Þá er ævintýrið hafið

Þá er ævintýrið hafið.  Við fríðurnar erum loks komnar á draumastaðinn Kathmandu í Nepal.  Flugferðin var styttri en við áætluðum eða tók rúmlega sólarhring með níu tíma stoppi í London og 3 tíma í Dehlí.

Þegar Fríða G. fór í gegnum hliðið á Heathrow pípti allt, hún afklædd á staðnum og skoðuð í krók og kima enda hryðjuverkamaður frá Íslandi á ferð.  Kófsveittri var henni hleypt í gegn enda stóð ekki til að við dveldum í óvinalandi.

Er við nálguðumst Nepal blasti við fögur sjón, Himalaya fjöllin í allri sinni dýrð, stór, fögur og snævi þaktir topparnir.  Stórt og magnþrungið útsýni sem við eigum eftir að njóta oftar á ævintýraför okkar. Auðveldlega gekk að fá áritun inní landið bara smá biðröð og 200 $ farnir fyrir 3ja mánaða vísa. Þá er bara að gleyma ekki framlengingu þann 9. apríl.

Ævintýrið hafið, já svo sannarlega.  Mannmergð, hrörleg hús, betlarar og við tölum ekki um umferðarmenninguna.  Allt í kraðaki, bílar, mótorhjól, hjól og allskyns farartæki.  Ótrúlegustu bílstjórar og ef við sáum rétt var geit á hjóli.  Ekki höfðum við farið langt er bíll rann inní hliðina á okkur í einni brekkunni en engan sakaði.  Sumir ferðafélaganna voru í léttu menningarsjokki og vonandi jafna þeir sig með tímanum.

Gistum við á gistiheimilinu hans Arjon fyrstu nóttina í góðu yfirlæti.

Hrikalega er kalt hér í Nepal, kuldinn nístir langt inní bein, já sko langt.  Fríða G. var ósofin og þreytt er haldið var til náða fyrsta kvöldið.  Þá kom sér vel að hafa allan þann kuldafatnað sem við áttum heima og tókum með.  Fatnaður fyrir nóttina til að lifa af var, ullarbrók, náttbuxur, ullarbolur, ullarpeysa, flíspeysa, sokkar, ullarsokkar, trefill, húfa og vettlinga (Takk mamma Unnur fyrir húfuna góðu, grifflurnar og ullarsokkana og Hrund takk fyrir ullarnærfötin og skinnskóna).  Þrátt fyrir þetta láku sultardroparnir úr nefjum ferðalanga. Vöknuðum við snemma næsta morgun til að komast í varanlegt húsnæði.  Heimsóttum við ferðafélagana Guðrúnu Önnu, Vigdísi og dætur en þær höfðu lítið sem ekkert sofið um nóttina sökum kulda, ofþreytu og fjörugra barna.  Síðan var farið að leita að húsnæði.  Ákveðið var að byrja að leita í Thamel sem er í centralinu hér í Ktm.  Fundum við frábæra íbúð, nýuppgerða og þá var bara að semja um verðið, himinhátt verð blasti við.  Samningar hófust þar sem við vorum heillaðar af húsnæðinu og staðsetningu þess.  Reiknað var út verð á rafmagni sem er skammtað mjög nú í Ktm. og  mjög dýrt, gasi, húshjálp, security osfrv.  Samningar náðust að lokum og mikið prúttað.  Allt greitt fyrirfram sem skipti okkur engu þar sem gott var að losnað við þessa rándýru kreppu dollara.  Nú eigum við öruggt skjól allan tímann sem við dveljum hér. Glæsilega íbúð með baði og eldhúsi, lítil en kósý og flott. Búum á sjöundu hæð og í sjöunda himni yfir því.  Stórar svalir til afnota tveimur hæðum ofar og frábær fjallasýn. Flutt var inn og götulífið skoðað. Stórhættulegt er að ganga á mjóum öngstrætum Ktm, bílar, hjól, betlarar og þar af verra.  Eins gott að passa líf, limi og budduna hér.

Um kvöldið hringdi svo síminn hjá okkur, já lúxus hvað annað, ferðafélagar okkar voru á línunni með fréttir sem við skrifum um síðar.  Í kjölfarið fluttu þær í sama hús og við búum og erum við allar í góðu yfirlæti hjá Gauri Nepalanum okkar.

Sunnudagurinn fór í ýmsar reddingar en í dag nýttum við tímann vel.  Fengum leiðsögn um hluta borgarinnar og uppfræddumst heilmikið um trúmál, Nepölsk hof  (Pagoda), Indversk hof  (Shiuhara ) og Tíberskar stúpur.

Erum við að venjast aðstæðum hér vel.  Rafmagn er af skornum skammti aðeins 8 tíma á dag og í hverfinu okkar þegar við sofum eða erum úti. Monsún rigningarnar eyðilögðu 3 stíflur í fyrra og því er rafmagn af skornum skammti.  Í dag er rökkva tók vorum við mjög auðmjúkar og sögðum væri það ekki næs ef við hefðum eitt ljós í myrkrinu til að geta lesið svolítið. Í bað komumst við ekki fyrr en í gær og nutum þess í botn, annars hefðum við alveg lifað af nokkra daga í viðbót.  Rusl í haugum á götunum enda verkamenn í straffi en hinar heilögu kýr una hag sínum vel á haugunum.

Erum í sæluvímu yfir öllu og höfum nóg að sýsla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælar og gleðilegt nýtt ár!

Frábært hjá ykkur að drífa ykkur í ævintýraferðalag, burt frá böl... kreppuni hér heima. Gangi ykkur vel og njótið   Hlakka til að fylgjast með ykkur.

Kveðja, Auður frænka

Auður Hjaltadótti (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 16:09

2 identicon

Kæru nágrannar.  Þið eruð alveg að standa ykkur í blogginu... þurfum að fara bæta okkur hér á neðri hæðinni:-))

Flottar myndir. 

Guðrún, Vigdís og kraftmiklu börnin.

P.s Vigdís spyr hvort þið eigið auka ullarbrækur..bbbbbrrrrrrrrrr

Sjáumst í morgunmatnum á þakinu í fyrramálið.  Ef við verðum vaknaðar fyrir hádegi.. humm

Guðrún Anna (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 16:48

3 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Þetta hljómar náttúrulega þvílíkt ævintýralega! En Fríða, píp og alskoðun?! OMG!

Það er þvílíkt dýrmætt að sitja hér í hitanum og ferðast með ykkur í huganum. Þið eruð svo sannarlega að safna efni í spennandi bók hint hint. Takk kærlega fyrir myndir og sögur.

Knús og kveðjur til ykkar beggja

Ragnhildur Jónsdóttir, 12.1.2009 kl. 19:08

4 identicon

Amma ég ætla að koma út til ykkar. Ég vil sjá mynd af ömmu Fríðu í Nepal. Ég ætla í hellinn hans Étann og taka mynd af honum.

(mamma er ritari og skrifar orðrétt upp eftir honum þegar hann var spurður hvað hann vildi segja við ömmu og Systu!)

Friðrik (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 20:17

5 identicon

Bara að kvitta fyrir mig, þetta er ótrúleg lesning Fríða mín njótið í botn !! Kv Elín

Elín Íris (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 09:59

6 identicon

Æðislegt að fá að fylgjast með ykkur hér, gangi ykkur allt í haginn. kv, Sigrún

Sigrun Bjorg (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 11:29

7 identicon

Frábært að geta fylgst með ferðalaginu - njótið!!!

Ása Ólafs. (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 21:50

8 identicon

Sælar konur. Skemmtileg lesning og mikið verður gaman að geta fylgst með ykkur á þessu ferðalagi. Gangi ykkur allt í haginn og góða skemmtun ; )

Sólrún (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 08:42

9 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Frábært hjá ykkur skvísur, fylgist hér með ykkar ævintýrum   Bestu kveður til þín Fríða Pálma frá mömmu (Maggý)  Hvammstanga. Lofa henni að fylgjast líka með því hún er ekki nettengd, kann ekkert á slík tæki he he.

Erna Friðriksdóttir, 18.1.2009 kl. 05:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband