Everest flug

Við ætluðum að vera farnar í fjallaferð til Jomosom sem er lítið fjallaþorp í Annapurna fjallahringnum miðjum.  Veður gerast válind meira að segja hér í Nepal.  Höfum við frestað ferðinni þar sem rok, rigning og thunderstorm hefur verið á þessu svæði og ekkert gaman þegar maður getur ekki notið fallegrar fjallasýnar.  Því fórum við á sunnudaginn sl. í útsýnisflug yfir Himalaya fjöllin hér suðaustur af Kathmandu.  Við þurftum að vakna kl. 04 og vera mættar fyrir utan ferðaskrifstofuna kl. 05:30.  Á næturnar er höfuðborgin hér gjör ólík því sem er að degi til. Járnhlerar fyrir öllum búðum, dauðar rottur hér og þar. Og engar götulýsingar. Lentum í smá basli með bíl en leigubíll á vegum ferðaskrifstofunnar átti að sækja okkur.  Á réttum tíma stoppaði bíll og við vorum að reyna að spyrja þá hvort þeir væru þeir réttu en við værum að fara í Everest flug.  Þeir kinkuðu kolli og þegar á völlinn var komið kom í ljós að þetta var bara venjulegur leigubíll og við þurftum að greiða fyrir farið sem átti að vera frítt.  Við þurfum greinilega að læra Nepalí-tungumálið.  Við vorum mjög lánsamar að skyggnið var frábært og flugið tók um klukkustund.  Flugvellirnir hér eru kapítuli út af fyrir sig.  Mikil öryggisgæsla, allur búnaður skannaður og leitað á farþegum þrisvar sinnum.  Lítið gaf til kynna hvert maður átti að fara og hvenær vélin færi.  Jú, einhver manneskja æddi um og hrópaði áfangastað, Lukla ?  Nei og löngu seinna var ætt um aftur, Everest 302, var hrópað, nei svo kom það loks Everest 304.  Já loks var komið að því.  Vélin var lítil með 10 sætaröðum, við aftastar og vélin tókst á loft.  Eftir smá stund blöstu Himalaya fjöllin við, margir af hæðstu tindum veraldar, vá þvílík sjón og auðvita hæsti tindur heims Mt. Everest.  Meira að segja sáum við Tíbet í fjarska og var það góð tilfinning fyrir Fríðu G. en nær Tíbet kemst hún ekki, að þessu sinni.  Reynt var að mynda í gríð og erg, þetta þurfum við að sýna.  Það er ekki hægt að lýsa sumum hlutum, maður verður að upplifa þá.

Um daginn útskrifaðist litla vinkona okkar hún Snjólaug úr Mother Care skólanum.  Athöfnin var mjög skemmtileg og sagðar smá sögur af öllum sem útskrifuðust.  Snjólaug er mikið fyrir útiveru og leik og hefur beðið um að fá að vera fimm mínútum lengur í frímínútum á hverjum degi og næstum alltaf hafa kennarar hennar orðið við þeirri bón.  Útskriftarnemendur vorum með svarta hatta svipaða og þegar útskrifast er úr Bandarískum háskólum og Snjólaug glæsileg með hann í fallega kjólnum sínum.

Við söknuðum sárt Vigdísar og Ingibjargar og er stórt skarð höggvið í íslendingahópinn hér í Kathmandu. Gleðjumst þó mjög yfir hvað heimferð þeirra gekk vel.

Hlýnað hefur mjög hér og stundum erum við hálf lamaðar á ráfi um borgina, sem betur fer erum við öllum hnútum kunnugar nú og fátt kemur okkur úr jafnvægi.  Mengunin er þó stundum þreytandi og umferðin mikil og þung. Við þurftum að framlengja dvalarleyfið okkar og gekk það snurðulaust fyrir sig en gjaldið var búið að tvöfaldast.  En á leiðinni með leigubíl, í umferðarhnút, spúðu bílar og mótorhjól svörtu sóti yfir okkur.  Við verðum að komast úr borginni þó það sé ekki nema einn dagur og í dag fórum við í bíltúr.  Við Fríðurnar og Guðrún Anna fórum til Changu Narayan musterisins hér þó nokkuð fyrir utan Katmandu.  Mikið var gott að komast í kyrrð, ró og betra loft.  Í bakaleiðinni stoppuðum við í Bhaktapur og röltum um gamla bæinn þar.  Það var mjög gaman, en heldur heitt fyrir okkur Frónbúa.

Við fylgjumst nú grannt með veðurspánni og hlökkum mikið til að fara til Jomosom og bæst hefur í þann ferðahóp þar sem Auðbjörg og börn ætla með okkur ásamt Guðrúnu Önnu og Snjólaugu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Vá! þetta flug hlýtur að hafa verið meiriháttar! Frábærar myndirnar af fjöllunum og ykkur. Þakka ykkur fyrir að leyfa okkur að fylgjast með, það er ómetanlegt að fá að kíkja aðeins inn í ævintýrin ykkar

Knús og kveðjur og njótið vel þess tíma sem eftir er í útlandinu

Ragnhildur Jónsdóttir, 8.4.2009 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband