Þann 27 janúar héldum við í fjölskylduferð með Gauri og ættmönnum hans á æskustöðvar hans. Það eina sem við vissum að þetta væri í fjöllunum og ganga þyrfti einhvern spöl. Um kvöldið þegar pakkað var niður kom í ljós að aðeins einn lítill bakpoki var til. Fríða G sagði það ekkert mál hún færi bara með flugfreyjutöskuna sína, fékkst þó ofan af því og tók hliðartöskuna sína.
Þegar ferðin hófst kl. 08 var fjórtán manns hlaðið í bílinn og haldið á vit ævintýra. Þetta yrði ekkert mál, Gauri á lakkskónum, konan hans á ladyinniskóm og aðrir á strandskóm. Við vel skóaðar í þessum fínu íþróttaskóm með ullarfötin meðferðis. Keyrt var í um 4 tíma með stoppi og borðað Dalbat ( Nepalski þjóðarrétturinn ). Loks var komið á áfangastað eða þannig og það fyrsta sem blasti við var hengibrú yfir fljót. Þar lágum við í því að drepast úr lofthræðslu fikruðum við okkur yfir brúna og héldum að það versta væri búið. Næst tóku geitarstígarnir við fremur létt ganga og komið var á fyrsta áningastað í dal einum með iðandi lækjarsprænu. Ekkert mál dálítið sveittar en bara létt. Létt hver sagði það ? Nú var alvara lífsins tekin við, snarbrattir geitastígar og næstum beint upp. Þetta fer alveg að koma smá brekka eftir hugsuðum við á næsta áningastað, búnar að ganga í 2 tíma. Þau sögðu að þetta væri tveggja tíma ganga var það ekki ? Nei enn gengum við upp brattann á næsta áningastað klukkustund síðar. Sumir voru orðnir ansi móðir og hjartað barðist. Ekkert skrýtið með mörg kíló af myndavélagræjum með í för. Töskurnar teknar af okkur næstum með valdi því svo þrjóskar vorum við orðnar, við skildum hafa þetta enda ekki nema smá spotti eftir.
Eftir klukkustund í viðbót, já fjórir tímar, héldum að loks værum við komnar því lítil hús blöstu við. Heimili Batjú vinar okkar. Þetta var þá síðasti hvíldarstoppið og enn skildi haldið á brattann eftir duglega drykkju og góðar móttökur heimilismanna. Enn brattara síðasta spölinn og torffærara. Eftir fjóra og hálfan tíma, jibbí við höfðum það og það lifandi.
Við okkur blasti lítil hús, geitur, buffalóar, hundar, gargandi hænur og hanar og fólkið starði á þessar furðuverur sem komu lafmóðar og rennsveittar. Furðuverur, hvítar, já hvítar ekki fölar því við vorum kafrjóðar, stuttkipptar og í forundran hópuðust börnin að okkur. Við vorum í einhverskonar vímu yfir allri dýrðinni sem blasti við. Útsýnið ægifagurt, fórum við virkilega svona hátt ? Áður en við vissum af var hani tekinn kverkataki og hausinn höggvinn af. Veislu átti að halda og í rökkrinu var okkur borðið til borðs. Óðum við reyk, klöngruðumst yfir geitur og í einu horninu var opinn eldur. Mira kona Gauri var að elda, búin að klöngrast upp fjallið og komin í hörku eldamennsku. Geri aðrir betur. Haninn í bitum í rótsterkri sósu, hrísgrjón og grænmeti. Dregin var fram motta, sett fyrir framan eldinn og við með krosslagðarfætur tókum einar til matar. Kurteisir fjallabúar sátu og fylgdust grannt með okkur. Sumir voru þó lystarlausir en aðrir borðuðu betur fyrir kurteisissakir.
Þá var það náttstaðurinn, hús efst á toppi fjallsins og gengið var úr rúmi fyrir okkur. Enn var klöngrast yfir geitur og upp hanabjálkastiga. Sér herbergi, lúxus og ekkert smá flott. Bandarísk plaköt prýddu ævaforna veggina og voru í skjön við allt umhverfið. Gluggi en engin rúða takk, greið leið fyrir allar moskítóflugurnar og aðrar smáverur. Þýðir ekkert að fást um slíka smámuni hér. Alsælar en í spreng klöngruðumst við á ný yfir geiturnar og á salernið. Smá skúr sem þurfti að bakka inní og gat í gólfinu. Flott var það, allavega var lyktin betri en á veitingastöðunum í Kathmandu. Nú var komið myrkur, vá allar stjörnurnar á himninum. Héldum að við hefðum oft séð stjörnubjartan himinn heima á fróni. Stjörnurnar voru svo stórar enda við í 2500 metra hæð og annan eins fjölda höfðum við aldrei séð. Klöngrast var yfir geiturnar á ný, náð í þrífótinn og cameruna, þetta skildi setja á kort. Þvælst var með græjurnar fram og til baka og börnin horfðu spennt á. Þvílíkar furðuverur sem voru komnar í heimsókn. Sjálfur Camera gúrú mættur á svæðið og Fríða P ber sjálfsagt það nafn til æviloka í þorpinu. Þá loks var tími til að hátta og ganga til náða. Í ullarfötin var farið og jakuxateppi breitt yfir sig. Þetta voru alls ekki svo slæm rúm enda sofnaði Fríða P fljótt meðan hin Fríðan horfði út um gluggann alla nóttina, horfði á stjörnurnar og íhugaði. Klukkan komin yfir miðnætti og vakna þurfti snemma til að sjá sólaruppkomuna. Klukkan þrjú galaði haninn, klukkan fjögur enn á ný og klukkan fimm rifum við okkur á fætur.
Margt fleira átti eftir að bera daginn, framhald seinna.
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vááááááá en dásamlegt, maður sér þetta allt fyrir sér. Hlakka til að heyra meira. Knús og kveðjur til ykkar elsku Ævintýra-Fríður.
Ragnhildur Jónsdóttir, 31.1.2009 kl. 12:06
Var að skoða nýja albúmið. :Þvílíkar myndir!! Stelpur, þetta er algjört ævintýri! takk takk að leyfa okkur að kíkja aðeins inn í ævintýraheiminn ykkar.
Ragnhildur Jónsdóttir, 31.1.2009 kl. 12:10
Já þvílík ævintýraferð. Skemmtileg frásögn og myndir. Nú er bara að finna Shangri La og þá er efni í jólabók.
Bestu kveðjur
Lalli
Lárus Vilhjálmsson, 31.1.2009 kl. 12:35
Þvílík upplifun! Æðisleg lýsing... á eftir að kíkja á myndir. Bestu kveðjur :-)
Helga Hin (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 18:16
Þetta ævintýri hlýtur að vera alveg frábært.
Kveðja Björg (systir Ellu).
Björg (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 23:04
Úllala.....hvað ég vildi mikið að ég væri þarna með ykkur. Greinilega mikil ævintýraferð. Njótiði en farið varlega. Kveðja. Auður frænka
Auður Hjaltad (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.