Síðasta bloggið frá Nepal

Nú er komið að heimför og verður þetta síðasta blogg okkar að þessu sinni héðan frá Nepal.  Við höfum verið fremur andlausar frá síðasta bloggi enda gífurlegur hiti hér og við næstum bensínlausar hér í Kathmandu.  Enda var landamærunum hér lokað í 11 til 12 daga og ekkert eldsneyti að fá.  Ýmislegt markvert hefur gerst og örugglega frá mörgu að segja en tíminn er takmarkaður því í dag höfum við verið að pakka niður og skiljum ekkert í því hvað mikið dót leynist hér og þar.

Við höfum farið a.m.k. tvisvar sinnum í Boudha stúpuna í apríl og að vanda verið blessaðar í bak og fyrir.  Drukkið heilagt vatn og það bætti heldur betur matarlystina hjá Fríðu P og klæðskerasaumuðu fötin að verða of lítil.  Við höfum eignast vini þar Búddamunka sem hafa heillast mjög af okkur og þá sérstaklega Fríðu G.  Hafa þeir stjanað við okkur, frætt og blessað okkur og svei mér þá ekki gift okkur líka að Búddiskum sið J  allavega sögðu þeir að við ættum einstakt dharma saman.  Indælir drengir sem hafa snert hjörtu tveggja miðaldra.

Við fórum í beuty saloon til að gera okkur fínar og til að taka upp heimildarmyndir.  Heilluðust snyrtidömurnar svo af Fríðu P, vildu taka mynd af henni til að hengja upp í snyrtistofunni.  Það eru nú ekki allir sem verða topp model á svip stundu.  Mikið er búið að hlægja af þessu og nú er hún kölluð Beuty Palma hér í Kathmandu, sem sagt orðin fræg, loksins kom að því.

Fríða P fékk það hlutverk að skipuleggja fer og um síðustu helgi fórum við í fjallaferð með G.Önnu, Snjólaugu, Sigga, Auðbjörgu, Agli og Önnu Siggu.  Átta stk. af íslendingum var troðið í Landcruser og hossast var af stað.  40 km vegalengd tók okkur 3 tíma, reyndar fór ca. ½ klst forgörðum þar sem bílstjórinn rataði ekki og við kunnum ekki við að skipta okkur af.  Á endanum lóðsuðum við hann á áfangastað.  Vegurinn var að megninu til vegaslóði og áður en á áfangastað var komið leist kvenpeningnum ekki á og vildi fremur ganga en keyra.  Á því augnabliki missti Fríða P alla vini sína í einum vettvang og varð að ganga langt á eftir hópnum á leiðarenda.  Þegar loks var komið á áfangastað var Fríðu P fyrirgefið því staðurinn var æðislegur og útsýnið með eindæmum.  Áttum við frábærar stundir saman, mikið var hlegið og grínast, einnig farið í göngutúra.  Við fríðurnar urðum eftir og gistum eina nótt í viðbót og sátum einar að bílnum á heimleiðinni.  Reyndar fékk hótelstjórinn far með okkur til Kathmandu og fór með okkur í smá sightseen.  Í litlum bæ á heimleiðinni var stoppað og við skoðuðum bæinn og musteri.  Vildi svo vel til að akkúrat þennan dag voru ungar stúlkur að ganga í helgidóm.  Á aldrinum 6 - 11 ára eru allar stúlkur giftar guðunum og afstaða tunglanna verður að vera sérstök þegar þessi athöfn fer fram.  Þær eru lokaðar inn í 12 daga, mega ekki sjá sólina né karlmenn.  Og viti menn það er eins og annað hér í Nepal allt kemur óvænt uppí hendurnar á okkur og við urðum vitni að þessum sérstaka atburði.  Mjög skemmtileg helgi með frábæru fólki sem mun seint gleymast.

Við komum heim á mánudaginn og hittum svo Sigga, Auðbjörgu og krakkana um kvöldið.  Þau buðu okkur í mat á frábærum veitingastað, besti matur sem við höfum fengið og yndisleg kvöldstund.  Munum við sakna þeirra mikið og stefnum að því að heimsækja þau á næsta ári hvar í veröldinni sem það verður nú. Skemmtileg og heillandi hjón í alla staði.

Fríða P ákvað að fara í klippingu hér fyrir heimferðina og Hodras vinur okkar lóðsaði hana til rakarans og yfirgaf hana síðan.  Viltu hafa það stutt spurði rakarinn.  Nei en þú mátt þynna það.  Svo byrjaði hann fimlega að klippa.  Á meðan dönsuðu kakkalakkarnir á borðinu fyrir framan.  Nepölsk, já í húð og hár og kippti sér ekkert upp við þetta.  Jæja hárið fauk af, næstum krúnurökuð en það vex.  Næst setti hann eitthvað hvítt í lófa sinn og ætlaði að maka því í andlitið.  Nei, ætlar hann virkilega að raka mig?  Í svona sekúndubrot fór virkileg um hana.  No chemicals sagði hann loks, skellti þessu í andlitið og nuddaði og nuddaði.  Húðhreinsun á rakarastofu og ekki nóg með það heldur skellti hann maskara í fésið, lagi kodda á borðið, hausinn þar á (hjá kakkalökkunum) og svo byrjaði handar-, bak- og herðanudd.  Dásamlegt líf nema þetta var ekki nepalíprís.

Í gær komu svo tíbetsku vinir okkar spes ferð frá Pokhara til að elda handa okkur og kveðja.  Engin lýsingarorð eru nógu góð til að lýsa þessum dásamlegu hjónum, þau eru einstök og munu ætíð eiga stóran sess í hjörtu okkar.  Maturinn tíbetskur og einstaklega góður.  Við áttum mjög góðar stundir með þeim, færðu okkur gjafir, tíbetskt te, stampa og margt fleira.  Í fyrramálið ætla þau að fylgja okkur út á flugvöll og sú kveðjustund verður erfið eins og aðrar.

Okkur var farið að hlakka mjög til að koma heim en við finnum fyrir miklum trega að yfirgefa Nepal og erum hálfklökkar.  Ferðin hefur verið frábær í alla staði og við hefðum ekkert vilja hafa neitt öðruvísi en það var.  Ógleymanlegur tími og vonandi mun við hafa tækifæri til að koma aftur.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Mikið rosalega hlakka ég til að sjá ykkur elsku Fríður. Þetta hefur greinilega verið algjört ævintýri í alla staði!

Sjáumst

p.s. endilega skiljið samt kakkalakkana eftir úti .....

Ragnhildur Jónsdóttir, 29.4.2009 kl. 14:56

2 identicon

Elskurnar: Velkomnar í rigninguna og 4- 10 gr hita. Góða heimferð. Gangi ykkur vel.Ástarkveðjur Mamma.

Unnur (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 15:20

3 identicon

Takk kæru Fríður fyrir frábært blogg, þetta hefur verið snilldartúr hjá ykkur.

Kveðja Lena (vinkona Gönnu :))

Lena Kristjansdottir (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband