Ný ferðaplön

Lítið hefur gerst hjá okkur eftir að við komum heim frá Pokhara.  Við röltum næstum daglega til skraddaranna.  Já við hljótum að verða flottar í tauinu þegar við komum heim til Íslands.  Þrumur og eldingar hafa verið og rigningarskúrar, í sumum þrumunum ríður allt á reiðiskjálfi, þetta er eins og vera í loftárásum.  Rigningin gerir þó gott þar sem ekkert hafði rignt í 5 mánuði og mikið mistur yfir Kathmandu.  Loftið mun hreinna núna þrátt fyrir að mótorarnir gangi fyrir framan hverja búð hér.  Erum dálítið þreyttar á mengunin og gott væri að komast í einhverja daga í hreinna loft.

Um daginn ákváðum við að fara pílagrímaför til Indlands og heimsæja söguslóðir Búdda og bera Taj Mahal augum.  Við ætluðum að fljúga til Delhi og halda norður á bóginn til Dharmasala í heimsókn til Dali Lama, fara svo suður Indland og enda í Lumbini fæðingarstað Búdda hér í Nepal.  Þurftum að fara í Indverska sendiráðið og sækja um vísa.  Sem betur fer vorum við búnar að fá aðstoð því okkur fannst tími okkar of dýrmætur að eyða þremur dögum í sendiráðinu.  Næstum allt klappað og klárt og Yeshi vinur okkar frá Pokhara búin að gefa okkur dýrmæt ráð en hvað þá ?  Okkur yfirsást það í spenningi að 40 stiga hiti er í mið- og suður Indlandi.  Malaría og við þyrftum að taka einhver óþverra lyf í a.m.k. þrjár til fjórar vikur. Einnig er svo óvíst að landamærin yrðu opin er við kæmum til baka til Nepal en töluverðar óeirðir hafa verið þar.  Eins fljótt og við tókum ákvörðun um ferðalagið skúbbuðum við því.  Ekkert varið í að vera í öllum þessum hita í fólksmerg, með iðrakveisur að dröslast í Indverskum lestum eða rútum langar leiðir.  Þá er bara að finna annan en öruggari stað til að fara til.  Erum að skoða hvað nágrennið hefur uppá að bjóða.  Margar hugmyndir en engar ákvarðanir enn.  Við ætlum þó einhverja næstu daga að fara í útsýnisflug yfir Mt. Everest.

Yeshi og Tenzin eru búin að vera í Katmandu nú í þrjá daga og gaman að hitta þau aftur.  Yeshi er búin að þræða nokkrar búðir í leit að góðu Thankga með Fríðu P en ekkert fundist.  Næstum allt Thankga er málað fyrir túrista en Fríða P. er svo kresin að hún vill slíkt ekki.  Aðeins það sem Búddistar myndu vilja láta prýða heimili sitt sem er vandfundið nema fyrir of háa prísa að Yeshi mati.  Frænka Tenzin, hún Ani, býr hér í nunnuklaustur í Tirtipur rétt sunnan við Ktm og fórum við að heimsækja hana.  Í klaustrinu búa aðeins níu nunnur allan ársins hring og eru þær fullnuma í trúarbrögðunum.  Klaustrið var mjög fallegt og frábært útsýni þaðan.  Býr hún ásamt annarri nunnu í ca. 8 fermetra herbergi.  Gott að vita að hægt er að komast af með lítið.  Bauð hún okkur í mat og dvöldum við hálfan dag í klaustrinu í góðu yfirlæti.  Í kvöld bauð Guðrún Anna okkur, Yeshi og Tenzin í heimalagaða gúllassúpu.  Frábær matur og svo komu þau hjón okkur mjög á óvart.  Skólinn sem Yeshi stýrir í Pokhara gaf okkur öllum fallegt Thankga og urðum við allar mjög snortnar yfir slíkri gjöf.  Þar sem ekkert verður af Indlandsför okkar ákváðum við stöllur að heimsækja þessi öðlingshjón aftur og fara þaðan til Jomosom í nokkra daga.  Jomosom er lítið þorp norður af Pokhara og umlukið háum fjöllum og munum við örugglega hafa eitthvað spennandi að segja frá þeirri dvöl.  Búumst við við að fara í lok næstu viku.

Erum komnar með smá heimþrá og lái okkur það enginn.  Hún er fyrst að koma nú eftir næstum þriggja mánaða dvöl.  Farnar að sakna sérstaklega fjölskyldurnar, vina,  hreina loftsins og matarins en okkur finnst alltaf sama bragðið hvað svo sem við fáum okkur að borða.  Fríða P missir matarlystina eftir örfáa munnbita og við komnar með valkvíða hvar og hvað við eigum að borða.  Hálflystarlausar, eins og það geri eitthvað til.  Verra er að þegar við förum að slafra í okkur góðgætið heima mun þvermálið breytast og  ef öll fínu fötin frá skröddurunum muni þá ekki passa.Smile

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband