Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Shangri La, Nagarkot, Shiva hátíð og Tibeskt nýar

Margt höfum við farið og upplifað frá síðasta bloggi.  Við vorum að undirbúa ferð til Dwarka Shangri La þann 12. febrúar og ekki leit það vel út.  Fríðu G var óglatt og kastaði upp seinnipart dagsins eftir að við höfðum litið eftir Ingibjörgu og Snjólaugu. Næstum búnar að slaufa ferðinni en vorum ekki tilbúnar að missa af neinu.  Um nóttina vöknuðum við báðar ælandi, önnur í klósettið og hin í vaskinn.  En þrjóskan var yfirsterkari og lagt var af stað kl. 09 um morguninn slappar og druslulegar. Guðrún Anna og Vigdís ásamt dætrum sínum sóttu okkur á góðum farakosti.

Shangri La föstudagurinn 13. febrúar

Keyrt var í um 2 klst til Dhulikhel og haldi aðeins lengra.  Komum við að litlu "hóteli" sem voru lítil hús byggð í fjallshlíð og undursamlegt útsýni blasti við.  Kósý og notalegur staður.  Fengum við hús ofarlega í fjallshlíðinni með smá grasflöt fyrir framan.  Ekki skemmdi það fyrir að hitateppi voru í rúmunum bæði undir og ofaná.

Fríða P var svo óheppin að fá innantökur og var frá fyrsta sólarhringinn en sem betur fer lagaðist það.  Nutum við fjallaloftsins, útsýnis og kyrrðar.  Mikið var gott að komast úr skarkala borgarinnar.  Yndislegur staður til að dvelja á.  Hér sem annarstaðar nutum við forréttinda.  Nudd var innifalið í gistingunni og meðan vinkonur okkar fengu ½ tíma nudd hvor, vorum við nuddaðar í bak og fyrir í klst. hvor.  Fengum góðan mat að snæða og lífið og tilveran dásamleg.  Stjörnurnar voru þó ekki eins stórar og skærar eins og á fjallinu okkar enda ljósamengun frá nærliggjandi bæjum.  Fríða G sá sjö erni flögra yfir og eina uglu, táknrænt.  Á sunnudeginum héldum við svo heim á leið til Ktm. endurnærðar og við hestaheilsu.  Þetta er staður sem er þess virði að njóta lífsins á.

Eftir dásamlega helgi var ákveðið að fara til Nagarkot helgina eftir en það er lítill bær í fjöllunum norður af Ktm.  Vigdís pantaði hótelgistingu og þá var bara að koma sér á staðinn.  Síðasti fararkostur var fremur dýr svo ákveðið var að leita að einhverju ódýrari leið.  Litlu taxarnir eru mun ódýrari en við komumst ekki allar í einn svo ákveðið var að taka sinn hvorn bíllinn.

Fríða P var en slöpp og nú var ekki lengur hægt að þrjóskast við enda gott að taka út læknisþjónustuna hérna.  Farið var á Ciwic clinic og hún skoðuð vel.  All vel tékkað og send svo í myndartöku af lungum.  Flott tæki, stafrænt og myndirnar tilbúnar á augabragði.  Mjög góð þjónusta. Lungnabólga, já fremur svæsin, sett á fúkkalyf og púst og mæta í tékk fyrir helgi.  Gauri vinur okkar hafði miklar áhyggjur af heilsu Fríðu P og las yfir okkur með reykingar ofl.  Góður kall og mjög umhugað um okkur.  Hætta að reykja og það gekk ágætlega í þrjá daga en svo fór að halla undan fæti.  Hún er þó að rembast við þetta og er hætt að reykja heilar sígarettur, bara hálfa og færri, smók og smók.

Við fórum í dýragarðinn til að Fríða G kæmist á fílsbak og Guðrún Anna og Vigdís voru ánægðar með áhuga okkar á því.  Nú þyrftu þær ekki að fara með dætur sinar heldur láta okkur sjá um það.  Fíllinn lallaði um dýragarðinn með okkur og við vorum hálf fegnar þegar túrnum var lokið.  Allt fest á myndir fyrir Friðrik sonarson hennar Fríðu G.  Það var draumur hans að sjá ömmu sína á fílsbaki og nú hefur sá draumur ræst.

Nagarkot laugardagurinn 21. febrúar

Við fengum indælan dreng til að keyra okkur til Nagarkot.  Bíllinn var þó hálf kraftlaus og þegar á brattann var haldið ofhitnaði hann.  Smástopp, helt vatni á vatnskassann og haldi á brattann á ný.  Ekki dugði það lengi, reykur gaus upp inní bílnum.  Plastflaska hafði bráðnað og bíllinn ofhitnað á ný.  Á endanum komumst við þó og fremur fallegt hótel blasti við á toppi fjalls.  Allt var mjög snyrtilegt og herbergin rúmgóð með góðu útsýni.  Guðrún Anna og Vigdís komu svo seinna um daginn því stelpurnar fóru í Bollywood danstíma.  Við nutum tímans vel í tvo daga, fengum frábært nudd og röltum um í róglegheitum.  Vöknuðum kl. 05 á sunnudeginum til að horfa á sólina koma upp yfir Himalaya fjöllunum en hún var ekki mikilfengleg vegna misturs og skýja.  Þónokkur vindur var á daginn og minnti okkur á heimalandið nema mun hlýrra. Rándýrt var að borða og maturinn ekki góður.  Alltof mikill hótelstíll yfir þessu og vantaði alla ró og kyrrð.  Þetta er ekki staðurinn fyrir okkur.  Sami drengurinn sótti okkur svo á mánudeginum.  Var vinur hans með í för og hann var á öðrum bíl,  hinn hefur alveg gefist upp.  Á leiðinn heim voru krakkar búnir að loka veginum og í fyrstu höfðum við gaman af.  Krakkarnir útsjónasamir að næla sér í aur.  Nei, hátíðisdagur Shiva var og þetta hluti af hátíðarhöldunum.  Að lokum var þetta hálfþreytandi þegar búið var að stoppa okkur 15 sinnum.  Sumir krakkanna voru með bambusstangir yfir veginum og önnur snæri.  Sáum við hversu hættulegur leikur þetta var þar sem hindranir voru settar við beygjur og mótorhjólin komu þjótandi.  Urðum við líka vitni að því þegar rúta full af fólki, einhver garmur var að fikra sig upp fjallshlíðina og var næstum runnin aftur á bak.  En sem betur fer fór allt vel og við komum heim um miðjan dag.  Þá var bara að þjóta af stað í næsta ævintýri.

Pashupatinath

Um helgina var verið að halda uppá afmælisdag Shiva einn af guðunum í Hindúatrú.  Mikil hátíðarhöld stóðu yfir sem nefnast Maha Shivaratri og við vildum ekki missa af þeim.  Fórum því strax þangað er við komum úr fjöllunum.  Lentum á götu troðfulla af fólki og stóðum þar eins og ratar.  Eitthvað var í aðsigi en hvað ?  Lögregla á hestum hrakti fólk frá og við næstum troðnar undir.  Fréttum þá að allir væru að bíða eftir að forsetinn færi hjá.  Við vorum ekki tilbúnar að troðast undir í mannþrönginni fyrir forsetann og forðuðum okkur því burt.  En hvert áttum við að fara til að komast að hofinu?  Ekki hugmynd.  En viti menn heppnin er alltaf með okkur, tveir ungir menn komu aðvífandi og sögðust vera leiðsögumenn og tilbúnir að lóðsa okkur um svæðið.  Nei við ætluðum ekki að láta svokallaða leiðsögumenn ræna okkur eina ferðina enn.  Boðið hjá þeim reyndist þó það gott að við slógum til, 200 kall.  Leiddu þeir okkur í gegnum þvögu af mannfólki, undir bönd, í gegnum raðir sem höfðu myndast, baka til ef þess þurfti og rökræddu við lögreglu til að koma okkur á ákveðna staði.  Við sáum líkbrennslur, meinlætamenn í röðum og útúrdópað lið.  Á þessum eina degi er löglegt að reykja hass og fleira en lagði hassfýluna yfir allt.  Hittum stelpu frá Ísrael sem vissi sennilega ekki hvar hún var stödd í heiminum.  All virkaði ekki vel á okkur, mikill órói og eitthvað ógeðfellt.  Vorum því fegnar er við komum heim um kvöldið en hefðum þó ekki viljað samt missa af þessu.

Þriðjudagurinn fór í að rölta um stræti Ktm, kíkja í verslanir eina ferðina enn og eyða deginum.  Römbuðum við inní svokallaða "hljóðfæraverslun" hér í næsta húsi, rétt til að tékka á verðinu á lúðrum.  Verslunareigandinn vakti þá athygli okkar á syngjandi skálum.  Setti okkur á stóla og hélt svo mikilfenglega tónleika fyrir okkur.  Algjör snillingur.  Þvílík hljóð sem komnar úr einni skál.  Lét hann svo vatn í skálina, spilaði á hana þar til vatnið myndaði rigningu upp úr henni.  Heillaðar keyptum við CD disk af honum þar sem spilað er á skálar og Fríða P. ætlar örugglega að kaupa eina skál þó rándýr sé og fá kennslu á hana.

Næst var að fara í Boudhna stúpuna að fagna nýári Tíbeta 25. febrúar.  Við ætluðum að eyða öllum deginum þar.  Fórum um hádegi og röltum um í róglegheitum.  En hvað þetta virkar alltaf róandi á okkur og andrúmsloftið eitthvað svo gott og notalegt. Tókum við eftir því að kviknað hafði í húsi einu á svæðinu, sennilega um nóttina og fólk var að hreinsa út úr því.  Allt brunnið sem brunnið gat og fólkið alslaust á nýju ári.  Við óskuðum aðeins að enginn hefði slasast. Tíbetarnir voru í óðaönn að snyrta allt í kringum stúpuna og undirbúa nýárið.  Fólk gekk sönglandi kringum stúpuna hring eftir hring með logandi kerti.  Einhver hélt ræðu og þó við skildum ekkert þá var ræðan örugglega um frelsi Tíbets.  Svo um kvöldið var kveikt á kertum hér og þar og efsti pallur stúpunnar var upplýstur með kertaljósum.  Þó var ekki kveikt eins mikið á kertum þetta árið sennilega til að mótmæla yfirtöku kínverja í Tíbet.


Líf og tilvera með influensu

Sælir allir vinir góðir, það hefur ekki margt gerst spennandi hér í Ktm frá því við komum úr fjallaferðinni og þó.  Eins og ykkur er kunnugt af fyrri skrifum okkar erum við heillaðar af Boudha stúpunni.  Fyrsta dag mánaðarins fórum við þangað aðallega til að íhuga og reka út illa anda.  Fríða G tók daginn snemma og hálf datt inn í messu hjá tíbetskum munkum og hlustaði á þá kyrja, þeyta lúðra og slá drumbur. Svona upplifun hafði hana dreymt um síðan hún var barn sem varð loks að raunveruleika. Fékk leiðsögn kringum stúpuna, gefið talnaband og hvítur klútur sem munkarnir fá aðeins eftir athafnir.  Látum það ósagt hvort hún hafi vígst inní Boudha söfnuðinn.  Fríða P mætti seinna á svæðið og fékk einnig leiðsögn kringum stúpuna af Lama munk frá Gompa klaustrinu.  Það er með ólíkindum hvað þessir heilögu menn laðast að miðaldra jullum frá klakanum.  Kannski finnst þeim að okkur veiti ekki af leiðsögn til að komast nær Nirvana.  Ýmislegt var á döfinni í stúpunni m.a. munka- og djöfladans.  Þegar var komið yfir miðjan dag kom loks að því að illu andarnir yfirgáfu okkur.  Lamamunkar blessuðu fána sem við rituðum nöfn fjölskyldu og vina á.  Stráð var hrísgrjónum yfir okkur og fánana, heilögu vatni dreift yfir og lit, blómum og olíu makað á höfuð okkar.  Allt blessað í bak og fyrir og næst lá leiðin uppá stúpuna til að flagga fánunum.  Margra metra fánalína með tugi fána var dregin að húni eða þannig.  Munu fánarnir hanga á stúpunni í heilt ár, okkur og þeim sem fengu nöfn sín rituð til blessunar.  Munu augu Búdda vaka yfir okkur og þeim öllum. 

Lítið annað markvert hefur gerst síðan enda erum við búnar að vera allan mánuðinn með Nepalska inflúensu.  Kvef, hósta, hita og aðra óværu.  Það helsta sem við höfum farið er í apótekið til að kaupa hin ýmsu bætiefni og lyf við óværunni.  Ekki er kostnaðurinn mikill þrátt fyrir hin ýmsu lyf og púst sem eru rándýr heima.  Maður verður klumsa, vikuskammtur af sýklalyfjum kosta 80 rúbí eða um 120 kr og taflan af Parasetamóli kostar krónu.  Kannski ætti maður að fara í samkeppni við íslensku lyfjakeðjurnar.  Nú er komið fram í miðjan mánuð og við enn druslulegar, hóstandi og kokandi dag og nótt.  Ekkert farið að lítast á blikuna og þó er þetta kannski ekki svona slæmt þó slæmt sé.  Hindúa munkarnir elta okkur enn um stræti Ktm með blóm og blessun.  Við eigum stundum fjöri að launa að komast undan þeim og þeirra blessun.  Strætismunkarnir eru heimtufrekir og vilja fá vel greitt fyrir hverja blessun sem við erum farnar að efast um að gagni okkur.  Þetta eru kannski farandleikarar sem telja villuráfandi sauðum trú um að þeir öðlist betra og eilíft líf, fara svo heim til fjölskyldunnar og slá upp veislu.  Við erum orðnar svo veraldarvanar núna að við þurfum þeirra blessunar ekki lengur við.

Í fyrramálið ætlum við í lúxus reisu á Himalayas Shangri La.  Dýrðlegan stað í fjöllunum með himneskt útsýni og dekur.  Í þetta sinn erum við vissar hvað við erum að fara út í eða hvað ?  Allavega fáum við bíl sem keyrir okkur að dyrum lúxus hótels.  Þar bíða okkar vonandi ný ævintýri með vinkonum okkar henni Guðrúnu Önnu, Vigdísi og dætrum.


Fjallaferðin þriðji kafli

Þann 28. janúar kl. 11:30 var haldið af stað niður fjallið heim á leið.  Okkur var boðinn morgunverður en við höfðum litla lyst, borðuðum þó smá egg og drukkum kaffi.  Einhverjir bættust í för a.m.k. niður.  Mamma Hodras vinar okkar slóst í för með okkur 82ja ára gömul, lipur sem geit og þá var að standa sig.  Vinkona Miru rann á rassinn fljótlega í byrjun ferðar og sem betur fer var ekki snarbratti niður.  Allt fór vel og eins gott að passa sig.  Fríða G fékk í hnéð og ekki útlit fyrir góða niðurferð.  Það lagaðist þó eftir smá stund og hvert skref var tekið varlega.  Úpps, Míra kona Gauri datt, sneri sig á úlnlið og hágrét.  Sem betur fer fór betur en horfði, úlnliðurinn ekki illa tognaður en konan í sjokki enda snarbratt niður.  Eftir þetta fór Gauri að hafa miklar áhyggjur af okkur og fylgdi okkur eins og skugginn.  En við gömlu jullurnar spjöruðum okkur vel, næstum eins liðugar og sú gamla fikruðum við okkur niður fjallið.  Vorum þó ekki eins tignarlegar og sú gamla en stóðum okkur vel.  Gauri rann til og fékk slink á lærið.  Það átti ekki af þeim að ganga.

Þegar langt var liðið á gönguna niður undruðum við okkur á að við skildum hafa farið þessa leið upp.  Var þetta virkilega svona bratt.  Við höfum verið í allt öðrum heimi er við fórum upp, ekki von að sumir hefðu orðið móðir og svitinn runnið af okkur.  Þvílíkt þrekvirki að hafa komist upp hugsuðum við, trúðum þessu ekki alveg.  Jú þetta var uppleiðin okkar.  Þegar við vorum langt komnar niður fórum við aðeins aðra leið og gengum eftir mjóum stíg og snarbratt og klettar fyrir neðan.  Vinkona Miru grét af hræðslu og mamma Hodras leiddi hana og Fríðu G hálfpartinn og leiðbeindi þeim vel.  Fríða P sem vön er að vera mjög lofthrædd gekk þetta eins og gengið væri niður Laugaveginn, engin hræðsla og var í öðrum heimi.  Við vorum orðnar ansi lúnar og fór að taka í framanverð lærin er við loks komum að brúnni.  Nú var hún ekkert mál og vinkona Miru hékk aftan í buxnastrengnum á Fríðu P hágrátandi alla leið yfir brúnna.  Auðvitað varð maður að standa sig.

Er yfir brúna var komið var kl. 14 og Gauri og fjölskylda ætluðu aðeins að skreppa í næsta þorp að heimsækja vini sína.  Ekkert mál við myndum bara bíða við þjóðveginn róglegar á meðan.  Hodras og mamma hans biðu með okkur og klukkan leið.  Mikið var hún geðug og indæl sú gamla og reykti með okkur eins og strompur.  Hodras vappaði í kringum okkur og sá um að allt væri í lagi.  Góður maður og orðinn mikill vinur okkar.  Gerir allt fyrir okkur meira að segja bera töskurnar okkar.  Smástund er ansi lengi að líða og við alveg búnar á því.  Klukkan 16:30 komu þau loks og haldið var af stað eftir þjóðveginum til Ktm.  Stoppað var í þorpinu sem við snæddum í á leið til fjallsins.  Borðað þar brauð, drukkið svart te og okkur boðið að borða djúpsteiktan smáfisk úr ánni.  Fríða G var alveg lystarlaus en P aftur, meira fyrir kurteisissakir borðaði fiskinn.  Bragðaðist eins og djúpsteiktar sardínur.  Þá vitið þið það. 

Hossast var í bílnum ansi lengi og við ekki vissar á hverju við hefðum verið í upphafi ferðar allt virtist svo miklu lengra og brattara á bakaleiðinni.  Komið var við á einum stað þar sem mamma Hodras ætlaði að dvelja hjá systur sinni og nú var skollið á svarta myrkur.  Stoppið var ekki mjög langt en við vorum búnar að hossast eftir algjörum vegleysum, eins og vegurinn var norður á Strandir fyrir 30 árum.  Snúa þurfti svo við og er búið var að aka smá spöl var allt stopp.  Stór flutningabíll í veginum og verið að vigta og stafla kartöflum á hann og hvergi hægt að komast fram hjá.  Biðin var dágóð en þegar henni var lokið flaug 50 kg kartöflupoki uppá þak bílsins.  Svona gerast kaupin á eyrinni. 

Allt í einu fór Fríða P að skelli hlægja og allir litu skelfingaraugum á hana.  Nú er áfallið að koma.  Nei, nei henni birtist allt einu sú mynd af Fríðu G  klöngrast með flugfreyjutöskuna í eftirdragi og bjútíboxið í hinni hendinni.  Fríða P ætlaði aldrei að hætta að hlægja og allir voru farnir að hrína með þegar þeim var ljóst að aðeins um grín var að ræða.  Vissu þau þó aldrei um hvað það snerist en létti mjög er Fríða G sagði þeim að verið væri að gera grín að sér.  Hálf skakkar, lúnar og með harðsperrur í maganum komumst við loks heim og kl. orðin 21. 

Mikið væri gott að komast í heitt bað og skríða undir sæng.  Bað, bað, ekki væri maður ánægður heima með heita vatnið seytlandi og hálfa klukkustund tekur að botnfylla baðkarið.  Nei og sturta hvað er nú það ?  Kolsvartar frá toppi til táar skoluðum við af okkur mesta skítinn, ausandi yfir okkur með könnu, þvílíkur lúxus, já gott var það.  Þá er bara að koma fötunum í þvott á morgun og þvo skóna.  Annan eins skít höfum við varla séð en lifandi komust við úr þessari ferð og hrósum happi er litið er til baka.  Fríða G í losti er hún hugsaði til baka, við hefðum getað farið okkur að voða.  Eða við orðið eftir og Gauri farið með geitur að launum með sér niður.  Guð sé lof að konunni snerist hugur með giftinguna.  Vitum ekki enn hvaðan við fengum kraftinn til að hefja göngu þessa og hvaða Guðir vöktu yfir okkur á niðurleið.  En allt fór vel og við hefðum ekki getað hugsað þá hugsun til enda ef við hefðum ekki verið svona grænar á bak við eyrun og vitað hvað beið okkar í þessari ferð.  Upplifunin og sjá allt það sem fyrir augu bar hefðum við ekki viljað missa af.  Ef við hefðum gert okkur grein fyrir ferðartilhögun hefðum við runnið á rassinn áður en för hófst því við hefðum aldrei getað gert okkur í hugarlund upplifunina.  Enn og aftur er okkur orðavant, en í minningunni mun þetta geymast um aldur og ævi.

Eftirmáli:

Fríða P var vöknuð fremur snemma eða um kl. 08 en hin Fríðan svaf.  Svaf af sér morgunmatinn enda vitum við ekki hvernig henni tókst að ljúka þessari ferð með öll sín gigtarvandamál, lélegar mjaðmir og hné.  Fríða P mætt á þakið um kl. tíu í morgumat að vanda.  Létt í spori skokkaði hún uppá þak en leiðin niður reyndist erfiðari.  Miklir strengir framan í lærum og var kjagað niður stigann aftur.  Við áttum að mæta á Radison SAS hótelið kl 18 og borða þar fínar kræsingar með vinkonum okkar Gönnu, Vigdísi og dætrum.  Einnig ætluðu Siggi og Auðbjörg hjón sem hafa búið hér í eitt og hálft ár að snæða með okkur.  Gaman væri að hitta þau loks.  Skammt öfganna á milli en svona er lífið í Ktm.  Báðar að drepast úr harðsperrum lögðum við loks af stað.  Viti menn, um leið og við komum út, kom aðvífandi munkur með blóm og ýmislegt og blessaði okkur í bak og fyrir.  Óskaði okkur langlífis og góðri heilsu.  Þessir andans menn flykkjast að okkur eins og flugur að mykjuskán en moskítóflugurnar líta ekki við Fríðu P.  Kannski eru sterasprauturnar að virka, já sem betur fer.  Þá aftur að Radison hótelinu og fína matnum þar.  Fríða P stríddi hinni Fríðunni á því að sennilega fengjum við í magann af öllu gómsætinu.  Og viti menn það stóðst eins og í sögu, niðurgangur mikill hjá Fríðu G og ristilkrampar.  Þá er nú betra að borða heilnæmt fæðið í fjöllunum hvað sem aðrir myndu segja um hreinlætið.  Látum þá sögunni lokið um fjallaferðina því engin orð munu geta lýst upplifun okkar að fullu.

Næst munum við blogga um lífið og tilveruna hér í Ktm. og uppáhaldsstaðinn okkar stúpuna í Boudha.


Fjallaferð annar kafli

Það er mjög erfitt að lýsa fólkinu og hvernig við upplifðum það.  Ætlum við því að segja ykkur fyrst örlitið frá Gauri og fjölskyldum, þeim sem buðu okkur í fjallaferðina.

Gauri er eigandi íbúðarinnar sem við búum í hér í Ktm.  Hann er giftur Miru og eiga þau tvö börn.  Einnig á hann búð hér fyrir neðan sem selur útivistarfatnað og búnað ásamt því að eiga Thangka verslum.  En Thangka eru málaðar helgimyndir líkt og altaristöflur.  Hjá honum vinna svo fjölmörg ættmenni.  Einn frændi hans er góður vinur okkar en eitthvað hafa nöfnin á Nepölunum verið að vefjast fyrir okkur og hefur hann fengið fjölmörg nöfn s.s. Depok, Bandsja en heitir í raun Hodras.

Gauri var alinn upp við erfiðar aðstæður í fjöllunum, faðir hans dó er hann var 3 daga og fór hann 9 ára gamall til Indlands að vinna.  Vann erfiðisvinnu í 2 ár og gat nurlað saman fyrir smá landskika í fjöllunum þar sem við fórum.  Á hann systur þar, bróður sem missti konuna sína í fyrra og móðir sem er 79 ára ásamt fjölda annarra ættingja.

Megin tilgangur ferðarinnar var að við höldum að finna konu handa bróður hans svo mamman gæti komið til Ktm. og lifað betra lífi síðustu árin. Sem sagt þessi kona var með í förinni.  Var hún mjög fámál alla leið og leist greinilega ekkert á þessa för.  Stólaði þó mikið á okkur og leitaði eftir stuðning.  Oft á leiðinni upp héldum við að hún færi ekki lengra en hún fór alla leið greinilega með trega. 

Þegar að fyrstu húsunum við komum vorum við komnar á heimilið Hodras.  Þar var tekið vel á móti okkur.  Móðir hans indæl kona og eitthvað svo gott við hana.  Okkur var boðið vatn og te áður en lengra skildi haldi.  Þarna voru bara nokkur hús í þyrpingu og akrar á stöllum fyrir neðan.  Allir virkuðu vel á okkur börn sem fullorðnir. Þegar á toppinn var komið vorum við komnar á heimili annarra ættmenna Gauri.  Mamma hans var fremur bústin og virkaði sem algert hex.  Allt fólkið í þorpinu var mjög grannt og vant erfiðisvinnu.  Vinnandi á ökrunum allan daginn eða skokkandi niður og upp fjallið.  Greinilegt að Gauri var einhverskonar höfuðpaur og hans nánustu ef farið var í goggunarröðina.  Hann bersivirsinn hér.

Húsakynnin voru ca. 40 - 50 fermetrar og tvær hæðir.  Stutt var á milli húsa og milli þeirra var aðsetur dýranna.  Aðallega voru buffalóar og geitur bundin við staura nartandi í lauf og hænur og hanar flögruðu um.  Engir stólar né húsgögn voru sjáanleg og sat fólkið með krosslagðar fætur á veröndinni.  Einu húsgögnin sem við sáum var lítill skápur í herberginu okkar.  Fólkið þurfti að bera vatn úr einhverskonar lind sem var efst á toppinum.  Þar baðaði fólkið sig líka ef um bað skildi kalla.  Þvoði sér um andlit hendur og fætur upp úr ísköldu vatninu.  Hér hafði enginn menntun en sum barnanna voru svo heppin að fá að ganga í skóla uppá næsta fjalli.  Gengu þau meðfram fjallinu og á topp þess næsta og tók um 1 klst. fyrir þau að komast í skólann.  Fólk ræktaði allt sem það þurfti hér uppi.  Akrarnir voru  í stöllum niður með fjallinu og fólkið bar alla uppskeru upp.  Ræktað var kaffi, te, maís, hrísgrjón, grænmeti ofl. en ávextir uxu í trjánum við húsin.  Fábrotið líf í meiralagi sagt, enginn íburður né lúxus.  Maturinn eldaður við frumstæðar aðstæður yfir opnum eld og glóðum.  Konurnar sátu á hækjum sínum við eldhúsverkin og vatnið vel nýtt.  Maturinn fyrst þveginn og vatnið svo notað til annars, hugsum ekkert um það.  Salernisaðstaða engin fyrir utan einn kamar sem við höldum að fáir hafi notað nema við heldra fólkið.  Við vorum svo sem búnar að lýsa hýbýlunum í fyrra bloggi okkar þ.e. geitur fremstar í húsunum og eldunaraðstaða fyrir innan svo svefnaðstaða uppi.  Allir virtust þó una glaðir við sitt, mjög elskulegt fólk í alla staði og passaði vel uppá okkur fínu frúrnar.

Nepalskir karlmenn geta ekki verið konulausir, þurfa þær til að sjá um húsverkin.  Þá komum við aftur að konunni sem fór upp fjallið til að giftast bróðir Gauri.  Eitthvert vesen var með það og konan hvarf okkur sjónum er uppá fjallið kom.  Hún hafði neitað að giftast og það ekki gott mál.  Mamma Gauri var ekki ánægð með það því þá kæmist hún ekki til borgarinnar og grét hexið fögrum tárum yfir þessu.  Mikið var reynt að tala konuna til en ekkert gekk.  Stuttu eftir sólarupprás daginn eftir voru konurnar orðnar prúðbúnar og heldum við að þær ætluðu að biðjast fyrir og færa guðunum fórnir eins og tíðkast hér.  Nei viti menn upp úr þurru var gifting í aðsigi sí svona.  Tilvonandi hjón leidd að litlu musteri og þau pússuð saman.  Hún fékk nokkrar hálsfestir frá brúðgumanum, hann hring, blóm sett á höfuð þeirra og einhverju rauðu makað á enni þeirra.  Einhver yfirhalning átti sér stað og ég held að þeir sem gáfu þau saman voru ekki alveg viss hvernig ætti að gera þetta.  Að lokum urðu þau hjón og virtist hún bara ánægð með allt saman.  Vonum við að hún hafi ekki fengið bakþanka og líði vel í fjöllunum.  Bróðir Gauri virtist indælismaður og erum við vissar um að allt fólkið reynist henni vel.  Allavega vonum við það innilega.  Hængur var þó á gjöf  Njarðar, mamma Gauri gat ekki komið með niður af fjallinu því kenna þurfti nýju húsfrúnni á allt sístemmið.  Eftir 3 - 4 vikur fer sennilega Gauri aftur til að sækja mömmu sína og aldrei að vita nema við sláumst með í för að nýju.

Tvö börn eru munaðarlaus hér og hefur Gauri falast eftir því hvort sé ekki hægt að fá einhvern til að styrkja börnin þar sem allir hafa nóg með sitt.  Börnin eru systkini ca. átta og tíu ára.  Drengurinn tíu ára og heitir  Sonom en telpan átta ára og heitir Kovita.  Gott væri að vita hvort einhverjir væru ekki tilbúnir að leggja hönd á plóg og styrkja þau um skólagöngu og fæði annað þarfnast þau ekki.  Ekki er um stórar upphæðir að ræða kannski 3 - 4 þúsund rúpí á mánuði fyrir þau bæði.  Þetta eru mjög yndisleg og glaðvær börn og er mynd af þeim saman í albúminu okkar.

Ekki er hægt að setja í orð sú fegurð sem blasti við okkur á toppnum.  Undursamlegt útsýni og víðfeðmt.  Fagrir dalir langt fyrir neðan, stór á liðaðist um ( eða fljót ) og toppar Himalayja blasti við háir og tignarlegir.  Akrar niður með fjallshlíðinni og  niður fjöllin í kring.  Vorum við þess aðnjótandi að sjá sólina setjast bak við fjöllin há og koma upp með allri sinni dýrð yfir Himalaya.  Það má heldur ekki gleyma stjörnunum í allri sinni dýrð.  Birtist fyrst ein og hún var svo stór og skær að við vorum vissar um að hér væri ekki stjarna á ferð heldur gervitungl.  Verður þetta ekki með orðum lýst en vonumst við að myndir okkar færi ykkur eitthvað að fegurðinni.  Ekki tókst Camera gúrú betur til en að engar almennilegar myndir eru til að stjörnuglitinu því verr og miður.

Látum þetta gott heita í bili og bloggum um ferðina heim næst.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband