún var stödd í heiminum.  All virkaði ekki vel á okkur, mikill órói og eitthvað ógeðfellt.  Vorum því fegnar er við komum heim um kvöldið en hefðum þó ekki viljað samt missa af þessu.

Þriðjudagurinn fór í að rölta um stræti Ktm, kíkja í verslanir eina ferðina enn og eyða deginum.  Römbuðum við inní svokallaða "hljóðfæraverslun" hér í næsta húsi, rétt til að tékka á verðinu á lúðrum.  Verslunareigandinn vakti þá athygli okkar á syngjandi skálum.  Setti okkur á stóla og hélt svo mikilfenglega tónleika fyrir okkur.  Algjör snillingur.  Þvílík hljóð sem komnar úr einni skál.  Lét hann svo vatn í skálina, spilaði á hana þar til vatnið myndaði rigningu upp úr henni.  Heillaðar keyptum við CD disk af honum þar sem spilað er á skálar og Fríða P. ætlar örugglega að kaupa eina skál þó rándýr sé og fá kennslu á hana.

Næst var að fara í Boudhna stúpuna að fagna nýári Tíbeta 25. febrúar.  Við ætluðum að eyða öllum deginum þar.  Fórum um hádegi og röltum um í róglegheitum.  En hvað þetta virkar alltaf róandi á okkur og andrúmsloftið eitthvað svo gott og notalegt. Tókum við eftir því að kviknað hafði í húsi einu á svæðinu, sennilega um nóttina og fólk var að hreinsa út úr því.  Allt brunnið sem brunnið gat og fólkið alslaust á nýju ári.  Við óskuðum aðeins að enginn hefði slasast. Tíbetarnir voru í óðaönn að snyrta allt í kringum stúpuna og undirbúa nýárið.  Fólk gekk sönglandi kringum stúpuna hring eftir hring með logandi kerti.  Einhver hélt ræðu og þó við skildum ekkert þá var ræðan örugglega um frelsi Tíbets.  Svo um kvöldið var kveikt á kertum hér og þar og efsti pallur stúpunnar var upplýstur með kertaljósum.  Þó var ekki kveikt eins mikið á kertum þetta árið sennilega til að mótmæla yfirtöku kínverja í Tíbet.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvílíkir dagar hjá ykkurog frábærir. Kveðja til Gaura ég er honum alveg sammála . Kærar kveðjur  frá okkur heima .

Unnur (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 22:13

2 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Elsku Fríður, það er alltaf heilmikið um að vera hjá ykkur. Mikið er gaman að fylgjast með ferðum ykkar og ævintýrum. Vona bara innilega að lungnabólgan sé farin og ykkur farið að líða betur.

Knús og kveðjur, hafið það gott

Ragnhildur Jónsdóttir, 26.2.2009 kl. 23:05

3 identicon

Þetta eru nú meiri æfintýrin - gaman að fylgjast með ykkur! Vonandi heilsast ykkur betur - það er algjör sóun á tíma að vera lasin!!!!Kveðjur frá Sönderborg í Dk.

Ása Ólafs. (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband