Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Fjallaferð fyrsti kafli

Þann 27 janúar héldum við í fjölskylduferð með Gauri og ættmönnum hans  á æskustöðvar hans.  Það eina sem við vissum að þetta væri í fjöllunum og ganga þyrfti einhvern spöl.  Um kvöldið þegar pakkað var niður kom í ljós að aðeins einn lítill bakpoki var til.  Fríða G sagði það ekkert mál hún færi bara með flugfreyjutöskuna sína, fékkst þó ofan af því og tók hliðartöskuna sína.

Þegar ferðin hófst kl. 08 var fjórtán manns hlaðið í bílinn og haldið á vit ævintýra. Þetta yrði ekkert mál, Gauri á lakkskónum, konan hans á ladyinniskóm og aðrir á strandskóm.  Við vel skóaðar í þessum fínu íþróttaskóm með ullarfötin meðferðis. Keyrt var í um 4 tíma með stoppi og borðað Dalbat ( Nepalski þjóðarrétturinn ). Loks var komið á áfangastað eða þannig og það fyrsta sem blasti við var hengibrú yfir fljót.  Þar lágum við í því að drepast úr lofthræðslu fikruðum við okkur yfir brúna og héldum að það versta væri búið. Næst tóku geitarstígarnir við fremur létt ganga og komið var á fyrsta áningastað í dal einum með iðandi lækjarsprænu.  Ekkert mál dálítið sveittar en bara létt.  Létt hver sagði það ?  Nú var alvara lífsins tekin við, snarbrattir geitastígar og næstum beint upp.  Þetta fer alveg að koma smá brekka eftir hugsuðum við á næsta áningastað, búnar að ganga í 2 tíma.  Þau sögðu að þetta væri tveggja tíma ganga var það ekki ?  Nei enn gengum við upp brattann á næsta áningastað klukkustund síðar.  Sumir voru orðnir ansi móðir og hjartað barðist.  Ekkert skrýtið með mörg kíló af myndavélagræjum með í för.  Töskurnar teknar af okkur næstum með valdi því svo þrjóskar vorum við orðnar, við skildum hafa þetta enda ekki nema smá spotti eftir.

Eftir klukkustund í viðbót, já fjórir tímar, héldum að loks værum við komnar því lítil hús blöstu við.  Heimili Batjú vinar okkar.  Þetta var þá síðasti hvíldarstoppið og enn skildi haldið á brattann eftir duglega drykkju og góðar móttökur heimilismanna.  Enn brattara síðasta spölinn og torffærara.  Eftir fjóra og hálfan tíma, jibbí við höfðum það og það lifandi.

Við okkur blasti lítil hús, geitur, buffalóar, hundar, gargandi hænur og hanar og fólkið starði á þessar furðuverur sem komu lafmóðar og rennsveittar.  Furðuverur, hvítar, já hvítar ekki fölar því við vorum kafrjóðar, stuttkipptar og í forundran hópuðust börnin að okkur.  Við vorum í einhverskonar vímu yfir allri dýrðinni sem blasti við.  Útsýnið ægifagurt, fórum við virkilega svona hátt ?  Áður en við vissum af var hani tekinn kverkataki og hausinn höggvinn af.  Veislu átti að halda og í rökkrinu var okkur borðið til borðs.  Óðum við reyk, klöngruðumst yfir geitur  og í einu horninu var opinn eldur.  Mira kona Gauri var að elda, búin að klöngrast upp fjallið og komin í hörku eldamennsku.  Geri aðrir betur.  Haninn í bitum í rótsterkri sósu, hrísgrjón og grænmeti.  Dregin var fram motta, sett fyrir framan eldinn og við með krosslagðarfætur tókum einar til matar.  Kurteisir fjallabúar sátu og fylgdust grannt með okkur.  Sumir voru þó lystarlausir en aðrir borðuðu betur fyrir kurteisissakir.

Þá var það náttstaðurinn, hús efst á toppi fjallsins og gengið var úr rúmi fyrir okkur.  Enn var klöngrast yfir geitur og upp hanabjálkastiga.  Sér herbergi, lúxus og ekkert smá flott.  Bandarísk plaköt prýddu ævaforna veggina og voru í skjön við allt umhverfið.  Gluggi en engin rúða takk, greið leið fyrir allar moskítóflugurnar og aðrar smáverur.  Þýðir ekkert að fást um slíka smámuni hér.  Alsælar en í spreng klöngruðumst við á ný yfir geiturnar og á salernið.  Smá skúr sem þurfti að bakka inní og gat í gólfinu.  Flott var það, allavega var lyktin betri en á veitingastöðunum í Kathmandu.  Nú var komið myrkur, vá allar stjörnurnar á himninum.  Héldum að við hefðum oft séð stjörnubjartan himinn heima á fróni.  Stjörnurnar voru svo stórar enda við í 2500 metra hæð og annan eins fjölda höfðum við aldrei séð.  Klöngrast var yfir geiturnar á ný, náð í þrífótinn og cameruna, þetta skildi setja á kort.  Þvælst var með græjurnar fram og til baka og börnin horfðu spennt á.  Þvílíkar furðuverur sem voru komnar í heimsókn.  Sjálfur Camera gúrú mættur á svæðið og Fríða P ber sjálfsagt það nafn til æviloka í þorpinu.  Þá loks var tími til að hátta og ganga til náða.  Í ullarfötin var farið og jakuxateppi breitt yfir sig.  Þetta voru alls ekki svo slæm rúm enda sofnaði Fríða P fljótt meðan hin Fríðan horfði út um gluggann alla nóttina, horfði á stjörnurnar og íhugaði.  Klukkan komin yfir miðnætti og vakna þurfti snemma til að sjá sólaruppkomuna.   Klukkan þrjú galaði haninn, klukkan fjögur enn á ný og klukkan fimm rifum við okkur á fætur.

Margt fleira átti eftir að bera daginn, framhald seinna.


Lítil paradís

Rafmagnsleysi enn að há blogginu okkar og þá sérstaklega að hlaða inn myndum.  Verðum að sæta lagi þar sem rafmagn hefur verið síðustu daga á óhentugum tíma.  Höfum við þurft að sitja við tölvuna í rúma tvo tíma til að koma örfáum myndum inn, svona er hraðinn í Ktm. Annars er allt gott að frétta og nóg að gera við að skoða trúarmenninguna hér og lífið.

Fórum í leiðangur um daginn á torg eitt ( Durban ) þar sem fullt er af hofum og stúpum.  Heldum að þar gætum við setið í róglegheitum og sogið í okkur góða anda. Þegar á daginn kom var bara kraðak, læti og allskonar fólk sogaðist að okkur túristunum í von um aur.  Hittum við þó indælan Gúru sem brosti breitt til okkar.  Við vorum í skýjunum að svo merkilegur maður sýndi okkur áhuga.  Tókum nokkrar myndir og styrktum hann um 500 kall.  Eftir tvo tíma á vafri hittum við hann aftur og umvafði hann okkur þá með ánægjuglampa í augunum.

Við erum nú loksins búnar að finna okkar stað hér í Ktm. þ.e. Doupha stúpuna og erum búnar að fara þangað tvisvar sinnum.  Stærsta Stúpan hér í Ktm. með 108 om mane pathne hum hjólum í kring.  Dýrðlegur staður, friður, ró og enginn sem truflar mann nema á góðan hátt.  Þar komu Tíbetarnir til að þakka fyrir vel heppnaða fer yfir Himalayafjöllin og biðja fyrir góðri heimför.  Margir Tíbetar búa þar nú, fólk sem flúði yfir fjöllin fyrir sextíu árum og er eins klætt nema skóbúnaðurinn er ýfið betri hjá sumum þeirra.  Það er eins og detta inní ævagamla menningu.  Fólk gengur hring eftir hring í hugleyðslu og bæn.  Þvílík upplifun og við erum komnar heim.  Það eru engin orð til að lýsa upplifun okkar hér á þessum stað.

Í gær fórum við í annað sinn í sérstökum tilgangi og til að upplifa aftur.  Keyptum þessi fínu talnabönd úr jakuxabeini, já það þýðir ekkert að vafra um allslaus.  Við vorum hæstánægðar með kaupin, dingluðum þeim í annarri hendinni og vorum með rettu í hinni.  Munkur einn sem gekk hjá benti okkur þó á að aðfarir okkar væru ekki réttar.  Við náðum hintinu.  Litlu seinna gaf munkurinn sig á tal við okkur og bauð okkur að skoða skólann sinn sem við og gerðum.  Blessaði hann talnaböndin okkar til að opna augu Búdda því annars eru þau gagnslaus.  Þetta var mjög ánægjuleg uppákoma og héldum við hamingjusamar á braut með talnaböndin um hálsinn og enga rettu.

Næst héldum við af stað í klaustur hér í hlíðum Ktm. Kopan.  Þaðan var fagurt útsýni yfir hluta af borginni.  Klaustrið er umlukið fallegum garði og munkar af öllum aldri að koma úr kennslustund.  Þar er hægt að fara á námskeið í Búddiskum fræðum en í þetta sinn létum við nægja að viða að okkur bókmenntum og íhugunarefni.

Höfum við verið í sæluvímu með allt hér og hvergi fundið okkur mein fyrr en við vöknuðum í gær.  Stirðar og skakkar, já rúmið er farið að taka verulega í skrokkinn.  Við bara reddum því og höldum í dýnuleiðangur hugsuðum við.  En viti menn þessi yndislega fjölskylda sem við búum hjá hugsar um sitt fólk.  Er við bárum raunir okkar upp við Depok ( frænda Gauri en hann eldar alltaf fyrir okkur morgunmatinn ) sagðist hann fara fyrir okkur og kaupa dýnu, gæti fengið hana á betri prís en við túristarnir.  Er við komum svo heim í gærkveldi var ekki þessi frábæra dýna komin og við vöknuðum liðugar og fínar í dag.


Fyrsta vikan í Kathmandu

Enn er rafmagn af skornum skammti þrátt fyrir mótmælagöngur á götunum.  Sökum rafmagnsskorts gengur hægt að blogga, nettenging hægfara og erfitt að setja inn myndir.  Höfum við vafrað um göturnar í nokkra daga, verið rændar eða þannig.  Erum rétt að átta okkur á verðlaginu og höfum borgað himinháar upphæðir fyrir smávægilega hluti, já hreinlega rændar. Ganna sem er næstum Nepalbúi hlær dátt að einfeldni okkar.

Símtalið sem við fengum um daginn var frá nágrönnum okkar Gönnu og Vigdísi.  Annað kvöldið okkar hér á fjarlægum slóðum, já hrikaleg raun fyrir vinkonur okkar.  Kviknaði í gasofni á miðju stofugólfi hjá þeim og stóð allt í björtum logum.  Mikil mildi að ekkert stór slys varð, húsið hefði getað sprungið í loft upp.  Erum við enn að þakka himinguðunum hversu vel allt fór.  Það kviknar víst í annarsstaðar en á Íslandi.

Erum við í góðu yfirlæti hér hjá góðu fólki Gauri og fjölskyldu.  Vorum við rétt í þessu að koma úr matarboði hjá þeim.  Yndislegt fólk og góður matur.  Gauri er búinn að bjóða okkur í ferð á sínar heimaslóðir hér uppí fjöllunum.  Þar er mikil fátækt og enn kaldara en hér í Ktm.  Ætlum við að sofa eina nótt og okkur skilst að við verðum í svefnpokum þannig að það er best að hafa öll ullarlögin með sér.  Þurfum við að ganga í 4 tíma til að komast á áfangastað.  Við vitum ekkert hvað við erum að fara út í en vonandi komust við lífs af.

Ekki má gleyma að segja ykkur frá því að við höfum styrkt 4 ára strák hérna og ömmu hans sem er um 73 ára gömul.  Drengurinn heitir Kopila og amma hans Dhana.  Hurfu foreldrar drengsins og enginn veit um afdrif þeirra.  Talið er að Maóistarnir hafi átt þar hlut að máli.  Amman hefur stundum fengið smá viðvik við uppvask endrum og eins og er orðin veikburða.  Höfum við tekið það að okkur að sjá þeim fyrir mat, klæði og húsnæði ásamt skólagöngu Kopila um ókomin ár.

Höfum við verið að skoða möguleika á ferð til Tíbet og margt fleira.  Vitum ekki hvernig við eigum að komast yfir allt það sem við þurfum að sjá þannig að sennilega komum við ekkert heim.  Allir virðast una glaðir við sitt, brosa,  bjóða okkur í mat jafnvel skartgripasali sem við heimsóttum í dag.

Reynum að setja inn myndir áður en rafmagnið fer og sultardroparnir fara að renna úr nösum okkar enn á ný.


Þá er ævintýrið hafið

Þá er ævintýrið hafið.  Við fríðurnar erum loks komnar á draumastaðinn Kathmandu í Nepal.  Flugferðin var styttri en við áætluðum eða tók rúmlega sólarhring með níu tíma stoppi í London og 3 tíma í Dehlí.

Þegar Fríða G. fór í gegnum hliðið á Heathrow pípti allt, hún afklædd á staðnum og skoðuð í krók og kima enda hryðjuverkamaður frá Íslandi á ferð.  Kófsveittri var henni hleypt í gegn enda stóð ekki til að við dveldum í óvinalandi.

Er við nálguðumst Nepal blasti við fögur sjón, Himalaya fjöllin í allri sinni dýrð, stór, fögur og snævi þaktir topparnir.  Stórt og magnþrungið útsýni sem við eigum eftir að njóta oftar á ævintýraför okkar. Auðveldlega gekk að fá áritun inní landið bara smá biðröð og 200 $ farnir fyrir 3ja mánaða vísa. Þá er bara að gleyma ekki framlengingu þann 9. apríl.

Ævintýrið hafið, já svo sannarlega.  Mannmergð, hrörleg hús, betlarar og við tölum ekki um umferðarmenninguna.  Allt í kraðaki, bílar, mótorhjól, hjól og allskyns farartæki.  Ótrúlegustu bílstjórar og ef við sáum rétt var geit á hjóli.  Ekki höfðum við farið langt er bíll rann inní hliðina á okkur í einni brekkunni en engan sakaði.  Sumir ferðafélaganna voru í léttu menningarsjokki og vonandi jafna þeir sig með tímanum.

Gistum við á gistiheimilinu hans Arjon fyrstu nóttina í góðu yfirlæti.

Hrikalega er kalt hér í Nepal, kuldinn nístir langt inní bein, já sko langt.  Fríða G. var ósofin og þreytt er haldið var til náða fyrsta kvöldið.  Þá kom sér vel að hafa allan þann kuldafatnað sem við áttum heima og tókum með.  Fatnaður fyrir nóttina til að lifa af var, ullarbrók, náttbuxur, ullarbolur, ullarpeysa, flíspeysa, sokkar, ullarsokkar, trefill, húfa og vettlinga (Takk mamma Unnur fyrir húfuna góðu, grifflurnar og ullarsokkana og Hrund takk fyrir ullarnærfötin og skinnskóna).  Þrátt fyrir þetta láku sultardroparnir úr nefjum ferðalanga. Vöknuðum við snemma næsta morgun til að komast í varanlegt húsnæði.  Heimsóttum við ferðafélagana Guðrúnu Önnu, Vigdísi og dætur en þær höfðu lítið sem ekkert sofið um nóttina sökum kulda, ofþreytu og fjörugra barna.  Síðan var farið að leita að húsnæði.  Ákveðið var að byrja að leita í Thamel sem er í centralinu hér í Ktm.  Fundum við frábæra íbúð, nýuppgerða og þá var bara að semja um verðið, himinhátt verð blasti við.  Samningar hófust þar sem við vorum heillaðar af húsnæðinu og staðsetningu þess.  Reiknað var út verð á rafmagni sem er skammtað mjög nú í Ktm. og  mjög dýrt, gasi, húshjálp, security osfrv.  Samningar náðust að lokum og mikið prúttað.  Allt greitt fyrirfram sem skipti okkur engu þar sem gott var að losnað við þessa rándýru kreppu dollara.  Nú eigum við öruggt skjól allan tímann sem við dveljum hér. Glæsilega íbúð með baði og eldhúsi, lítil en kósý og flott. Búum á sjöundu hæð og í sjöunda himni yfir því.  Stórar svalir til afnota tveimur hæðum ofar og frábær fjallasýn. Flutt var inn og götulífið skoðað. Stórhættulegt er að ganga á mjóum öngstrætum Ktm, bílar, hjól, betlarar og þar af verra.  Eins gott að passa líf, limi og budduna hér.

Um kvöldið hringdi svo síminn hjá okkur, já lúxus hvað annað, ferðafélagar okkar voru á línunni með fréttir sem við skrifum um síðar.  Í kjölfarið fluttu þær í sama hús og við búum og erum við allar í góðu yfirlæti hjá Gauri Nepalanum okkar.

Sunnudagurinn fór í ýmsar reddingar en í dag nýttum við tímann vel.  Fengum leiðsögn um hluta borgarinnar og uppfræddumst heilmikið um trúmál, Nepölsk hof  (Pagoda), Indversk hof  (Shiuhara ) og Tíberskar stúpur.

Erum við að venjast aðstæðum hér vel.  Rafmagn er af skornum skammti aðeins 8 tíma á dag og í hverfinu okkar þegar við sofum eða erum úti. Monsún rigningarnar eyðilögðu 3 stíflur í fyrra og því er rafmagn af skornum skammti.  Í dag er rökkva tók vorum við mjög auðmjúkar og sögðum væri það ekki næs ef við hefðum eitt ljós í myrkrinu til að geta lesið svolítið. Í bað komumst við ekki fyrr en í gær og nutum þess í botn, annars hefðum við alveg lifað af nokkra daga í viðbót.  Rusl í haugum á götunum enda verkamenn í straffi en hinar heilögu kýr una hag sínum vel á haugunum.

Erum í sæluvímu yfir öllu og höfum nóg að sýsla.


Tilhlökkun

Það er allt á fullu hjá okkur og tilhlökkunin mikil. Ferðatöskurnar komnar úr geymslu og byrjað að tína til þarfahluti. Endalausar spurningar um hvað þarf og hvað ekki í svona langt ferðalag. Ekki er enn komið í ljós hvort taskan verði hálftóm eða stútfull. Að pakka niður fyrir fjóra mánuði kallar á endalausar pælingar. Ískalt á nóttunni en ágætur hiti á daginn í janúar og febrúar. Í mars og apríl verður líklega hitastigið komið upp í 25 -30 gráður á daginn og þá þarf létt og þægileg föt. En ekki er æskilegt að sýna mikla nekt svo enn er farið yfir fataskápinn og spáð og spekúlerað. Ætli við reddum þessu ekki þannig að við kaupum okkur munkakufla að hætti innfæddra og þá er málið leyst og enginn töskuburður.  

Gleðilegt ár

Nú er árið 2008 liðið með öllum sínum uppákomum. Þetta var ár mikilla breytinga hjá okkur báðum og var afskaplega skemmtilegt í alla staði. Nú rennur inn hið nýja ár og erum við fullar af tilhlökkun. Við erum náttúrulega hálf klikkaðar að vera að ferðast á þessum krepputímum en þar sem þessi ferð var ákveðin fyrir kreppu þá var "pollýannan" tekin á þetta. Í dag erum við afskaplega fegnar að hafa ekki afskráð ferðina. Eftir sex daga göngum við á vit nýrra ævintýra í nýrri heimsálfu, bjartsýnar og glaðar.  Munum við reyna eftir fremsta megni að leyfa ykkur að fylgjast með okkar ævintýrum. 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband