Líf og tilvera með influensu

Sælir allir vinir góðir, það hefur ekki margt gerst spennandi hér í Ktm frá því við komum úr fjallaferðinni og þó.  Eins og ykkur er kunnugt af fyrri skrifum okkar erum við heillaðar af Boudha stúpunni.  Fyrsta dag mánaðarins fórum við þangað aðallega til að íhuga og reka út illa anda.  Fríða G tók daginn snemma og hálf datt inn í messu hjá tíbetskum munkum og hlustaði á þá kyrja, þeyta lúðra og slá drumbur. Svona upplifun hafði hana dreymt um síðan hún var barn sem varð loks að raunveruleika. Fékk leiðsögn kringum stúpuna, gefið talnaband og hvítur klútur sem munkarnir fá aðeins eftir athafnir.  Látum það ósagt hvort hún hafi vígst inní Boudha söfnuðinn.  Fríða P mætti seinna á svæðið og fékk einnig leiðsögn kringum stúpuna af Lama munk frá Gompa klaustrinu.  Það er með ólíkindum hvað þessir heilögu menn laðast að miðaldra jullum frá klakanum.  Kannski finnst þeim að okkur veiti ekki af leiðsögn til að komast nær Nirvana.  Ýmislegt var á döfinni í stúpunni m.a. munka- og djöfladans.  Þegar var komið yfir miðjan dag kom loks að því að illu andarnir yfirgáfu okkur.  Lamamunkar blessuðu fána sem við rituðum nöfn fjölskyldu og vina á.  Stráð var hrísgrjónum yfir okkur og fánana, heilögu vatni dreift yfir og lit, blómum og olíu makað á höfuð okkar.  Allt blessað í bak og fyrir og næst lá leiðin uppá stúpuna til að flagga fánunum.  Margra metra fánalína með tugi fána var dregin að húni eða þannig.  Munu fánarnir hanga á stúpunni í heilt ár, okkur og þeim sem fengu nöfn sín rituð til blessunar.  Munu augu Búdda vaka yfir okkur og þeim öllum. 

Lítið annað markvert hefur gerst síðan enda erum við búnar að vera allan mánuðinn með Nepalska inflúensu.  Kvef, hósta, hita og aðra óværu.  Það helsta sem við höfum farið er í apótekið til að kaupa hin ýmsu bætiefni og lyf við óværunni.  Ekki er kostnaðurinn mikill þrátt fyrir hin ýmsu lyf og púst sem eru rándýr heima.  Maður verður klumsa, vikuskammtur af sýklalyfjum kosta 80 rúbí eða um 120 kr og taflan af Parasetamóli kostar krónu.  Kannski ætti maður að fara í samkeppni við íslensku lyfjakeðjurnar.  Nú er komið fram í miðjan mánuð og við enn druslulegar, hóstandi og kokandi dag og nótt.  Ekkert farið að lítast á blikuna og þó er þetta kannski ekki svona slæmt þó slæmt sé.  Hindúa munkarnir elta okkur enn um stræti Ktm með blóm og blessun.  Við eigum stundum fjöri að launa að komast undan þeim og þeirra blessun.  Strætismunkarnir eru heimtufrekir og vilja fá vel greitt fyrir hverja blessun sem við erum farnar að efast um að gagni okkur.  Þetta eru kannski farandleikarar sem telja villuráfandi sauðum trú um að þeir öðlist betra og eilíft líf, fara svo heim til fjölskyldunnar og slá upp veislu.  Við erum orðnar svo veraldarvanar núna að við þurfum þeirra blessunar ekki lengur við.

Í fyrramálið ætlum við í lúxus reisu á Himalayas Shangri La.  Dýrðlegan stað í fjöllunum með himneskt útsýni og dekur.  Í þetta sinn erum við vissar hvað við erum að fara út í eða hvað ?  Allavega fáum við bíl sem keyrir okkur að dyrum lúxus hótels.  Þar bíða okkar vonandi ný ævintýri með vinkonum okkar henni Guðrúnu Önnu, Vigdísi og dætrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Vona að þið njótið lúxusferðarinnar vel og losnið við kvefvesenið sem allra fyrst!

Ragnhildur Jónsdóttir, 12.2.2009 kl. 20:43

2 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Njótið ferðarinnar,,,,,,,, og látið ykkur batna,   heu ég fékk hér pensilín á rúmar 4000 kr     er búin að vera lasin........ og er að fara til Kanarí á miðvikudag ;)         Bestu kveðjur til þín Fríða Pálma ávalt frá mömmu á ég að rita er ég kíkji á ykkur og auðviða mér :)    Gangi ykkur sem allra best og pestina BURT !!!!

Erna Friðriksdóttir, 13.2.2009 kl. 13:13

3 identicon

Sælar og blessaðar Fríður.

Mikið er gaman að lesa um það sem þið eruð að upplifa. Vonandi að allar þessar munkablessanir beri árangur, þarf þónokkuð til ef árangur á að nást með Fríðu P. Látið ykkur batna flensan og hafið góðar kveðjur frá okkur í Víðiholti.

Sigga Helgad. (IP-tala skráð) 16.2.2009 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband