Færsluflokkur: Ferðalög
Rafmagnsleysi enn að há blogginu okkar og þá sérstaklega að hlaða inn myndum. Verðum að sæta lagi þar sem rafmagn hefur verið síðustu daga á óhentugum tíma. Höfum við þurft að sitja við tölvuna í rúma tvo tíma til að koma örfáum myndum inn, svona er hraðinn í Ktm. Annars er allt gott að frétta og nóg að gera við að skoða trúarmenninguna hér og lífið.
Fórum í leiðangur um daginn á torg eitt ( Durban ) þar sem fullt er af hofum og stúpum. Heldum að þar gætum við setið í róglegheitum og sogið í okkur góða anda. Þegar á daginn kom var bara kraðak, læti og allskonar fólk sogaðist að okkur túristunum í von um aur. Hittum við þó indælan Gúru sem brosti breitt til okkar. Við vorum í skýjunum að svo merkilegur maður sýndi okkur áhuga. Tókum nokkrar myndir og styrktum hann um 500 kall. Eftir tvo tíma á vafri hittum við hann aftur og umvafði hann okkur þá með ánægjuglampa í augunum.
Við erum nú loksins búnar að finna okkar stað hér í Ktm. þ.e. Doupha stúpuna og erum búnar að fara þangað tvisvar sinnum. Stærsta Stúpan hér í Ktm. með 108 om mane pathne hum hjólum í kring. Dýrðlegur staður, friður, ró og enginn sem truflar mann nema á góðan hátt. Þar komu Tíbetarnir til að þakka fyrir vel heppnaða fer yfir Himalayafjöllin og biðja fyrir góðri heimför. Margir Tíbetar búa þar nú, fólk sem flúði yfir fjöllin fyrir sextíu árum og er eins klætt nema skóbúnaðurinn er ýfið betri hjá sumum þeirra. Það er eins og detta inní ævagamla menningu. Fólk gengur hring eftir hring í hugleyðslu og bæn. Þvílík upplifun og við erum komnar heim. Það eru engin orð til að lýsa upplifun okkar hér á þessum stað.
Í gær fórum við í annað sinn í sérstökum tilgangi og til að upplifa aftur. Keyptum þessi fínu talnabönd úr jakuxabeini, já það þýðir ekkert að vafra um allslaus. Við vorum hæstánægðar með kaupin, dingluðum þeim í annarri hendinni og vorum með rettu í hinni. Munkur einn sem gekk hjá benti okkur þó á að aðfarir okkar væru ekki réttar. Við náðum hintinu. Litlu seinna gaf munkurinn sig á tal við okkur og bauð okkur að skoða skólann sinn sem við og gerðum. Blessaði hann talnaböndin okkar til að opna augu Búdda því annars eru þau gagnslaus. Þetta var mjög ánægjuleg uppákoma og héldum við hamingjusamar á braut með talnaböndin um hálsinn og enga rettu.
Næst héldum við af stað í klaustur hér í hlíðum Ktm. Kopan. Þaðan var fagurt útsýni yfir hluta af borginni. Klaustrið er umlukið fallegum garði og munkar af öllum aldri að koma úr kennslustund. Þar er hægt að fara á námskeið í Búddiskum fræðum en í þetta sinn létum við nægja að viða að okkur bókmenntum og íhugunarefni.
Höfum við verið í sæluvímu með allt hér og hvergi fundið okkur mein fyrr en við vöknuðum í gær. Stirðar og skakkar, já rúmið er farið að taka verulega í skrokkinn. Við bara reddum því og höldum í dýnuleiðangur hugsuðum við. En viti menn þessi yndislega fjölskylda sem við búum hjá hugsar um sitt fólk. Er við bárum raunir okkar upp við Depok ( frænda Gauri en hann eldar alltaf fyrir okkur morgunmatinn ) sagðist hann fara fyrir okkur og kaupa dýnu, gæti fengið hana á betri prís en við túristarnir. Er við komum svo heim í gærkveldi var ekki þessi frábæra dýna komin og við vöknuðum liðugar og fínar í dag.
Ferðalög | 23.1.2009 | 04:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Enn er rafmagn af skornum skammti þrátt fyrir mótmælagöngur á götunum. Sökum rafmagnsskorts gengur hægt að blogga, nettenging hægfara og erfitt að setja inn myndir. Höfum við vafrað um göturnar í nokkra daga, verið rændar eða þannig. Erum rétt að átta okkur á verðlaginu og höfum borgað himinháar upphæðir fyrir smávægilega hluti, já hreinlega rændar. Ganna sem er næstum Nepalbúi hlær dátt að einfeldni okkar.
Símtalið sem við fengum um daginn var frá nágrönnum okkar Gönnu og Vigdísi. Annað kvöldið okkar hér á fjarlægum slóðum, já hrikaleg raun fyrir vinkonur okkar. Kviknaði í gasofni á miðju stofugólfi hjá þeim og stóð allt í björtum logum. Mikil mildi að ekkert stór slys varð, húsið hefði getað sprungið í loft upp. Erum við enn að þakka himinguðunum hversu vel allt fór. Það kviknar víst í annarsstaðar en á Íslandi.
Erum við í góðu yfirlæti hér hjá góðu fólki Gauri og fjölskyldu. Vorum við rétt í þessu að koma úr matarboði hjá þeim. Yndislegt fólk og góður matur. Gauri er búinn að bjóða okkur í ferð á sínar heimaslóðir hér uppí fjöllunum. Þar er mikil fátækt og enn kaldara en hér í Ktm. Ætlum við að sofa eina nótt og okkur skilst að við verðum í svefnpokum þannig að það er best að hafa öll ullarlögin með sér. Þurfum við að ganga í 4 tíma til að komast á áfangastað. Við vitum ekkert hvað við erum að fara út í en vonandi komust við lífs af.
Ekki má gleyma að segja ykkur frá því að við höfum styrkt 4 ára strák hérna og ömmu hans sem er um 73 ára gömul. Drengurinn heitir Kopila og amma hans Dhana. Hurfu foreldrar drengsins og enginn veit um afdrif þeirra. Talið er að Maóistarnir hafi átt þar hlut að máli. Amman hefur stundum fengið smá viðvik við uppvask endrum og eins og er orðin veikburða. Höfum við tekið það að okkur að sjá þeim fyrir mat, klæði og húsnæði ásamt skólagöngu Kopila um ókomin ár.
Höfum við verið að skoða möguleika á ferð til Tíbet og margt fleira. Vitum ekki hvernig við eigum að komast yfir allt það sem við þurfum að sjá þannig að sennilega komum við ekkert heim. Allir virðast una glaðir við sitt, brosa, bjóða okkur í mat jafnvel skartgripasali sem við heimsóttum í dag.
Reynum að setja inn myndir áður en rafmagnið fer og sultardroparnir fara að renna úr nösum okkar enn á ný.
Ferðalög | 17.1.2009 | 16:33 (breytt kl. 18:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þá er ævintýrið hafið. Við fríðurnar erum loks komnar á draumastaðinn Kathmandu í Nepal. Flugferðin var styttri en við áætluðum eða tók rúmlega sólarhring með níu tíma stoppi í London og 3 tíma í Dehlí.
Þegar Fríða G. fór í gegnum hliðið á Heathrow pípti allt, hún afklædd á staðnum og skoðuð í krók og kima enda hryðjuverkamaður frá Íslandi á ferð. Kófsveittri var henni hleypt í gegn enda stóð ekki til að við dveldum í óvinalandi.
Er við nálguðumst Nepal blasti við fögur sjón, Himalaya fjöllin í allri sinni dýrð, stór, fögur og snævi þaktir topparnir. Stórt og magnþrungið útsýni sem við eigum eftir að njóta oftar á ævintýraför okkar. Auðveldlega gekk að fá áritun inní landið bara smá biðröð og 200 $ farnir fyrir 3ja mánaða vísa. Þá er bara að gleyma ekki framlengingu þann 9. apríl.
Ævintýrið hafið, já svo sannarlega. Mannmergð, hrörleg hús, betlarar og við tölum ekki um umferðarmenninguna. Allt í kraðaki, bílar, mótorhjól, hjól og allskyns farartæki. Ótrúlegustu bílstjórar og ef við sáum rétt var geit á hjóli. Ekki höfðum við farið langt er bíll rann inní hliðina á okkur í einni brekkunni en engan sakaði. Sumir ferðafélaganna voru í léttu menningarsjokki og vonandi jafna þeir sig með tímanum.
Gistum við á gistiheimilinu hans Arjon fyrstu nóttina í góðu yfirlæti.
Hrikalega er kalt hér í Nepal, kuldinn nístir langt inní bein, já sko langt. Fríða G. var ósofin og þreytt er haldið var til náða fyrsta kvöldið. Þá kom sér vel að hafa allan þann kuldafatnað sem við áttum heima og tókum með. Fatnaður fyrir nóttina til að lifa af var, ullarbrók, náttbuxur, ullarbolur, ullarpeysa, flíspeysa, sokkar, ullarsokkar, trefill, húfa og vettlinga (Takk mamma Unnur fyrir húfuna góðu, grifflurnar og ullarsokkana og Hrund takk fyrir ullarnærfötin og skinnskóna). Þrátt fyrir þetta láku sultardroparnir úr nefjum ferðalanga. Vöknuðum við snemma næsta morgun til að komast í varanlegt húsnæði. Heimsóttum við ferðafélagana Guðrúnu Önnu, Vigdísi og dætur en þær höfðu lítið sem ekkert sofið um nóttina sökum kulda, ofþreytu og fjörugra barna. Síðan var farið að leita að húsnæði. Ákveðið var að byrja að leita í Thamel sem er í centralinu hér í Ktm. Fundum við frábæra íbúð, nýuppgerða og þá var bara að semja um verðið, himinhátt verð blasti við. Samningar hófust þar sem við vorum heillaðar af húsnæðinu og staðsetningu þess. Reiknað var út verð á rafmagni sem er skammtað mjög nú í Ktm. og mjög dýrt, gasi, húshjálp, security osfrv. Samningar náðust að lokum og mikið prúttað. Allt greitt fyrirfram sem skipti okkur engu þar sem gott var að losnað við þessa rándýru kreppu dollara. Nú eigum við öruggt skjól allan tímann sem við dveljum hér. Glæsilega íbúð með baði og eldhúsi, lítil en kósý og flott. Búum á sjöundu hæð og í sjöunda himni yfir því. Stórar svalir til afnota tveimur hæðum ofar og frábær fjallasýn. Flutt var inn og götulífið skoðað. Stórhættulegt er að ganga á mjóum öngstrætum Ktm, bílar, hjól, betlarar og þar af verra. Eins gott að passa líf, limi og budduna hér.
Um kvöldið hringdi svo síminn hjá okkur, já lúxus hvað annað, ferðafélagar okkar voru á línunni með fréttir sem við skrifum um síðar. Í kjölfarið fluttu þær í sama hús og við búum og erum við allar í góðu yfirlæti hjá Gauri Nepalanum okkar.
Sunnudagurinn fór í ýmsar reddingar en í dag nýttum við tímann vel. Fengum leiðsögn um hluta borgarinnar og uppfræddumst heilmikið um trúmál, Nepölsk hof (Pagoda), Indversk hof (Shiuhara ) og Tíberskar stúpur.
Erum við að venjast aðstæðum hér vel. Rafmagn er af skornum skammti aðeins 8 tíma á dag og í hverfinu okkar þegar við sofum eða erum úti. Monsún rigningarnar eyðilögðu 3 stíflur í fyrra og því er rafmagn af skornum skammti. Í dag er rökkva tók vorum við mjög auðmjúkar og sögðum væri það ekki næs ef við hefðum eitt ljós í myrkrinu til að geta lesið svolítið. Í bað komumst við ekki fyrr en í gær og nutum þess í botn, annars hefðum við alveg lifað af nokkra daga í viðbót. Rusl í haugum á götunum enda verkamenn í straffi en hinar heilögu kýr una hag sínum vel á haugunum.
Erum í sæluvímu yfir öllu og höfum nóg að sýsla.
Ferðalög | 12.1.2009 | 15:46 (breytt kl. 16:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ferðalög | 5.1.2009 | 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ferðalög | 2.1.2009 | 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ferðaundirbúningurinn er kominn vel á skrið. Það er margt sem þarf að huga að og gera klárt fyrir brottförina. Náttúrulega setti kreppan sitt mark á gjaldeyrismálin hjá okkur en við höfum reddað því og erum því í ágætum málum. Bólusetningarnar eru orðnar allmargar og því tíðar ferðir á Heilsugæsluna. Einn meðlimur félagsins helltist úr lestinni, aðrir eru komnir með flugmiðana og förum við allar (að sjálfsögðu standa konurnar sína plikt) með sama flugi þann áttunda janúar. Að komast til Khatmandú tekur um einn og hálfan til tvo sólarhringa . Má búast við að svona miðaldra júllur þurfi að jafna sig þegar á staðinn er komið.
Nú fara jólin að koma og er jólaskapið að kikka inn í rólegheitum.
Ferðalög | 16.12.2008 | 18:13 (breytt 19.12.2008 kl. 16:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar