Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Lítið hefur gerst hjá okkur eftir að við komum heim frá Pokhara. Við röltum næstum daglega til skraddaranna. Já við hljótum að verða flottar í tauinu þegar við komum heim til Íslands. Þrumur og eldingar hafa verið og rigningarskúrar, í sumum þrumunum ríður allt á reiðiskjálfi, þetta er eins og vera í loftárásum. Rigningin gerir þó gott þar sem ekkert hafði rignt í 5 mánuði og mikið mistur yfir Kathmandu. Loftið mun hreinna núna þrátt fyrir að mótorarnir gangi fyrir framan hverja búð hér. Erum dálítið þreyttar á mengunin og gott væri að komast í einhverja daga í hreinna loft.
Um daginn ákváðum við að fara pílagrímaför til Indlands og heimsæja söguslóðir Búdda og bera Taj Mahal augum. Við ætluðum að fljúga til Delhi og halda norður á bóginn til Dharmasala í heimsókn til Dali Lama, fara svo suður Indland og enda í Lumbini fæðingarstað Búdda hér í Nepal. Þurftum að fara í Indverska sendiráðið og sækja um vísa. Sem betur fer vorum við búnar að fá aðstoð því okkur fannst tími okkar of dýrmætur að eyða þremur dögum í sendiráðinu. Næstum allt klappað og klárt og Yeshi vinur okkar frá Pokhara búin að gefa okkur dýrmæt ráð en hvað þá ? Okkur yfirsást það í spenningi að 40 stiga hiti er í mið- og suður Indlandi. Malaría og við þyrftum að taka einhver óþverra lyf í a.m.k. þrjár til fjórar vikur. Einnig er svo óvíst að landamærin yrðu opin er við kæmum til baka til Nepal en töluverðar óeirðir hafa verið þar. Eins fljótt og við tókum ákvörðun um ferðalagið skúbbuðum við því. Ekkert varið í að vera í öllum þessum hita í fólksmerg, með iðrakveisur að dröslast í Indverskum lestum eða rútum langar leiðir. Þá er bara að finna annan en öruggari stað til að fara til. Erum að skoða hvað nágrennið hefur uppá að bjóða. Margar hugmyndir en engar ákvarðanir enn. Við ætlum þó einhverja næstu daga að fara í útsýnisflug yfir Mt. Everest.
Yeshi og Tenzin eru búin að vera í Katmandu nú í þrjá daga og gaman að hitta þau aftur. Yeshi er búin að þræða nokkrar búðir í leit að góðu Thankga með Fríðu P en ekkert fundist. Næstum allt Thankga er málað fyrir túrista en Fríða P. er svo kresin að hún vill slíkt ekki. Aðeins það sem Búddistar myndu vilja láta prýða heimili sitt sem er vandfundið nema fyrir of háa prísa að Yeshi mati. Frænka Tenzin, hún Ani, býr hér í nunnuklaustur í Tirtipur rétt sunnan við Ktm og fórum við að heimsækja hana. Í klaustrinu búa aðeins níu nunnur allan ársins hring og eru þær fullnuma í trúarbrögðunum. Klaustrið var mjög fallegt og frábært útsýni þaðan. Býr hún ásamt annarri nunnu í ca. 8 fermetra herbergi. Gott að vita að hægt er að komast af með lítið. Bauð hún okkur í mat og dvöldum við hálfan dag í klaustrinu í góðu yfirlæti. Í kvöld bauð Guðrún Anna okkur, Yeshi og Tenzin í heimalagaða gúllassúpu. Frábær matur og svo komu þau hjón okkur mjög á óvart. Skólinn sem Yeshi stýrir í Pokhara gaf okkur öllum fallegt Thankga og urðum við allar mjög snortnar yfir slíkri gjöf. Þar sem ekkert verður af Indlandsför okkar ákváðum við stöllur að heimsækja þessi öðlingshjón aftur og fara þaðan til Jomosom í nokkra daga. Jomosom er lítið þorp norður af Pokhara og umlukið háum fjöllum og munum við örugglega hafa eitthvað spennandi að segja frá þeirri dvöl. Búumst við við að fara í lok næstu viku.
Erum komnar með smá heimþrá og lái okkur það enginn. Hún er fyrst að koma nú eftir næstum þriggja mánaða dvöl. Farnar að sakna sérstaklega fjölskyldurnar, vina, hreina loftsins og matarins en okkur finnst alltaf sama bragðið hvað svo sem við fáum okkur að borða. Fríða P missir matarlystina eftir örfáa munnbita og við komnar með valkvíða hvar og hvað við eigum að borða. Hálflystarlausar, eins og það geri eitthvað til. Verra er að þegar við förum að slafra í okkur góðgætið heima mun þvermálið breytast og ef öll fínu fötin frá skröddurunum muni þá ekki passa.Ferðalög | 28.3.2009 | 17:29 (breytt kl. 18:13) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Daginn fyrir för okkar til Pokhara var okkur boðið í grill til Sigga og Auðbjargar. Þau hjón eru búin að búa í Patan rétt fyrir utan Ktm í rúmt eitt og hálft ár og Siggi vinnur hjá Sameinuðuþjóðunum. Höfðinglega var tekið á móti okkur og fengum við dýrðlegan mat. Súpa, grillaður kjúklingur og nautakjöt ásamt kaffi og öðrum guðaveigum. Hundurinn Lubbi var fjörugur og drakk sprite af stút en kötturinn Berta hélt sig til hlés. Kvöldið var einstaklega ánægjulegt enda þau hjón skemmtileg og hafa frá mörgum ævintýrum að segja.
Sunnudagurinn 8. mars rann svo upp. Vaknað var snemma og lagt af stað til Pokhara kl. 7:30 með Green Line rútu. Rútan var ágæt nema bremsuklossarnir voru farnir að gefa sig og ískraði ógurlega þegar stigið var á bremsuna. Við stoppuðum þrisvar sinnum á leiðinni í mislangan tíma, snæddum ekki sérlega góðan hádegisverð sem var innifalinn í fargjaldinu. Ferðin til Pokhara tók tæpa átta tíma þó aðeins sé þetta 200 km sem segir allt um vegakerfið. Þegar stigið var út úr rútunni á áfangastað þyrptust menn frá ýmsum gististöðum og börðust um kúnnana. Einn vakti eftirtekt okkar, rafmagn allan sólarhringinn, sjónvarp, loftkæling, ískápur og heitt vatn. Fórum og skoðuðum aðstæður og okkur leist vel á og ekki svo dýrt. Hótel Travell Inn skildi það vera. Ágætlega staðsett rétt við Fewa vatnið. Á endanum reyndist ekkert meira rafmagn í boði en venjulega, ein ljóstýra lýsti þó upp herbergið frá morgni til kvölds. Loftkælingin, sjónvarpið og ísskápurinn var óvirkt mestan tímann og vatnið í sturtunni ískalt, lífsins gæði sem við heilluðumst að reyndust hjómið eitt enda rafmangsskortur enn mikill hér í Nepal.
Guðrún Anna á marga vini hér í Pokhara eftir fyrri dvöl. Meðal þeirra er það hann Yeshi sem rekur skóla ( Nagajuna Modern School ) fyrir tíbetsk börn úr fjallaþorpunum og fátæk börn sem búa í Pokhara. Heimsóttum við skólann en í honum eru 150 börn og 49 börn búa allan ársins hring þar. Þegar skólinn var stofnsettur árið 1999 voru 7 börn í skólanum. Öll börnin sem búa þar eru búin að missa allavega annað foreldrið og koma frá mjög fátækum heimilum og eru á aldrinum 4 ára til 14 ára. Yeshi fer sjálfur að sækja börnin til að vera viss um aðstæðurnar sem þau búa við. Skólinn er rekinn fyrir fé frá styrktaraðilum og ákváðum við að mynda hóp á íslandi utan um okkur vinkonurnar og styrkja skólann. Yeshi er að vinna frábært starf hér enda góður maður inn að hjartarótum. Börnin 49 sofa í tveimur herbergjum í kojum 3 saman í einu rúmi, svo þröngt er um þau. Þau eru glöð og una hag sínum vel enda hugsað vel um þau og aðstæðurnar mun betri í skólanum en þar sem þau fæddust.
Um kvöldið buðu Yeshi og konan hans hún Tenzin okkur í mat heim til sín. Þau búa í flóttamannabúðum Tíbeta dálítið fyrir utan Pokhara. Flóttamannabúðirnar er lítið þorp sem byggðist 1959 er Tíbetar flúðu frá Tíbet og heitir Hemja. Þorpið er þétt setið litlum húsum og aðeins göngustígar sem aðskilja þau. Klaustur er í miðju þorpsins og ganga Tíbetarnir í kringum það og biðja. Eru við vorum þar voru aðeins gamlar konur á göngu með bænahjólin sín. Gengum við um þorpið og vakti athygli okkar söngl og kyrj. Þegar nær kom komum við að húsi sem var U laga og þar sat aldrað fólk kyrjaði og sneri bænahjólum sínum. Þetta var þá heimili fyrir aldraða Tíbeta sem áttu engin börn sem gat séð um þau, öldrunarheimili. Ótrúlegt þarna sat háaldrað fólk með krosslagðar fætur, allir kyrjuðu rólegir og yfirvegaðir allan daginn. Mjög ólíkt því sem maður þekkir heima á Fróni.
Við erum mjög heillaðar af Tíbetum þar sem þeir hafa allt aðra nærveru en önnur þjóðarbrot hér í Nepal. Margar konur selja handverk á götum Pokhara og létum við ekki eftir okkur liggja að kaupa og styrkja Tíbetana. Dag einn er við sátum og drukkum kaffi komu tvær konur til okkar. Þær höfðu flúið Tíbet 1959 og þá aðeins börn og mundu varla eftir því. Ólíkt öðrum túristum buðum við þeim sæti og kaffi á meðan þær sýndu okkur varning sinn. Keyptum við armbönd og fleira í bunkum af þeim. Næstu daga vorum við búnar að kaupa af fleirum tíbetskum konum svona í pólitískum stuðningi. Nepalska stjórnin gerir Tíbetunum erfitt fyrir hægt og rólega og óttast sumir að þeir þurfi að flytja sig um set seinna meir, hvað sem verður.
Þann 10. mars var hátíðisdagur í Nepal sem kallast Holi. Er verið að fagna komu vorsins / sumarsins og er hátíð lita. Hátíðarhöldin fara þannig fram að allir eru makaðir með alls konar litum frá toppi til táar. Mikil spenna var fyrir deginum hjá dætrum Guðrúnar og Vigdísar þeim Snjólaugu og Ingibjörgu. Um morguninn byrjaði Fríða P að setja smá lit á þær í hótelgarðinum. Börnin í kring æstust upp, byrjuðu að skvetta vatni og lit inn um hliðið og á endanum var Fríðu P vísað út úr garðinum vegna óláta. Fjörið byrjaði svo fyrir alvöru er á götuna kom. Ráðist var að okkur og við allar útklíndar í lit. Stelpurnar urðu hálf skelkaðar í byrjun og fannst nóg um. Við vorum þó viðbúnar ýmsu, búnar að fylla blöðrur af vatni og komum börnunum mjög á óvart. Einnig voru keyptir litir er nepölsku börnin fengu þá að gjöf á endanum. Mikið fjör og gaman að virkja barnið í sér svona í einn dag.
Yeshi fór með okkur í skoðunarferð í kringum Pokhara, þvílíkur öðlingur. Hann á vin sem keyrir leigubíl sem heitir Bom og hefur hann þvælst með okkur um allt, góður og þægilegur drengur. Við skoðuðum elsta klaustrið hér en Yeshi var munkur til margra ára áður en hann sneri til þessa lífs. Við skoðuðum Gorkha hermannasafnið en Gorkha hermenn voru sérþjálfaðir af Bretum fyrir 200 árum og hafa tekið þátt í flest öllum stríðsátökum i heiminum síðan. Skoðuðum International Mountain Museum sem var fróðlegt á margan hátt. Fórum í hellaferð og fórum til Begnas vatnsins. Ánægjulegur dagur frá morgni fram á kvöld. Vorum reyndar dálítið þreyttar að sitja 7 í pínulitlum Suzuki á Nepölskum breiðgötum. Flestir vegirnir eru eins vegir Íslands fyrir 40 árum nema malbikaðir ef malbik skildi kalla.
Fleiri ferðir voru farnar með Bom. Einn morguninn vöknuðum við kl. 05 og haldið var til Sarankot, lítið þorp hátt fyrir utan Pokhara. Við ætluðum að sjá sólina koma upp yfir Annapurna fjallahringinn. En því miður var of mikið mistur og skýjað að ekkert varð úr þeirri dýrð. En önnur dýrð blasti við, sölubásar með dýrindis jakuxateppum, pasminasjölum og fleiri dýrgripum. Rann á okkur allar mikið æði. Guðrún Anna og Vigdís voru komnar í kennslu um hvað væri jakull og hvað ekki. Tætt var úr teppunum og kveikt í. Loks var komist að sannleikanum um jakullina, bara drasl sem selt var sem 100% jakull í Ktm. Ekta ullarteppi var falt fyrir 1350 rúbí. Meðan vinkonur okkar díluðu um verðið fórum við fríðurnar einum bás ofar. Teppi, smá blandað á rúm 800 rúbí og við fundum varla mun. Keyptum sitt hvor 3 stykkin og vorum alsælar. Svipurinn sem kom á vinkonur okkar er við færðum þeim tíðindin, að týma ekki að borga aðeins meira fyrir ekta vöru var fásinna. Þegar frá var horfið var skott bílsins fullt af jakuxateppum, rúmteppum, pasminasjölum og buddum. Næst keyrðum við við hinn enda Pokara að skoða stúpu. Vegurinn var svo torfarinn að bíllinn dreif ekki með okkur nema hálfa leið og því tók ein gangan enn við. Gengum við upp fjallið í um það bil klst. Ekki gátum við heldur notið útsýnisins þaðan sökum misturs en stúpan var falleg. Seinnipart dags komum við svo heim á hótel drullugar og rykugar upp fyrir haus. Fórum í ískalt bað og svo út að borða allar saman. Tíðindi, þegar vinkonur okkar fóru að skoða varning sinn var um allt annað að ræða en þær keyptu. Óekta jakuxateppi voru komin í stað þeirra fínu. Sölukonan hafði aldeilis blekkt þær. Meðan þær voru dáleiddar af fínu teppunum hafði hún skipt um án þess að þær grunuð nokkurn hlut, þvílík snilld. Enduðu þær með óekta teppi eins og hægt er að fá fyrir slikk í Ktm. Við fríðurnar vorum að sjálfsögðu alsælar með okkar smáblönduðu teppi á góðum prís. Mikið var hlegið að þessari uppákomu við kvöldmatinn og á endanum var sölukonan tekin í sátt fyrir snilli sína.
Jæja þá fer að styttast í sögulok en rúsínan í pylsuendanum er eftir. Heimsókn á heimili Yeshi og Tenzin tveimur kvöldum fyrir heimför. Yeshi útvegaði okkur Shamanista eða töfralækni úr flóttamannabúðunum. Mikil spenna var að fá að hitta svo merkilegan mann og láta hann lækna krankleika okkar. Við mættum kl. fimm og shamanistinn birtist svo rúmlega sex ásamt aðstoðarmanni sínum. Yeshi var greinilega búinn að undirbúa komu hans eftir kúnstarinnar reglum. Útvega hrísgrjón, reykelsi og borða ásamt helgimyndum. Útbúið var borð með skálum, hrísgrjónin flóðu út úr, kveikt á reykhelsum og kertum í bænaherberginu hans Yeshi. Shamanistinn byrjaði að undirbúa sig, sló drumbur, klingdi bjöllu og kyrjaði smá stund. Síðan fórum við öll inní herbergið og shamminn byrjaði. Í um það bil klst. sló hann handtrommu, klingdi bjöllu, kyrjaði og fór í trans. Kyrjaði hann með mismunandi áherslum og við fylgdumst með af miklum áhuga. Hann var með einhverskonar kórónu á höfði. Í miðri athöfn skipti hann um höfuðfat, klæddi sig í einhverskonar búning, setti koparplötu um háls sér og hélt áfram að kyrja. Allt í einu stökk hann á fætur liðugur sem geit og dansaði um herbergið sönglandi töfraþulu. Settist á nýjan leik og hélt áfram fyrri siðum. Loks vorum við tekin fyrir hvert fyrir sig og lýstum krankleika okkar fyrir honum. Tenzin kona Yeshi var fyrst, óskýrðir verki í baki um langa hríð. Setti hann rauðan klút á þann stað er verkurinn var og réðist svo á svæðið, saug og spýtti út úr sér steinum og sandi blóðlituðum, sennilega gallsteinar. Þvílíkt undur. Við hin fengum svipaða meðferð nema engir steinar hrjáðu okkur. Fengum við svo leiðbeiningar s.s. hvað hrjáði okkur, hvað við ættum að forðast ásamt ýmsum öðrum heillaráðum. Að lokum færðum við honum og aðstoðarmanni hans hvíta klúta með greiðslu í fyrir gjörninginn. Þessum viðburði verður ekki lýst en einhverjar myndir náðust ásamt vídeói. Sennilega verður þetta fyrsta og síðasta sinn sem við verðum vitni að síkum viðburði þar sem shamanistarnir virðast vera að líða undir lok. Hæfileikar þeirra hafa erfst frá föður til sona um ómuna tíð, komið frá einum elstu trúarbrögðum heims Bön.
Á sunnudaginn var ekki hægt að komast til Ktm. vegna ástands í landinu. Öll landamæri lokuð og ekkert eldsneyti að fá. Miklar óeirðir hafa verið milli þjóðarbrota á ákveðnu svæði og stjórnvöld lokuðu þjóðveginum. Við vorum þó aldrei í neinni hættu, röltum um í róglegheitum í of miklum hita sem hrjáði okkur þó nokkuð þessa viku. Heimferðin gekk vel í gær. Góða rúmið, heitt bað og vitneskja um hvenær rafmagn er beið okkar, Gauri og Hodras voru farnir að sakna okkar. Já alltaf jafngott að komast heim hvar sem það nú er. Illa gengur að koma myndum í albúmið en þær koma.Ferðalög | 17.3.2009 | 23:12 (breytt 18.3.2009 kl. 12:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Höfum tekið lífinu með ró síðan í síðasta bloggi. Heilsan er komin í lag og það sem hrjáir okkur mest þessa dagana er værukærð. Fórum reyndar að skoða Swayambhunath stúpuna nefnd öðru nafni Monkey Temple. Stendur hún á hæð í útjaðri Kathmandu og þaðan sést öll borgin og dalurinn í kringum borgina. Stúpan var áhugaverð og margt að sjá, allt öðruvísi en Boudhna stúpan. Blandast þar meira saman Búddisminn og Hindúatrúin. Aparnir hlupu um allt og skemmtilegt að fylgjast með þeim. Fríða G var að rölta í rólegheitum og hrökk upp við að þrifið var í vatnsflösku sem hún hélt á. Var þar á ferð stór karlapi og varði Fríða G flöskuna vel og fór með sigur að hólmi.
Sölumenn voru þarna út um allt eins og venja er. Fríða G komin í prútt stuð og gerði ágætiskaup á sumu. En það er erfitt að átta sig á hvaða verð sé sanngjarnt því byrjun er það himinhátt og lækkar ört fáum sekúndum eða skrefum lengra. Sem dæmi leist Fríðu G vel á styttur sem voru til sölu við stúpuna, þrefað um verð og gjafprís ? 1600 rúbí, ekkert athugavert við það. Stytturnar fallegar og allir ánægðir. Örfáum skrefum lengra voru eins styttur falar fyrir 1000 rúbí og þá átti eftir að prútta. Svona eru sumar verslunarleiðangrarnir okkar en við höfum samt viðað að okkur dýrmætri þekkingu á verðlagi og látum ekki alltaf plata okkur svo glatt. Í fyrradag var Fríða G hörð, kaupa átti Nepalskan hatt. Uppsett verð var 600 rúbí en Fríða hló og sagðist geta fengið hann á 100 rúbí og verðið snarlækkaði á innan við 15 sek. Var hatturinn falur á 100 rúbí. Höfum látið sauma á okkur föt því margt er ekki hægt af fá nema í barnastærðum og þreytandi að ganga búð úr búð og ekkert passar. Íþróttaskór eru á góðu verði eins og margt annað t.d. gleraugu, ipod og tölvutengdar græjur.
Þá er það saga til næsta bæjar er Fríða G ætlaði að kaupa sér ipod. Ýmislegt s.s. umbúðir og útlit vakti furðu okkar. Þetta var sjóræningjaútgáfa og ekkert varð af kaupunum. Það er eins gott að vera á verði. Sumir sölumenn eru óvægnir og setja himinhá verð upp, en við höfum nokkrum sinnum verið "rændar" af þeim og nú er þeim kafla lokið hér í Ktm.
Við röltum í pósthúsið um daginn því hér á götuhornunum eru aðilar sem gera út á að taka við pökkum og koma þeim í póst fyrir himinháar upphæðir. 17000 rúbí fyrir 10 kg eða 26000 kr. isl, nei allt of mikið sett á þjónustuna og þá var bara að leita að betri dílum og þess vegna fórum við í höfuðstöðvarnar. Er inn kom í stóra byggingu blasti við fornaldarleg vinnubrögð og afgreiðsla ekki upp á marga fiska. Biðum bið þó róglegar eftir afgreiðslu sem kom eftir dúk og disk. Á meðan við biðum kom ræstingardama og rak okkur frá því hún þurfti að þurrka af borðum. Fengum þó loks afgreiðslu. Nei við tökum aðeins við 2ja kg bögglum, þið þurfið að fara á annan stað. Við röltum hinumegin í bygginguna. Þar sátu konur og saumuðu taui utanum pakka í höndunum og síðan voru þeir innsiglaðir með vaxi eins og í gamladaga. Reyndum að fá upplýsingar en þá var okkur bent á borð og þar kæmi maður einhvertímann og afgreiddi okkur. Við hefðu sjálfsagt orðið dálítið pirraðar ef við hefðum ekki getað notað tíman til að fylgjast með þess undraverður athöfnum kvennanna. Að lokum kom þó maðurinn og verðið nú 7000 rúbí fyrir 10 kg og eitthvert gjald fyrir pökkunina.
Hér inní miðri Ktm ef fallegur garður Garden of Dream í miðaldarstíl, eins og maður hefur séð í bíómyndum frá 1940 þar sem enskir hefðarmenn höfðu aðsetur sín í Asíu. Þar er gott að dvelja um stund í friði og ró, lesa bók og sóla sig. Ótrúlegt að finna svona friðsælan og fallegan stað í miðju skarkalans. Alltaf er sól og nú er að hitna verulega. Hitinn kominn í um 30 gráður á daginn. Erum farnar að vera dasaðar og orkulausa að ganga langar vegarlengdir.
Við erum búnar að vera fremur værukærar síðustu tvær vikur. Rölt aðeins um á hverjum degi. Mikil orka fer í það að finna út á hvað stað við eigum að borða í hitt og þetta sinnið. Byrjum daginn nú á að elda hafragraut, erum hættar að fara á þakið í morgunmat til vinar okkar hans Hodrasar enda hafa viðskipti hans dregist verulega saman. Eggin, kartöflurnar og brauðið var ekki að fara vel í maga dag eftir dag í 1 ½ mán.
Í gær fórum við í Thangka verslun því Fríða P ætlar að fjárfesta í einni slíkri mynd. Hugsa þarf vel hvaða boðskap Thangkað hefur að færa. Fengum við frábæra kennslu og fræðslu um það. Ofaná verður sennilega Thangka sem inniheldur Wheel of live eða lífshjólið og segir það allt sem segja þarf um manninn, ferðir hans í lífs- og sálarþroskanum frá fæðingu til lok þessa lífs og næstu lífa. Hvaða afleiðingar val okkar getur haft á líf okkar og alheiminn. Næst á eftir að fara og sjá myndirnar málaðar áður en endanlega ákvörðun verðum tekin um val á mynd.
G.Anna og Vigdís buðu okkur um daginn í heimalagaða gúllassúpu sem var besti maturinn sem við höfum borðað frá því við komu til Ktm. Í dag er okkur boðið í grill hjá Auðbjörgu og Sigga. Hlökkum við mikið til grillveislunnar hjá því yndislega fólki.
Á sunnudaginn er búið að planleggja að fara til Pokhara sem eru náttúruperlur Nepals. Fara á með rútu og tekur það 6 - 8 klst að keyra 200 km. Þá þarf ekkert að segja meira um vegakerfið hér. Áætlaður dvalartími er 8 -10 dagar.
Þegar þeirri ferð er lokið munum við örugglega hafa margt að segja frá.
Ferðalög | 7.3.2009 | 05:38 (breytt kl. 05:44) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar