Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Síðasta bloggið frá Nepal

Nú er komið að heimför og verður þetta síðasta blogg okkar að þessu sinni héðan frá Nepal.  Við höfum verið fremur andlausar frá síðasta bloggi enda gífurlegur hiti hér og við næstum bensínlausar hér í Kathmandu.  Enda var landamærunum hér lokað í 11 til 12 daga og ekkert eldsneyti að fá.  Ýmislegt markvert hefur gerst og örugglega frá mörgu að segja en tíminn er takmarkaður því í dag höfum við verið að pakka niður og skiljum ekkert í því hvað mikið dót leynist hér og þar.

Við höfum farið a.m.k. tvisvar sinnum í Boudha stúpuna í apríl og að vanda verið blessaðar í bak og fyrir.  Drukkið heilagt vatn og það bætti heldur betur matarlystina hjá Fríðu P og klæðskerasaumuðu fötin að verða of lítil.  Við höfum eignast vini þar Búddamunka sem hafa heillast mjög af okkur og þá sérstaklega Fríðu G.  Hafa þeir stjanað við okkur, frætt og blessað okkur og svei mér þá ekki gift okkur líka að Búddiskum sið J  allavega sögðu þeir að við ættum einstakt dharma saman.  Indælir drengir sem hafa snert hjörtu tveggja miðaldra.

Við fórum í beuty saloon til að gera okkur fínar og til að taka upp heimildarmyndir.  Heilluðust snyrtidömurnar svo af Fríðu P, vildu taka mynd af henni til að hengja upp í snyrtistofunni.  Það eru nú ekki allir sem verða topp model á svip stundu.  Mikið er búið að hlægja af þessu og nú er hún kölluð Beuty Palma hér í Kathmandu, sem sagt orðin fræg, loksins kom að því.

Fríða P fékk það hlutverk að skipuleggja fer og um síðustu helgi fórum við í fjallaferð með G.Önnu, Snjólaugu, Sigga, Auðbjörgu, Agli og Önnu Siggu.  Átta stk. af íslendingum var troðið í Landcruser og hossast var af stað.  40 km vegalengd tók okkur 3 tíma, reyndar fór ca. ½ klst forgörðum þar sem bílstjórinn rataði ekki og við kunnum ekki við að skipta okkur af.  Á endanum lóðsuðum við hann á áfangastað.  Vegurinn var að megninu til vegaslóði og áður en á áfangastað var komið leist kvenpeningnum ekki á og vildi fremur ganga en keyra.  Á því augnabliki missti Fríða P alla vini sína í einum vettvang og varð að ganga langt á eftir hópnum á leiðarenda.  Þegar loks var komið á áfangastað var Fríðu P fyrirgefið því staðurinn var æðislegur og útsýnið með eindæmum.  Áttum við frábærar stundir saman, mikið var hlegið og grínast, einnig farið í göngutúra.  Við fríðurnar urðum eftir og gistum eina nótt í viðbót og sátum einar að bílnum á heimleiðinni.  Reyndar fékk hótelstjórinn far með okkur til Kathmandu og fór með okkur í smá sightseen.  Í litlum bæ á heimleiðinni var stoppað og við skoðuðum bæinn og musteri.  Vildi svo vel til að akkúrat þennan dag voru ungar stúlkur að ganga í helgidóm.  Á aldrinum 6 - 11 ára eru allar stúlkur giftar guðunum og afstaða tunglanna verður að vera sérstök þegar þessi athöfn fer fram.  Þær eru lokaðar inn í 12 daga, mega ekki sjá sólina né karlmenn.  Og viti menn það er eins og annað hér í Nepal allt kemur óvænt uppí hendurnar á okkur og við urðum vitni að þessum sérstaka atburði.  Mjög skemmtileg helgi með frábæru fólki sem mun seint gleymast.

Við komum heim á mánudaginn og hittum svo Sigga, Auðbjörgu og krakkana um kvöldið.  Þau buðu okkur í mat á frábærum veitingastað, besti matur sem við höfum fengið og yndisleg kvöldstund.  Munum við sakna þeirra mikið og stefnum að því að heimsækja þau á næsta ári hvar í veröldinni sem það verður nú. Skemmtileg og heillandi hjón í alla staði.

Fríða P ákvað að fara í klippingu hér fyrir heimferðina og Hodras vinur okkar lóðsaði hana til rakarans og yfirgaf hana síðan.  Viltu hafa það stutt spurði rakarinn.  Nei en þú mátt þynna það.  Svo byrjaði hann fimlega að klippa.  Á meðan dönsuðu kakkalakkarnir á borðinu fyrir framan.  Nepölsk, já í húð og hár og kippti sér ekkert upp við þetta.  Jæja hárið fauk af, næstum krúnurökuð en það vex.  Næst setti hann eitthvað hvítt í lófa sinn og ætlaði að maka því í andlitið.  Nei, ætlar hann virkilega að raka mig?  Í svona sekúndubrot fór virkileg um hana.  No chemicals sagði hann loks, skellti þessu í andlitið og nuddaði og nuddaði.  Húðhreinsun á rakarastofu og ekki nóg með það heldur skellti hann maskara í fésið, lagi kodda á borðið, hausinn þar á (hjá kakkalökkunum) og svo byrjaði handar-, bak- og herðanudd.  Dásamlegt líf nema þetta var ekki nepalíprís.

Í gær komu svo tíbetsku vinir okkar spes ferð frá Pokhara til að elda handa okkur og kveðja.  Engin lýsingarorð eru nógu góð til að lýsa þessum dásamlegu hjónum, þau eru einstök og munu ætíð eiga stóran sess í hjörtu okkar.  Maturinn tíbetskur og einstaklega góður.  Við áttum mjög góðar stundir með þeim, færðu okkur gjafir, tíbetskt te, stampa og margt fleira.  Í fyrramálið ætla þau að fylgja okkur út á flugvöll og sú kveðjustund verður erfið eins og aðrar.

Okkur var farið að hlakka mjög til að koma heim en við finnum fyrir miklum trega að yfirgefa Nepal og erum hálfklökkar.  Ferðin hefur verið frábær í alla staði og við hefðum ekkert vilja hafa neitt öðruvísi en það var.  Ógleymanlegur tími og vonandi mun við hafa tækifæri til að koma aftur.


Everest flug

Við ætluðum að vera farnar í fjallaferð til Jomosom sem er lítið fjallaþorp í Annapurna fjallahringnum miðjum.  Veður gerast válind meira að segja hér í Nepal.  Höfum við frestað ferðinni þar sem rok, rigning og thunderstorm hefur verið á þessu svæði og ekkert gaman þegar maður getur ekki notið fallegrar fjallasýnar.  Því fórum við á sunnudaginn sl. í útsýnisflug yfir Himalaya fjöllin hér suðaustur af Kathmandu.  Við þurftum að vakna kl. 04 og vera mættar fyrir utan ferðaskrifstofuna kl. 05:30.  Á næturnar er höfuðborgin hér gjör ólík því sem er að degi til. Járnhlerar fyrir öllum búðum, dauðar rottur hér og þar. Og engar götulýsingar. Lentum í smá basli með bíl en leigubíll á vegum ferðaskrifstofunnar átti að sækja okkur.  Á réttum tíma stoppaði bíll og við vorum að reyna að spyrja þá hvort þeir væru þeir réttu en við værum að fara í Everest flug.  Þeir kinkuðu kolli og þegar á völlinn var komið kom í ljós að þetta var bara venjulegur leigubíll og við þurftum að greiða fyrir farið sem átti að vera frítt.  Við þurfum greinilega að læra Nepalí-tungumálið.  Við vorum mjög lánsamar að skyggnið var frábært og flugið tók um klukkustund.  Flugvellirnir hér eru kapítuli út af fyrir sig.  Mikil öryggisgæsla, allur búnaður skannaður og leitað á farþegum þrisvar sinnum.  Lítið gaf til kynna hvert maður átti að fara og hvenær vélin færi.  Jú, einhver manneskja æddi um og hrópaði áfangastað, Lukla ?  Nei og löngu seinna var ætt um aftur, Everest 302, var hrópað, nei svo kom það loks Everest 304.  Já loks var komið að því.  Vélin var lítil með 10 sætaröðum, við aftastar og vélin tókst á loft.  Eftir smá stund blöstu Himalaya fjöllin við, margir af hæðstu tindum veraldar, vá þvílík sjón og auðvita hæsti tindur heims Mt. Everest.  Meira að segja sáum við Tíbet í fjarska og var það góð tilfinning fyrir Fríðu G. en nær Tíbet kemst hún ekki, að þessu sinni.  Reynt var að mynda í gríð og erg, þetta þurfum við að sýna.  Það er ekki hægt að lýsa sumum hlutum, maður verður að upplifa þá.

Um daginn útskrifaðist litla vinkona okkar hún Snjólaug úr Mother Care skólanum.  Athöfnin var mjög skemmtileg og sagðar smá sögur af öllum sem útskrifuðust.  Snjólaug er mikið fyrir útiveru og leik og hefur beðið um að fá að vera fimm mínútum lengur í frímínútum á hverjum degi og næstum alltaf hafa kennarar hennar orðið við þeirri bón.  Útskriftarnemendur vorum með svarta hatta svipaða og þegar útskrifast er úr Bandarískum háskólum og Snjólaug glæsileg með hann í fallega kjólnum sínum.

Við söknuðum sárt Vigdísar og Ingibjargar og er stórt skarð höggvið í íslendingahópinn hér í Kathmandu. Gleðjumst þó mjög yfir hvað heimferð þeirra gekk vel.

Hlýnað hefur mjög hér og stundum erum við hálf lamaðar á ráfi um borgina, sem betur fer erum við öllum hnútum kunnugar nú og fátt kemur okkur úr jafnvægi.  Mengunin er þó stundum þreytandi og umferðin mikil og þung. Við þurftum að framlengja dvalarleyfið okkar og gekk það snurðulaust fyrir sig en gjaldið var búið að tvöfaldast.  En á leiðinni með leigubíl, í umferðarhnút, spúðu bílar og mótorhjól svörtu sóti yfir okkur.  Við verðum að komast úr borginni þó það sé ekki nema einn dagur og í dag fórum við í bíltúr.  Við Fríðurnar og Guðrún Anna fórum til Changu Narayan musterisins hér þó nokkuð fyrir utan Katmandu.  Mikið var gott að komast í kyrrð, ró og betra loft.  Í bakaleiðinni stoppuðum við í Bhaktapur og röltum um gamla bæinn þar.  Það var mjög gaman, en heldur heitt fyrir okkur Frónbúa.

Við fylgjumst nú grannt með veðurspánni og hlökkum mikið til að fara til Jomosom og bæst hefur í þann ferðahóp þar sem Auðbjörg og börn ætla með okkur ásamt Guðrúnu Önnu og Snjólaugu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband